Stálu nashyrningshornum fyrir 141 milljón krón
Þjófar í Mósambík brutust inn í geymslu lögreglunnar í Maputo, höfuðborg landsins, og höfðu á brott með sér tólf nashyrningshorn sem metinn eru á 700.000 bresk pund, eða un 141 milljón íslenskra króna.
Ekki eru margar vikur liðnar síðan lögreglan í Mósambík gerði upptæk mörg nashyrningshorn og fílatennur sem selja átti úr landi. Tólf þessara horna hefur nú verið stolið úr vörslu lögreglunnar. Fréttir herma að gæsla á hornunum hafi verið lítil og þau geymd í litlum skáp sem læstur var með þremur hengilásum.
Talið er að hornin sé upprunnin í Suður-Afríku, þar sem nashyrningar eru útdauðir í Mósambík, og að átt hafi að smygla þeim frá Afríku til Asíu í gegnum Mósambík.
Fjórir lögreglumenn hafa verið handteknir grunaðir um að eiga aðild að þjófnaðinum.