Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Stjörnuspá 11. apríl - 20. apríl
Fréttir 11. apríl 2024

Stjörnuspá 11. apríl - 20. apríl

Vatnsberinn þarf núna að taka sig taki og sýna röggsemi. Lífið á það til að flæða í kringum hann og meðfram honum, en hans bíða þó ótal ævintýr sem hefjast um leið og hann tekur ákvörðun um hvert hann vill stefna. Þetta þarf hann að gera einn og óstuddur, óhræddur við afleiðingarnar. Happatölur 5, 23, 98.

Fiskurinn er einhvern veginn á réttum stað í lífinu finnst honum. Hann hefur áttað sig á að hamingjuna er einungis að finna innra með sér og getur nú veitt öðrum þá jákvæðu athygli sem hann hefur oft verið þekktur fyrir. Nærvera hans er öðrum gleðileg og hann gleðst að sama skapi við aukinn félagsskap. Happatölur 1, 15, 21.

Hrúturinn þarf að kjarna sig eins og sagt er. Fara út í náttúruna og njóta sólar eða rigningu, finna hin frumstæðu náttúruöfl sem hafa áhrif á okkur öll. Vaða ár eða leggjast á teppi undir tré. Róa þannig hug og hjarta og auka trúna á sinni persónulegri vegferð í lífinu. Happatölur 3, 28, 78.

Nautið er á ferð og flugi um þessar mundir, bæði andlega sem og í persónu. Það ætti að gera allt hvað það getur til að njóta lífsins og halda áfram að hlúa að sjálfum sér. Nautið þyrfti einnig að staldra við og velta fyrir sér skipulagningu lífs síns, með það fyrir augum að gera sem mest úr því sem eftir er. Happatölur 24, 4, 77.

Tvíburinn hefur lengi verið í öruggum heimi sinnar eigin trúar. Hann hefur átt það til að vera handviss um að hlutirnir séu á einhvern einn hátt þó aðrir hafi reynt að benda honum á að fleiri hliðar séu á málum. Nú er kominn tími til að vera hreinskilinn við sjálfan sig og horfa á heiminn frá fleiri hliðum, jafnvel þó það sé ekki þægilegt. Happatölur 15, 1, 6.

Krabbinn hefur það á tilfinningunni þessa dagana að eitthvað óvænt liggi í loftinu. Vorfiðringurinn er farinn að kitla hann og því ekki úr vegi að opna allar dyr sem verða á vegi hans. Krabbanum er þó ráðlagt að hlaupa ekki fram úr sér, heldur halda ró og yfirvegun eftir bestu getu.
Happatölur 8, 28, 31.

Ljónið þarfnast þess að um hann sé tekið og hann vafinn ástúð. Einhvern veginn hefur hann ekki alveg náð að jarðtengja sig í langan tíma en þyrfti öllu fremur að opna augun fyrir umhyggju fjölskyldu og vina enda undirstöðurnar þar styrkari en hann órar fyrir. Happatölur 8, 79, 34.

Meyjan er sífellt ánægðari með sjálfa sig enda hefur hún að mestu staðið við sín persónulegu loforð þetta árið. Styrkur hennar er öðrum veganesti og fleiri en færri líta upp til hennar á einn eða annan hátt. Leiðin er bein og greið með áframhaldandi elju. Happatölur 16, 71, 56.

Vogin er kát og glöð enda vor í lofti. Hún hlakkar til komandi tíma enda bara ljós á leið hennar næstu mánuði sem eiga eftir að vera henni happadrjúgir næsta vetur. Hún styrkist enn í sjálfstrausti sínu og vegferð og skal muna að veita öðrum af vellíðan sinni eftir bestu getu. Happatölur 15, 3, 8.

Sporðdrekinn hefur átt við einhvers konar heilsuleysi að stríða, þungt hefur verið yfir og þarf hann að passa að hlúa að sér og sínum. Eitthvað glæðist þó úr málunum og von er á óvæntu happi þegar síst varir. Rétt er að deila þeirri gleði með öðrum enda samheldni og samstaða lykilorð næstu daga. Happatölur 52, 19, 23.

Bogmaðurinn á erfitt með að gleðjast yfir yfirlýstum hugsanagangi annarra. Hann veltir fyrir sér hvers vegna einhver skoðun á frekar rétt á sér en önnur. Innra með sér veit hann þó að enginn upplifir lífið á sama hátt og því það eina sem hann getur gert er að láta fólk ekki hafa áhrif á sig, jafnvel þótt það sé honum nákomið. Happatölur 23, 90, 12.

Steingeitin er hugsi þessa fyrstu mánuði ársins. Ýmsir þættir höfðu sterk áhrif á hana síðastliðið ár og hún, í kjölfarið, sagði skilið við sambönd sem hugnuðust henni ekki. Með það í huga er um að gera að komast að niðurstöðu um hvernig hún ætlar að njóta lífsins í framhaldinu. Happatölur 11, 15, 2.

Skylt efni: stjörnuspá