Stöngulryðsveppur herjar á hveiti í Evrópu
Á síðasta ári kom upp á Sikiley sýking af völdum nýs stofns af stöngulryðsvepp. Talin er hætta á að sýkingin geti haft alvarlegar afleiðingar á hveitirækt í Evrópu á þessu ári.
Plöntusjúkdómafræðingar við Cambridge-háskóla segja að fram til þessa hafi þeir farið varlega í yfirlýsingum sínum um hættu á útbreiðslu sýkingar af völdum sveppsins og hrópa úlfur úlfur. „Í dag bendir samt margt til að sýking af völdum stöngulryðsveppsins geti orðið sú alvarlegasta sem dunið hefur yfir hveitirækt í Evrópu í herra háans tíð.“
Hætta á útbreiðslu
Bæði Alþjóðlega ryðsveppsvarnarmiðstöðin í Danmörku og Alþjóðlega maís- og hveitiræktunarmiðstöðin í Mexíkó hafa sent frá sér viðvaranir vegna hættu á útbreiðslu sýkingarinnar og mögulegum afleiðingum hennar.
Sýking af völdum stöngulryðsveppsins lýsir sér í að brúnleitir eða ryðleitir blettir koma á stöngul og blöð hveitiplantnanna. Bletturinn er í raun sveppasýking sem drepur plöntuna á stuttum tíma. Gró sveppanna berast auðveldlega um langar vegalengdir með vindi.
Á síðasta ári voru skemmdir af völdum sýkingarinnar aðallega bundnar við Sikiley þar sem sýkingin eyðilagði uppskeru á þúsundum hektara af hveiti.
Sýking af völdum stöngulryðsvepps fór um hveitiakra í Evrópu eins og eldur í sinu um miðja síðustu öld. Í framhaldi af þeim sýkingum var unnið mikið kynbótastarf sem leiddi til þess að til urðu hveitiafbrigði sem voru að mestu ónæm fyrir stöngulryðsvepp. Síðan hefur Evrópa að mestu verið laus við sýkingar stöngulryðsveppi.
Á níunda áratug síðustu aldar kom upp afbrigði af stöngulryðsveppi sem kallaðist Ug99 og olli uppskerubresti víða í Afríku og í Mið-Austurlöndum.
Ein af ástæðum mikillar hræðslu á útbreiðslu sveppsins núna er að hann getur sýkt fjölda hveitiafbrigða sem hafa verið kynbætt til að þola sýkingar af völdum margra ólíkra stofna af stöngulryðsveppi.
Gulryð breiðist út
Auk stöngulryðsvepps hafa komið upp sýkingar af völdum tveggja stofna af gulryði í hveiti. Sýkingar af völdum gulryðs hafa í fyrsta sinn komið upp á stórum svæðum í Evrópu, Norður- og Austur-Afríku og Mið-Evrópu.
Fyrir nokkrum árum olli sýking af völdum gulryðs miklum skaða og uppskerubresti á stórum svæðum í Afganistan og Norður-Ameríku.
Matvælaverð gæti hækkað
Afleiðing sýkinga í hveiti af völdum stöngulryðs og gulryðs gæti verið uppskerubrestur á stórum svæðum sem mundi leiða til hækkandi verðs á hveiti og öðrum matvælum.
Önnur afleiðing aukinnar útbreiðslu sveppasýkingarinnar er aukin notkun á sveppaeitri í landbúnaði.