Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Kristbjörg Sara Thorarensen, dýralæknir á sníkjudýradeildinni á Keldum, sem fer fyrir rannsókninni. Hún hvetur kúabændur til að svara spurningalista sem hefur verið sendur út.
Kristbjörg Sara Thorarensen, dýralæknir á sníkjudýradeildinni á Keldum, sem fer fyrir rannsókninni. Hún hvetur kúabændur til að svara spurningalista sem hefur verið sendur út.
Mynd / Aðsend
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.

Kristbjörg Sara Thorarensen, dýralæknir á sníkjudýradeildinni á Keldum, fer fyrir rannsókninni sem tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum stendur fyrir.

Langt er síðan skipulegar rannsóknir fóru fram á sníkjuormum í nautgripum á Íslandi. Til eru rannsóknir frá 1962 og 1976– 1979 sem Sigurður H. Richter framkvæmdi meðal annarra. Í þeim rannsóknum fundust nokkrar tegundir sníkjuorma í meltingarvegi og lungum gripanna.

Kristbjörg Sara segir að ormarnir valdi misalvarlegum einkennum hjá gripunum eftir tegundum. „Þó sumar tegundir valdi augljósum sjúkdómseinkennum eru aðrar, sem valda vanþrifum án augljósra einkenna. Vanþrif koma niður á velferð gripanna ásamt því að valda fjárhagslegu tjóni fyrir bændur vegna minnkaðrar framleiðslu og lélegrar fóðurnýtingar. Ætlunin er að nota sameindalíffræðilegar aðferðir til að staðfesta greiningu þeirra tegunda sem áður hefur verið lýst hér á landi en einnig athuga hvort að hér séu til staðar fleiri tegundir sem ekki hafa fundist enn þá. Þessar aðferðir notast við erfðaefni sníkjuormanna til að greina þá til tegunda,“ segir Kristbjörg Sara.

Saursýnum verður safnað úr nautgripum á ólíkum aldri, sem aldir eru upp við mismunandi aðstæður víðs vegar um landið en eftir skoðun á þeim verður hægt að áætla hvaða gripir eru líklegastir til að bera smit og hvaða umhverfisaðstæður skipta þar máli.

Sníkjuormar algengastir í meltingarvegi

Kristbjörg Sara segir að ekkert bendi til þess að sníkjuormar í nautgripum á Íslandi séu stórt vandamál en lítið sé vitað um stöðuna.

„Sníkjuormarnir hafa upphaflega komið með þeim gripum sem fluttir voru hingað til lands í fyrndinni. Mismunandi er eftir sníkjuormategundum í hvaða líffærum gripanna þeir taka sér bólfestu en algengt er að um meltingarveginn sé að ræða. Margar tegundir sníkjuorma hafa beinan lífsferil þannig að smit getur borist beint frá einum grip til annars án aðkomu millihýsils. Fullorðnir ormar framleiða egg sem skiljast út í saur. Eggin þroskast síðan í umhverfinu við hagstæðar aðstæður og ná smithæfu lirfustigi.“

Ef nautgripur étur slíkar lirfur, til dæmis með saurmenguðu grasi, geti það orðið til þess að gripurinn smitast og þannig viðhelst lífsferill ormsins.

Lirfur lifa af veturinn

Lirfur geta lifað af vetur á beitarlöndum að sögn Kristbjargar Söru. Þannig geti beitarlönd borið smit frá einu ári til annars.

Einnig sé það þekkt hjá einni tegund, sem fyrirfinnst hér á landi, að lirfur geta lagst í dvala í líkama gripanna, jafnvel á stöðum þar sem sum ormalyf ná ekki til með virkni sína. „Þannig viðhaldast sýkingarnar þegar lirfurnar ranka við sér úr dvalanum við ákveðnar aðstæður, þroskast upp á fullorðinsstig og hefja framleiðslu eggja.“

Þessi kýr er hoppandi glöð og kát með að komast út í sumarið en nú er einmitt að hefjast rannsókn sem snýst um að kortleggja stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum. Mynd/mhh

Kanna lyfjaónæmi

Samhliða rannsókninni verður ormalyfjanotkun í nautgripum líka könnuð.

„Erlendis hafa rannsóknir sýnt að lyfjaónæmi er til staðar í mörgum þeim tegundum sníkjuorma, sem smita bæði gæludýr og húsdýr. Þegar sníkjuormar hafa þróað með sér ónæmi gegn lyfi þýðir það að virkni lyfsins er minni, jafnvel engin, gagnvart ormasýkingunum. Þegar tegundir sníkjuorma sem valda alvarlegum einkennum hjá gripunum hafa þróað með sér ónæmi gegn einu eða fleiri lyfjum, erum við í vondum málum ef engin lyf eru til sem virka gegn sýkingunum.

Því er mikilvægt að þau lyf sem við höfum til meðhöndlunar á sníkjuormasýkingum séu notuð rétt, til dæmis að meðhöndla á réttum tíma miðað við lífsferil ormanna en einnig með réttum skömmtum miðað við þyngd gripanna til að forðast vanskömmtun,“ segir Kristbjörg Sara og leggur áherslu á mikilvægi þess að kanna í hversu miklum mæli er verið að nota ormalyf í nautgripi og hvaða lyf er algengast að séu notuð.

Því munu rannsakendur einnig fylgjast með vísbendingum um lyfjaónæmi hér.

Spurningalisti til kúabænda

Rannsakendur hafa sent út spurningalista til kúabænda vegna rannsóknarinnar. „Nokkrir bændur hafa svarað og erum við afar þakklát þeim. En heimturnar mættu vera betri. Við yrðum afar þakklát ef fleiri myndu svara spurningalistanum því upplýsingarnar sem þar aflast koma til með að nýtast bæði bændum, dýralæknum og öðrum sem koma að umönnun og meðhöndlun nautgripa. Það væri líka gott að komast í samband við bændur með gripi, hvort sem það er í mjólkurframleiðslu eða kjötframleiðslu, sem eru til í að leyfa okkur að koma og taka hjá þeim saursýni,“ segir Kristbjörg Sara.

Hægt er að finna spurningalistann inn á Facebook-hópnum „Kúabændur og spekúlantar“, en einnig er hægt að fá upplýsingar með því að senda Kristbjörgu Söru tölvupóst á netfangið sarathor@hi.is.

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...