Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Árni Bragason landgræðslustjóri í ræðustól á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda.
Árni Bragason landgræðslustjóri í ræðustól á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda.
Mynd / HKr.
Fréttir 12. apríl 2017

Stjórnkerfið fær falleinkunn í fæðuöryggismálum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Árni Bragason landgræðslustjóri þakkaði bændum sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu uppgræðslu í ræðu sinni á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda. Kom hann víða við í ræðu sinni og vék m.a. að mikilvægi þess að Íslendingar hugi að fæðuöryggismálum.  
 
„Við búum í landi elda og íss. Forfeður okkar komu til Íslands með búskaparhætti sem nefnast sviðningsræktun, búskaparhætti sem tíðkuðust á Norðurlöndunum fyrir 1000 árum og tíðkast enn meðal frumstæðra samfélaga – menn brenna skóga og sá korni í volga öskuna og í framhaldinu vex upp gras sem verður beitiland búfjár og síðar vex skógurinn aftur. Þessir búskaparhættir hentuðu ekki á Íslandi því hér erum við með öðruvísi jarðveg og gróður og því hrundu vistkerfi okkar með tilheyrandi jarðvegseyðingu,“ sagði Árni í ræðu sinni. 
 
Mikið hefur áunnist
 
„Gríðarlega mikið hefur áunnist í gróðurvernd á undanförnum áratugum – upprekstur hrossa á afrétti heyrir nú að mestu sögunni til og beitartími sauðfjár á illa förnum afréttum hefur verið styttur mikið.
Sauðfjárbændur hafa um langt árabil unnið frábær uppgræðslustörf á illa förnum afréttum og sínum heimalöndum og leggja mikið af mörkum og ómælda vinnu við að græða landið, með frábærum árangri. Fyrir það ber að þakka.” 
 
Samningur um vöktun gróðurauðlindarinnar
 
„Þann 14. mars skrifuðu Landssamtök sauðfjárbænda, Landgræðslan, Bændasamtökin og atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti undir samning um vöktun gróðurauðlindarinnar. Aðdragandi samningsins var nokkur því við hófum samtal í október á síðasta ári en eftir að áætlun um verkefnið var sett á blað gengu hlutirnir hratt fyrir sig. 
 
Verkefninu, sem hugsað er til næstu 10 ára, og vonandi enn lengri tíma, er ætlað að styrkja þekkingu okkar á gróðurauðlindinni. Markmið verkefnisins eru að: (a) skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á (b) þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. 
 
Við ætlum okkur að vinna með bændum og landeigendum að þessu mati. Við byggjum á góðum grunni – matsaðferðum sem Landgræðslan hefur verið að þróa til að meta hvort land sé tilbúið til afhendingar eftir uppgræðslu. Við byggjum einnig á rannsóknum LbhÍ og vistgerðaflokkun NÍ. Þekking og tækni er að aukast – hægt er að nýta GPS-tækni ásamt gervitunglamyndum, loftmyndum og drónamyndum. Þróun á myndgreiningum hefur fleygt fram og mögulegt er að greina af myndum þroskastig plantna og ástand gróðurs.”
 
Frumskilyrði að menn tali sama tungumál
 
„Það er algjört frumskilyrði að við tölum sama tungumálið þegar við fjöllum um nýtingu lands og ég vona að verkefnið hjálpi okkar við það.  
 
Gæðastýring í sauðfjárrækt hefur verið gagnrýnd af ýmsum sem segja hana hvítþvott og í einhverjum tilvikum til þess að viðhalda beit á landi sem ekki þolir beit. 
 
Þeir hinir sömu gleyma því að vegna gæðastýringarinnar voru 300 þúsund hektarar friðaðir og ástand margra beitilanda hefur batnað, við eru þó enn með stór landsvæði sem hrópa á uppgræðsluaðgerðir eða friðun. 
 
Ekkert kerfi er fullkomið og samstarfsverkefninu Mat á gróðurauðlindinni er m.a. ætlað að styrkja gæðastýringuna og þróa sjálfbærnivísa. 
 
Fólki fjölgar hratt á jörðinni okkar, íbúafjöldinn er nú að nálgast 7,5 milljarða. Fjölgunin nú er um 1,1 % á ári en talið er að draga muni úr fjölgun á næstu áratugum og að um 2050 verði fjölgunin tæplega 0,6 % en að á þeim tíma þurfi allt að 70% meiri mat en nú því meðalaldur hækkar.“ 
 
Stjórnkerfið fær falleinkunn í fæðuöryggismálum
 
„Hvernig stöndum við Íslendingar okkur í fæðuöryggismálum? Stjórnkerfið okkar fær falleinkunn því miður, því við höfum ekki greint stöðu okkar sem skyldi. Allar vélar til fiskveiða, fiskeldis og landbúnaðar eru knúnar olíu. Við erum einnig algjörlega háð innflutningi á kornvörum. Ef innflutningur stöðvast þá hrynur mjólkur-, eggja- og kjúklingaframleiðslan og svínaræktin.“
 
Bændum oftast  svarað með skætingi um fæðuöryggismál
 
„Bændur hafa stöku sinnum vakið máls á fæðuöryggismálum en þeim er oftast svarað með því að þeir séu að reka áróður fyrir óhagkvæmum landbúnaði. 
 
Við getum ræktað olíuplöntur og bygg á Íslandi og framleitt miklu meira af fóðrinu sem við þurfum. Stjórnvöld þurfa að styðja við kynbætur og jarðræktarrannsóknir á Íslandi því það er enginn á jörðinni okkar sem býr við sömu hita- og birtuskilyrði og við.
 
Staða sauðfjárræktarinnar er erfið eins og fram hefur komið. Það er alveg ljóst að sá mikli meirihluti bænda sem er með sín beitarmál í lagi er ekki sáttur við þá sem eru að nýta illa farið land til beitar. Landgræðslan fær ábendingar um svæði þar sem beit er meiri en landið þolir og starfsmenn okkar meta hvort slíkar ábendingar eigi við rök að styðjast. 
 
Ef fé er að koma í miklum mæli í réttir í næstu sveitum ber okkur að leggja mat á það hvort orsökin sé of mikil beit í heimalöndunum og svo virðist vera á ákveðnum svæðum.“
 
Lítum til uppbyggingar skógarauðlindarinnar
 
„Hvernig getum við stuðlað að því að fyrirsjáanlegur niðurskurður í greininni verði þar sem ástand beitilanda er verst? 
 
Ég tel að við eigum að líta til þess sem gert er varðandi uppbyggingu skógarauðlindarinnar. 
 
Stjórnvöld styrkja ­verkefnið Nytjaskógrækt á lögbýlum. Skógræktarráðgjafi heimsækir jörð – Að loknum athugunum gerir skógræktarráðgjafi tillögu þar sem m.a. eru tilgreind mörk væntanlegs samningssvæðis. 
Hvers vegna gerum við ekki samninga um uppgræðslu og beitarstýringu á lögbýlum þar sem bændur yrðu styrktir til að fækka fé og bæta land sitt og gera það betur hæft til beitar í framtíðinni? 
 
Ég óska sauðfjárbændum alls hins besta í sínum verkefnum og vona að ykkur gangi allt í haginn hér í ykkar þýðingarmiklu störfum á aðalfundinum.“
 
Sjálfbær landnýting hagur okkar og afkomenda okkar
 
„Ég bind miklar vonir við þann samstarfssamning sem við undirrituðum nýlega og ég vona að allir leggist á eitt með að reyna að færa landnýtinguna nær því að verða með sjálfbærum hætti – það er hagur okkar en ekki síst hagur afkomenda okkar,“ sagði Árni Bragason landgræðslustjóri.
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...