Stjörnuegg á Kjalarnesi fjölgar varpfuglum úr 50 þúsund í 95 þúsund
Verkfræðistofan Efla hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu þar sem lagt er mat á möguleg umhverfisáhrif vegna breytinga á eggjabúi Stjörnueggja að Vallá á Kjalarnesi og fjölgunar varpfugla á búinu.
Byggt verður nýtt eldishús og það útbúið „Aviary“ varpbúnaði. Breytingarnar eru liður í því að uppfylla breytta ESB löggjöf um bættan aðbúnað varpfugla. Með nýjum aðbúnaði verða varpfuglar fluttir fyrr í varphúsin og eru þar í aðlögun í 4–5 vikur áður en þeir byrja að verpa. Af þeim sökum er þörf á auknum fjölda stæða fyrir fugla.
Með nýja varpbúnaðinum eykst aðgengilegt svæði fyrir fuglana, svo hægt verður að fjölga stæðum fyrir varpfugla úr 50.000 í 95.000. Framleiðslugeta búsins mun að einhverju leyti aukast en þó ekki í hlutfalli við aukinn fjölda stæða. Umhverfismatsskýrslan er aðgengileg hjá Skipulagsstofnun en athugasemdir eiga að vera skriflegar og berast eigi síðar en 17. maí 2022 til Skipulagsstofnunar.