Stærsta skordýraeldi á Norðurlöndum
Rétt utan við Horsens á Jótlandi stefnir fóður- og matvælafyrirtækið Enorn Biofactory á að starfrækja stærstu skordýraeldisstöð á Norðurlöndum. Blaðamaður Bændablaðsins heimsóti stöðina síðastliðið sumar og fræddist um áformin og væntanlegar afurðir eldisstöðvarinnar.
Í dag framleiðir Enorn milli 10 og 15 tonn af lirfum á viku en gangi áætlanir eftir mun fyrirtækið innan tíðar framleiða um 100 tonn af lirfum svartra herflugna af tegundinni Hermetia illucens á dag um mitt næsta ár. Með aukinni framleiðslu mun starfsmönnum fyrirtækisins fjölga úr 12 í 55.
Lirfurnar eru þegar í dag þurrkaðar og notaðar sem fóður fyrir fiska, svín, alifugla og ýmiss konar gæludýr og meðal annars í hundafóður.
Fóður og manneldi
Stig Veis Jørgensen, markaðsstjóri Enorm, segir að þrátt fyrir að áform fyrirtækisins séu stór í sniðum hafi lengi verið talað um skordýraeldi í háði og sem eins konar brandari. „Við hjá Enorm erum á öðru máli og sannfærð um að eldið eigi framtíðina fyrir sér. Til að byrja með einbeitum við okkur að afurðum til fóðurframleiðslu en ég er viss um að skordýraprótein verði notað til manneldis eftir nokkur ár.“
Samkvæmt yfirlýsingu Enorm er stefna fyrirtækisins að vinna að og hjálpa til við að tryggja fæðuöryggi fólks í framtíðinni og á sama tíma að ofnýta ekki náttúruauðlundir jarðar né menga að óþörfu.
Éta úrgang frá matvælaiðnaði
„Eftir að eldið og verksmiðjan því tengdu er komið á fullt komum við til með að framleiða um 100 tonn af lirfum á dag. Lirfurnar lifa mestmegnis á úrgangi frá matvælaiðnaði og jafnvel matarafgöngum frá heimilum. Flugurnar eru því ekki matvondar og því auðvelt að fá fóður handa þeim.“
Jørgensen segir að þrátt fyrir að lirfurnar séu ekki kreðsnar á fóður verði að gæta þess að gefa þeim ekki hvaða sem er.
„Það mega til dæmis ekki finnast leifar af skordýraeitri í fæðunni því það getur drepið flugurnar.“
Verpa frá 700 til 1.200 eggjum
Svartar herflugur eins og Danirnir ala eru að meðaltali 16 millimetrar á lengd, svartar að lit með lítils háttar gljáa. Hausinn er hlutfallslega stór, augun vel þroskuð og fálmararnir langir.
Kvenflugur verpa frá 700 til 1.200 eggjum í sérhönnuð varphólf í eldinu og klekjast eggin út á fjórum dögum. Við klak eru lirfurnar um einn millimetri að lengd. Þær vaxa hægt fyrstu dagana en taka svo vaxtarkipp og ná réttri stærð til áframvinnslu á 17 dögum. Líftími flugnanna frá varpi er milli 45 til 60 dagar og fullorðnar herflugur drepast fljótlega eftir varp.
Flugurnar þurfa ekki mikið rými og eldið felst aðallega í að sjá flugunum fyrir æti og halda á þeim réttu hita-, raka- og birtustigi.
Aðspurður sagði Jørgensen að miðað við núverandi hitastig í Danmörku myndu flugurnar ekki lifa utandyra og því ekki hætta á að þær yrðu plága í landinu.
Framleiðsluferlið
Í grófum dráttum er framleiðsluferlið hjá Enorn á þann veg að flugurnar lifa í búrum þar sem þær para sig og verpa í varphólf. Varphólfin eru flutt í ræktunarhús með vaxtarbásum þar sem eggin klekjast út og lirfurnar fara í eldi.
Eftir að lirfurnar hafa ná kjörstærð eru þær þurrkaðar og pressaðar og malaðar í duft sem er gerilsneytt og unnið í prótein og trefjar. Auk þess sem unnin er olía úr þeim.