Stjórn Matvælasjóðs skipuð
Eitt af úrræðum stjórnvalda til að skapa efnahagslega viðspyrnu eftir COVID-19 faraldurinn var að flýta vinnu við að stofnsetja Matvælasjóð. Nú hefur stjórn sjóðsins verið skipuð, en stofnun sjóðsins verður með 500 milljón króna stofnframlagi stjórnvalda.
Alþingi samþykkti lög um sjóðinn 28. apríl, en tilgangur hans verður að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.
Stjórnin er skipuð til þriggja ára og er þannig skipuð:
- Gréta María Grétarsdóttir, án tilnefningar, formaður.
- Gunnar Þorgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
- Karl Frímannsson, án tilnefningar
Matvælasjóður verður til með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Unnið hefur verið að stofnun sjóðsins undanfarið ár í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Í tilkynningu úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er eftirfarandi haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Við Íslendingar erum matvælaþjóð. Byggjum afkomu okkar öfluga samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Því er stofnun Matvælasjóðs, með áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, ekki bara skref í rétt átt – heldur ein forsenda þeirrar sóknar sem fram undan er í íslenskri matvælaframleiðslu.“