Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Svínakjöt er í fyrsta sinn í sögunni komið fram úr íslensku kindakjöti í sölu
Mynd / smh
Fréttir 11. febrúar 2021

Svínakjöt er í fyrsta sinn í sögunni komið fram úr íslensku kindakjöti í sölu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Framleiðsla á kjöti á Íslandi dróst saman um 2,1% á síðasta ári og kjötsalan dróst saman um 5,4%, samkvæmt tölum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Athygli vekur að sala á kindakjöti, sem áður fyrr var langmest selda kjötafurð landsmanna, er nú í fyrsta sinn komin niður í þriðja sæti, á eftir alifuglakjöti og svínakjöti.

Líkur benda til að gríðarlegur samdráttur í ferðaþjónustu vegna COVID-19 skýri samdrátt í heildarsölu á kjöti að mestu leyti. Ef það er rétt bendir aukning á framleiðslu og sölu á svínakjöti á síðasta ári til þess að aukinni sölu á svínakjöti vegna ferðamanna á árunum fyrir COVID-19 hafi verið að mætt að öllu leyti með innflutningi á svínakjöti og rúmlega það. Enda var samdráttur í framleiðslu og sölu á íslensku svínakjöti á árinu 2019.

Neyslumynstur breytist en alifuglakjötið enn langvinsælast

Greinilegt er að neyslumynstur neytenda er að breytast tiltölulega hratt ef bornar eru saman breytingar á sölu á ýmsum kjötafurðum íslenskra bænda á liðnum árum. Þar er alifuglakjötið búið að tróna á toppnum hvað sölu varðar í nokkur ár og kindakjöt hefur verið þar á eftir.

Salan á alifuglakjöti 2020 nam tæplega 9.039 tonnum, en hún var tæplega 9.797 tonn árið 2019. Samdrátturinn í sölu alifuglakjöts nam því rúmum 726 tonnum á árinu 2020, en samt er langsamlega mest selt af þeirri kjöttegund. 

Svínakjötssalan fer fram úr kindakjötinu í fyrsta sinn

Nú hefur salan á svínakjöti í fyrsta sinn í sögunni farið fram úr sölu á kindakjötinu og er komið í annað sætið. Á síðasta ári voru seld rúmlega 6.810 tonn af svínakjöti frá afurðastöðvum en rúmlega 6.204 tonn af kindakjöti.

Sem dæmi um breytingarnar þá var hlutdeild kindakjöts í sölu 25,4% af heildarsölu á kjöti árið 2017. Það hlutfall er nú komið niður í 22,6% og svínakjötssalan er komin í 24,9% hlutdeild. Alifuglakjötið er samt enn á toppnum með 33% hlutdeild. Í fjórða sæti er svo nautgripakjöt með tæplega 4.668 tonna sölu og 17% hlutdeild. Minnst er, eins og áður, selt af hrossakjöti og dróst salan á því saman um 7,1% á síðasta ári og endaði í rúmum 683 tonnum. 

Aukin svínakjötsframleiðsla vegur upp samdrátt í alifuglakjöti

Ef litið er á stöðuna í framleiðslu á kjöti er ljóst að samdráttur hefur orðið í framleiðslu á öllum tegundum af kjöti, nema svínakjöti. Mestur var samdrátturinn hlutfallslega í framleiðslu á alifuglakjöti. Þar dróst framleiðslan saman úr rúmum 9.589 tonnum árið 2019 í rúm 9.070 tonn. Þetta er samdráttur upp á 518,9 tonn, eða um 5,4%. Hefur hlutdeild alifuglakjöts af heildarframleiðslunni lækkað úr 30,2% árið 2019 í 29,2% árið 2020.  Þessi minnkun í framleiðslu á alifuglakjöti skilar sér öll og rúmlega það í aukinni framleiðslu á svínakjöti. Af því voru framleidd tæplega 6.534 tonn árið 2019, en tæplega 6.813 tonn árið 2020. Hefur hlutdeild svínakjöts í heildarframleiðslu á kjöti á Íslandi aukist úr 20,6% árið 2019 í 21,9%. Í öðrum kjötgreinum eru sáralitlar breytingar á hlutdeild í framleiðslunni. 

Samdráttur í framleiðslu á kindakjöti og nautakjöti

Þótt kindakjötsframleiðslan hafi dregist saman úr rúmum 9.719 tonnum árið 2019 í tæp 9.477 tonn árið 2020, eða um tæp 242,4 tonn, lækkaði hlutfall þess í heildar-framleiðslunni ekki nema um 0,1%, eða úr 30,6 í 30,5%. 

Framleiðslan á nautgripakjöti minnkaði úr tæpum 4.826 tonnum árið 2019 í rúm 4.652 tonn á árinu 2020, sem var 3,6% samdráttur. Hlutdeild þess í heildarframleiðslunni lækkaði þó lítið, eða úr 15,2% í 15%. 

Hlutdeild hrossakjötsframleiðslunnar stóð í stað á milli ára í 3,4%, þrátt fyrir samdrátt í framleiðslu upp á tæp 19 tonn. Þannig voru framleidd rúm 1.085 tonn af hrossakjöti árið 2019 en rúm 1.066 tonn  á árinu 2020. 

Hefur hrossakjötsframleiðslan haldið sér nokkuð vel eftir mikla aukningu á árinu 2019 þegar framleiðslan jókst um 15,6% á milli ára. Hins vegar hefur salan á innanlandsmarkaði dregist saman um 7,1% og útflutningur dróst líka verulega saman, eða um 10,1%. Kemur þetta fram í töluverðri birgðasöfnun á hrossakjöti. 

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...