Skordýr og þari sem fóðurbætir
Samkvæmt yfirlýsingu frá Alþjóðasjóði villtra dýra, WWF, verður að finna nýjan valkost við fóðrun búfjár til að draga úr skógareyðingu og eyðingu náttúrulegra svæða í heiminum.
Meðal hugmynda sem hafa komið fram er að fóðra skuli jórturdýr, sérstaklega nautgripi, á þara og skordýrum. Samkvæmt því sem kom fram á ráðstefnunni Extinction and Livestock, sem haldin var í október á síðasta ári, mælir ekkert gegn því að ala búfé að hluta til á skordýrum og þara.
Ræktun á fóðri, soja og maís og framleiðsla á fiskimjöli til framleiðslu á fóðri er gríðarlega landfrek og krefst mikils fiskjar.
Samkvæmt rökum WWF er mun ódýrara að fóðra búfé á skordýrum og þara en því fóðri sem notað er í dag og auk þess einnig mun umhverfisvænna. Tilraunir við notkun á þessu nýja fóðri er þegar hafin og er sögð lofa góðu. Sem ætti ekki að vera neitt nýtt fyrir íslenska sauðfjárbændur sem hafa lagt stund á fjörubeit fjár allt frá landnámi.