Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Nautastöð Bændasamtaka Íslands.
Nautastöð Bændasamtaka Íslands.
Mynd / VH
Fréttir 25. október 2017

Söfnun vefjasýna gengur vel

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson / Hörður Kristjánsson
Undanfarið ár hefur á vettvangi Bændasamtaka Íslands, í samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Landbúnaðar­háskóla Íslands, verið unnið við undirbúning að mögulegri innleiðingu á erfðamengisúrvali í íslenskri nautgriparækt. 
 
Markmiðið með erfðamengis­úrvali er að gera okkur kleift að spá fyrir um kynbótagildi gripa á grundvelli arfgerðar þeirra, fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. 
 
Vonir standa til að þessi úrvalsaðferð komi í stað hefðbundinna afkvæmaprófana sem stundaðar hafa verið hér á landi í áratugi. Með því móti má stytta ættliðabilið í nautgriparæktinni verulega og auka þannig árlegar erfðaframfarir sem því nemur. 
 
Kostnaður við kynbótastarfið mun einnig minnka verði erfðamengisúrval innleitt, þar sem Nautastöð BÍ mun einungis kaupa „reynd“ naut á stöðina; kynbótamat þeirra mun liggja fyrir áður en sæðistaka hefst. Þessi aðferð hefur verið tekin upp í öllum nálægum löndum og hefur reynst alger bylting í kynbótastarfi nautgriparæktarinnar.
 
500 naut, 5.000 kýr og 2.500 kvígur
 
Erfðamengisúrval grundvallast á sk. viðmiðunarstofni gripa, það eru gripir sem hafa bæði greiningu á arfgerð og mælingar á svipgerð (upplýsingar úr skýrsluhaldi um afurðir, útlit, frumutölu, mjaltir, skap o.s.frv.). 
 
Afkvæmaprófuð naut eru horn­steinninn í þessum viðmiðunarhópi en á næstunni verður greind arfgerð um 500 afkvæmaprófaðra nauta úr árgöngum 1990–2012 á nautastöðinni. Í þá greiningu verða notuð sæðissýni úr nautunum, en ávallt eru geymdir nokkrir skammtar úr hverju þeirra að lokinni notkun. 
 
„Til að vega á móti því hversu fá reyndu nautin eru, hafa vísindamenn við Árósaháskóla, sem verið hafa okkur til ráðuneytis í verkefninu, lagt til að tekin verði vefjasýni úr 5.000 kúm hið minnsta og mælingar á arfgerð þeirra verið lögð til grundvallar að framangreindum viðmiðunarstofni. Til viðbótar hyggjumst við taka sýni úr ca 2.500 kvígum, í fyllingu tímans munu þær síðan einnig skila upplýsingum til verkefnisins í gegnum skýrsluhald nautgriparæktarinnar,“ segir  Baldur Helgi Benjamínsson, búfjárerfðafræðingur og verkefnis­stjóri hjá BÍ.
 
Sýni úr tæplega 1.800 gripum
 
Sýnasöfnunin er í fullum gangi þessa dagana og hafa sýni verið tekin úr tæplega 1.800 gripum; rúmlega 1.500 kúm og á þriðja hundrað kvígum, á 30 búum. 
 
Umsjón með sýnatökunni hafa Baldur Helgi Benjamínsson, verkefnisstjóri hjá BÍ og Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður nautgriparæktar hjá RML. Verkefnið er fjármagnað af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Landssambandi kúabænda og hefur Matvælastofnun veitt leyfi fyrir verkefninu. 
 
Alls 124 bú um land allt uppfylla skilyrði verkefnisins um gagnagæði, þ.e. að nýting mjólkur (hlutfall innlagðrar mjólkur af framleiddri mjólk skv. skýrslu­haldi) sé á bilinu 90–99,9% undanfarin 3 ár. Einnig að skýrslu­skil og mjólkursýnataka sé regluleg, ættfærslur traustar og að minnst 75% af kúm og kvígum á búinu séu undan sæðinganautum. Vefjasýnin eru tekin úr eyrum gripanna með sk. „tissue sampling unit“ frá hinum þekkta gripamerkjaframleiðanda Allflex. Sýnatökubúnaðurinn samanstendur af töng sem sýnatökuglasi er komið fyrir í. Í loki þess er hringlaga hnífur sem tekur ca 3 mm sveran húðflipa úr eyra gripsins, sem dettur ofan í glasið og það lokast um leið og sýnið er tekið. Á hlið glassins er sýnisnúmer sem skráð er samhliða númeri gripsins. Í skýrsluhaldskerfið Huppu hefur verið útbúinn skráningarhamur, þar sem hægt er að skanna sýnanúmerin beint á viðkomandi grip. 
 
Vonir standa til að sýnatakan verði langt komin um næstu áramót og að þá verði hægt að taka til við að greina arfgerð gripanna á grundvelli þeirra.
Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...