Stjórnvöld ætla að stórauka trjárækt í borgum
Umhverfisráðherra andfætlinga okkar í Ástralíu segir stjórnvöld þar ætla að leggja aukna áherslu á ræktun trjáa í borgum og bæta þannig heilsu íbúanna.
Að sögn ráðherrans hefur undirbúningsvinna þegar verið hafin og mun áætlun um stóraukna trjárækt í borgum álfunnar liggja fyrir eftir nokkra mánuði. Hugmyndin er að stjórnvöld landsins og stjórnir borga muni vinna náið saman að ræktuninni og að á innan við áratug verði búið að rækta fjölda einstakra trjáa og trjálunda sem veita munu borgarbúum skjól fyrir vindi og sterkri sól og bæta þannig heilsu borgaranna.
Skógræktar- og umhverfissamtök í Ástralíu hafa lýst mikilli ánægju með verkefnið og að þau muni leggja því lið.
Markmið stjórnvalda er að búið verði að planta út að minnsta kosti 20 milljón trjám í borgum í Ástralíu fyrir árið 2020.