Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Nýi Hreppa skyrdrykkurinn sem væntanlega kemur á innanlandsmarkað í vor. Framleiðandinn segir Ísland hinn fullkomna tilraunamarkað og mögulega verði skoðuð þróun og framleiðsla fyrir erlenda markaði.
Nýi Hreppa skyrdrykkurinn sem væntanlega kemur á innanlandsmarkað í vor. Framleiðandinn segir Ísland hinn fullkomna tilraunamarkað og mögulega verði skoðuð þróun og framleiðsla fyrir erlenda markaði.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 16. febrúar 2024

Skyrdrykkur komst í gegnum nálarauga smakkhóps

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hreppa skyrdrykkur kemur á markaðinn í apríl. Í honum eru, að sögn framleiðanda, engin sætuefni heldur aðeins náttúrulegt bragðefni.

Margrét Hrund Arnarsdóttir.

Hreppamjólk er vörumerki Fjölskyldubúsins ehf. og sérhæfir sig í að koma með mjólkurnýjungar á markað. Nú eru átta vörutegundir á boðstólum.

Margrét Hrund Arnarsdóttir er framkvæmdastjóri Hreppamjólkur sem stofnuð var árið 2021. Hún skrifaði árið 2020 í lokaritgerð við viðskiptafræðideild HÍ um hvort arðbært væri að hefja sölu á gerilsneyddri, ófitusprengdri mjólk í sjálfsölum. Faðir hennar, Arnar Bjarni Eiríksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Landstólpa og Fjölskyldubúsins í Gunnbjarnarholti, hafði lúrt á slíkri hugmynd um árabil og var því lag að samtvinna hana námi Margrétar.

Úr handverki í heila pökkunarlínu

„Við höfum alltaf haft það markmið að vinna vörurnar sem minnst og þar af leiðandi ekki fitusprengja þær,“ segir Margrét. „Þegar við byrjuðum með Hreppamjólk fundum við strax að fólk var forvitið um þessa starfsemi og margir kölluðu eftir vörum án viðbætts sykurs. Úr því varð Hreppa Skyrdrykkur með fjórum mismunandi bragðtegundum. Þróunin hefur staðið yfir frá því síðasta vor/sumar en með því að færa okkur úr handverki í höndum upp í heila pökkunarlínu þurftum við að þróa vöru sem samnýtist með öllum hinum vörunum okkar í pökkunarvélina. Við horfðum því í heilsusamlegan drykk og upp frá því fórum við að kynna þessa vöru á matarmörkuðum og öðrum kynningum og viðbrögðin farið fram úr öllum væntingum,“ segir hún.

Um það hvert ferlið var frá hugmynd til búðarhillunnar segir Margrét það hafa byrjað á að finna gerla sem henti vel í drykkinn.

„Við erum með mjög færan mjólkurfræðing, Runólf Árna Runólfsson, í vinnu hjá okkur,“ útskýrir hún og heldur áfram: „Hann veit oftar en ekki hvað þarf að laga og betrumbæta svo að varan sé eins og við viljum hafa hana. Það hefur svo tekið langan tíma að finna fyrirtæki með réttu bragðefnin fyrir okkur og við erum búin að prófa ansi mörg. Við sóttum svo um styrk hjá Högum til þess að geta þróað vöruna enn betur fyrir markaðinn en hann gaf okkur einnig færi á að komast í nálægð við dreifðari markhóp og þróa vöruna í takt við það,“ segir hún jafnframt.

Markmiðið er, að sögn Margrétar, að neytandinn neyti mjólkurafurða sem eru sem næst uppruna sínum. „Því höldum við fast í að allar okkar vörur séu ófitusprengdar og rekjanlegar beint í Fjölskyldubúið. Við erum einnig komin með smakkhóp, þar sem við sendum vörurnar á smakkarana og þeir gefa endurgjöf. Það hefur hjálpað okkur að sjá hvað megi bæta. Hreppa skyrdrykkurinn er væntanlegur á markað í apríl en þá ættu allar græjur og umbúðir að vera klárar,“ segir hún enn fremur.

Heilsusamlegt markmið

Aðspurð um sérstöðu Hreppamjólkur á markaði segir Margrét hana fyrst og fremst vera ófitusprengdu mjólkina en rannsóknir hafi sýnt fram á að ófitusprengd mjólk geti hentað betur fyrir fólk með laktósaóþol. „Fitusprenging breytir fitunni í örsmáar agnir sem fara beint í gegnum bragðlaukana án þess að þú takir eftir henni og því er ófitusprengd mjólk bragðmeiri,“ segir hún til skýringar. „Mjólkin okkar er einnig fitumeiri en þessi hefðbundna þar sem við styðjumst við meðaltal Fjölskyldubúsins. Skyrdrykkurinn inniheldur engan viðbættan sykur eða sætuefni en það er markmið okkar að hafa vörurnar sem heilsusamlegastar. Með þessu erum við einnig að auka fjölbreytileika á drykkjarvörum úr mjólkurafurðum sem getur verið þægilegt í hröðu samfélagi eins og Ísland er. Þetta er alveg sykur- og sætuefnalaus drykkur og því afar hentugur fyrir allar kynslóðir, þ.e. frá því að börn byrja að borða fasta fæðu og um ókomna tíð,“ segir hún.

Fleiri vörur í prófunum

Um það hvert hún stefni með Hreppa skyrdrykkinn segir hún hann verða til sölu í öllum Hagkaupsverslunum til að byrja með. „Svo verður tíð og tími að leiða okkur áfram með hvað við gerum svo,“ segir hún og bætir við að þau séu vissulega með háleit markmið um þróun og framleiðslu á vöru fyrir erlenda markaði og segja megi að Ísland sé hinn fullkomni tilraunamarkaður.

Margrét er hvergi nærri hætt og segist vera í frekari vöruþróun. „Við erum alltaf að þróa nýjungar og bætingar og nú þegar hafa nokkrar vörur farið í prufur og nauðsynlegt að ákveða hvaða vörur komast í gegnum síuna. Það er ljóst að á neytendamarkaði er sífellt meiri áhugi á minna unnum vörum ásamt nýjungum á heilsusamlegri valkostum,“ segir Margrét að endingu.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...