Sveitarfélög setja sér sameiginlega loftslagsstefnu
Sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum Árnessýslu, auk Flóahrepps, hafa samþykkt að setja sér sameiginlega loftslagsstefnu og hefur verið ákveðið í því sambandi að ráða verkefnisstjóra sem stýrir verkefninu.
Samkvæmt 5. grein laga um loftslagsmál ber sveitarfélögum að setja sér loftslagsstefnu. Markmið laganna er að hið opinbera fari fram með góðu fordæmi þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að setja sér metnaðarfull markmið og móta aðgerðir til að fylgja þeim eftir. Tilgangur loftslagsstefnu er að auðvelda sveitarfélögum að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni og vera til fyrirmyndar með því að hafa bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun sveitarfélagsins ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.