Sláturlömbum fækkar en meðalvigt hærri milli ára
Meðalfallþungi sláturlamba í haust var 0,15 kílóum hærri í haust en á síðasta ári. Fallþungi sláturlamba á Norðurlandi var hærri en á Suðurlandi og í ár var slátrað meira af fullorðnu fé og hrútum en í fyrra.
Meðalfallþungi dilka á nýliðinni sláturtíð var 16,56 kíló, sem er 0,15 kílóum meira en á síðasta ári. Heildarfjöldi sláturlamba hefur aftur á móti dregist saman úr 599.954 árið 2017 í 542.674 árið 2018.
Meiru af fullorðnu fé var slátrað í ár en í fyrra. Alls var í ár slátrað 59.500 ám og hrútum í haust sem er 4.350 minna en á síðasta ári.
Lægri meðalvigt á Suðurlandi
Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að fallþungi norðanlands hafi verið hærri en sunnanlands. „Tíðin sunnanlands í vor var erfið og í sumum tilfellum geltust ærnar hreinlega upp og meðalþyngd dilka hjá okkur var 16,5 kíló 2017 en var 16,3 kíló í ár.
Sláturlömbum fækkaði um 5% milli ára en þau voru 102.752 í fyrra en 97.352 í ár. Fullorðnu fé fjölgaði aftur á móti úr 11.425 í 11.831 milli ára.
Steinþór segir að þar sem ærslátrunin er að aukast þrátt fyrir samdrátt í dilkum þá dragi hann þá ályktun að von sé á svipaðri fækkun næsta haust, eða 4–5%.
Veruleg aukning í slátrun á fullorðnu fé
Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að sláturtíðin hafi gengið vel í ár. Bæði hvað varðar samvinnu við bændur og að fá fé til slátrunar. „Við rekum tvö sláturhús, annað á Húsavík og hitt á Höfn. Samanlagt felldum við 114.861 lamb og fullorðið fé á báðum stöðum. Fallþunginn á Húsavík var 16,7 kíló sem er 270 grömmum hærri en árið 2017 og hann var 16,3 sem einnig er 270 grömmum meiri en 2017.“
Ágúst segir aukningu vera í slátrun á fullorðnu fé milli ára. „Í ár slátruðum við 12.200 fullorðnum ám og hrútum en í fyrra 10.604. Þannig að aukningin er veruleg á milli ára.“