Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Gert er ráð fyrir að stuðningsgreiðslurnar gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.
Gert er ráð fyrir að stuðningsgreiðslurnar gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.
Mynd / Bbl
Fréttir 14. desember 2023

Stuðningur við fjölskyldu­bú í fjárhagserfiðleikum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í nefndaráliti fjárlaganefndar Alþingis frá 11. desember um frumvarp til fjáraukalaga er lagt til að heildarstuðningur til bænda vegna fjárhagserfiðleika verði 2,1 milljarður króna.

Þann 5. desember skilaði hópur ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis tillögum um slíkan stuðning að heildarupphæð 1,6 milljarða króna vegna núverandi efnahagsástands.

Þær 500 milljónir sem bætast við er ætlað að koma til móts við erfiða stöðu í mjólkurframleiðslu og er bætt við greiðslur vegna innveginnar mjólkur kúabænda fyrstu ellefu mánaða yfirstandandi árs og eingöngu til þeirra sem skiluðu inn mjólk í nóvember síðastliðnum. Þannig verði komið til móts við hallarekstur kúabænda á árinu.

Gert er ráð fyrir að stuðningsgreiðslurnar verði greiddar út fyrir árslok þessa árs.

Stuðningur við fjölskyldubú

Í tilkynningu úr matvælaráðuneytinu, þar sem greint er frá tillögunum, kemur fram að áhersla sé á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur. Jafnframt sé lögð áhersla á að stuðningskerfi styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.

Samtals renna 600 milljónir króna til ungra bænda í formi álags á fjárfestingar í samþykktum umsóknum um nýliðunarstuðning á árunum 2017–2023.

Viðbótarfjárfestingarstuðningur að upphæð 450 milljónir verður greiddur sem álag á fjárfestingu í samþykktum umsóknum um fjárfestingarstuðning í sauðfjárrækt og nautgriparækt á árunum 2017– 2023. Hann skiptist þannig að 386 milljónir fara til nautgriparæktar og 64 milljónir til sauðfjárræktar.

Sauðfjárbændur fá viðbótarbýlisstuðning, en 450 milljónir verða greiddar til þeirra sem stunda sauðfjárrækt að meginatvinnu og eru með 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri.

Einnig er í tillögunum gert ráð fyrir viðbótargripagreiðslum, samtals að upphæð 100 milljónir, fyrir ræktun á holdakúm til þeirra bænda sem fengu slíkar gripagreiðslur á þessu ári.

Áhyggjur af því að aðgerðirnar dugi skammt

Bændasamtök Íslands brugðust við tillögunum á vef sínum, þar sem fram kemur að merkum áfanga sé náð í kjarabaráttu bænda. Greiningu ráðuneytanna er fagnað og er hún talin vera í öllum meginatriðum sú sama og Bændasamtökin hafi haldið fram um langt skeið. Sameiginlegur skilningur muni án vafa hjálpa til við næstu skref í samtalinu.

„Þó þær aðgerðir sem ríkisstjórn boðaði í morgun muni hafa jákvæð áhrif fyrir þá hópa sem þær ná til, hafa samtökin áhyggjur af því að þær dugi skammt. Þá eru stórir hópar bænda sem ekki njóta þessara aðgerða og eru það bæði vonbrigði og mikið áhyggjuefni. Verður að velta því upp hvort skynsamlegt hefði verið fyrir stjórnvöld að eiga þetta samtal við Bændasamtökin, sem fara með fyrirsvar fyrir bændur lögum samkvæmt. Margir bændur eru til að mynda skuldsettir vegna fjárfestinga sem tengjast hagræðingu sem stjórnvöld hafa krafist, bæði á grundvelli lægri framlaga til búvörusamninga og á grundvelli lögbundinna kvaða.

Rétt er að líta fram á veginn. Niðurstöður ráðuneytisstjórahópsins ríma við greiningar Bændasamtakanna og er því kominn góður grunnur að samtali við stjórnvöld um endurskoðun búvörusamninga. Bændur treysta því að þeirri vinnu verði fram haldið strax í næstu viku enda ljóst að bændur eru með miklar væntingar til viðbótaraðgerða á stærri skala með endurskoðun samninganna,“ segir á vef samtakanna.

Tollverndin þarf að halda gildi sínu

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að tillögurnar séu að hans mati viðurkenning á alvarlegri stöðu bænda, ekki bara ungra bænda heldur heilt yfir afkomunni.

Hann segir einnig brýnt að stjórnvöld hugi að því að tollverndin haldi gildi sínu með endurskoðun á krónutolli landbúnaðarvara, sem hafi verið óbreyttur í meira en 23 ár og sé ekki nema um 29 prósent af upphaflegu verðgildi.

Stjórnvöld vilja eingöngu styðja við kúa- og sauðfjárbúskap

Ingvi Stefánsson, formaður búgreinadeildar svínabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir í aðsendri grein hér í blaðinu að honum sé algjörlega óskiljanlegt hvernig hægt sé að fjalla um stöðu íslensks landbúnaðar út frá svona þröngu sjónarhorni, eins og birtist í greinargerð starfshópsins með tillögunum. „Það er nú einu sinni þannig að hvíti geirinn (kjúklingur og svín) er með um 57% markaðshlutdeild á seldu kjöti innanlands síðustu 12 mánuði skv. mælaborði landbúnaðarins,“ segir Ingvi.

Margt komi til sem skert hafi afkomu bænda síðustu misserin en stóra kýlið sé tollverndin, sem enginn virðist þora að stinga á, en hún virki í dag mjög illa og sé stöðugt að rýrna að verðgildi. Hann segir að til að bregðast við harðnandi samkeppni við innflutning hafi búum „hvíta geirans“ fækkað og einingar stækkað. Því séu þeir sem starfa í þeim geira ekki taldir vera bændur lengur, að mati sjálfskipaðra sérfræðinga, heldur verksmiðjuframleiðendur.

Stjórnvöld vilji eingöngu styðja við hefðbundinn kúa- og sauðfjárbúskap en sé nokk sama um „hvíta geirann“. Þannig séu gerðir búvörusamningar sem gangi út á að styrkja „hefðbundnu“ greinarnar.

Á sama tíma sé slakað á tollverndinni af því hvíti geirinn megi missa sín.

Ingvi spyr að lokum hvort ekki sé kominn tími til að ráðast að rót vandans.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...