Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Spuni er fullur sjálfsöryggis að sögn þeirra Huldu Finnsdóttur og Þórarins Ragnarssonar og gerir sér fulla grein fyrir stöðu sinni sem kóngs á Vesturkoti.
Spuni er fullur sjálfsöryggis að sögn þeirra Huldu Finnsdóttur og Þórarins Ragnarssonar og gerir sér fulla grein fyrir stöðu sinni sem kóngs á Vesturkoti.
Mynd / ghp
Fréttir 7. júlí 2018

Það er víst aðeins einn Spuni

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Enginn hefði getað gert sér í hugarlund hvaða ævintýri var í uppsiglingu þegar fyrsta folald hrossaræktenda á Vesturkoti á Skeiðum leit dagsins ljós árið 2006. Ferill Spuna hefur að sögn fjölskyldunnar verið röð hamingjustunda. Um helgina mun fjölskyldan gleðjast enn einu sinni yfir árangri Spuna þegar þau munu hampa æðstu viðurkenningu hrossaræktarinnar. Árið er uppskerudrjúgt í Vesturkoti því nýlega fjölgaði fjölskyldumeðlimum. Bændablaðið leit í heimsókn.
 
Hulda Finnsdóttir og Þórarinn Ragnarsson tóku við rekstrinum á hrossaræktarbúinu Vesturkoti fyrir ári síðan. Við það breyttu þau rekstrarformi staðarins en nú mætti kalla Vesturkot alhliða þjónustumiðstöð fyrir hesta og hestamenn. Þar eru um 30 hross á húsi í tamningu og þjálfun nær allan ársins hring, fjöldi hrossa fá þar uppeldi og fóðrun, ræktunarhross hafa athvarf auk þess sem boðið er upp á reiðkennslu. Um 1–2 starfsmenn starfa að jafnaði með þeim Þórarni og Huldu, sem rétt er risin upp úr sængurlegu þegar Bændablaðið ber að garði.
 
Nóg er um að vera á Vesturkoti dag hvern enda í mörg horn að líta við rekstur á tamningastöð og ræktunarbúi. Hér er Þórarinn að koma úr reiðtúr af Hlóð frá Vesturkoti, sem verður sýnd í 4 vetra flokki á Landsmóti.
 
Þessa dagana fer mesta vinnan í að para stóðhesta og hryssur. Útgerð á vinsælum stóðhesti kallar á umfangsmikið utanumhald. Hafa þarf skrásetningar yfir pantanir á hreinu og fylgja þeim eftir, vönduð umönnun um hestinn og hryssurnar sem til hans koma eru grundvallarforsenda og samskipti við eigendur þeirra mikilvæg, svo ekki sé talað um að halda uppi almennilegri aðstöðu bæði fyrir dýr og menn. 
Það má því auðveldlega segja að Spuni frá Vesturkoti sé út af fyrir sig heilt fyrirtæki. Hann á meira að segja sitt eigið myllumerki – #þaðerbaraeinnspuni.
 
Sterkt bakland
 
Spuni er fyrsta folald ræktað af Finni Ingólfssyni, fv. ráðherra og seðlabankastjóra. Árið var 2006 og hafði Finnur þá nýlega fest kaup á jörðinni Vesturkoti. 
 
„Það hafði alltaf verið draumur hjá pabba að eiga eina ræktunarhryssu. Þegar hann varð fimmtugur árið 2004 ákváðum við systkinin og mamma að gefa honum eina slíka. Einar Öder Magnússon, frændi okkar, benti okkur á þessa meri, Stelpu frá Meðalfelli, sem hann hafði haft í tamningu og sýnt það sama ár. Við keyptum hana og pabbi notaði Stelpu sem reiðhryssu fyrsta árið en hélt henni svo árið 2005,“ segir Hulda.
Stelpa frá Meðalfelli, móðir Spuna, er undan góðhestinum Oddi frá Selfossi sem Einar Öder ræktaði og átti. Móður Stelpu, Eydísi frá Meðalfelli, þekkti Einar einnig vel, en Svanhvít Kristjánsdóttir, kona Einars, sýndi hana fyrir kynbótadómi árið 1996. Hún hlaut þá 8,93 fyrir hæfileika sem þótti sjaldgæfur dómur en þess má geta að aðeins ellefu hross hlutu 8,90 eða hærra fyrir hæfileika fyrir árið 2000.
 
„Það vilja auðvitað allir sem rækta eða tengjast forfeðrunum bendla gæði hestsins við þá. En Einar Öder vildi alltaf meina að Spuni væri líkastur Eydísi ömmu sinni, hún hefði víst verið með svona svakalegt fet og svipuð í geðslagi. Ég hef nú alltaf ímyndað mér að svo sé, úr því að hann sagði það. En auðvitað eru margir þættir sem gera Spuna að þeim hesti sem hann er. Það standa frábærir hestar í röðum bak við hann, eins og Álfadís frá Selfossi, sem er sjálfsagt mesta ræktunarundur sem hefur komið fram seinni ár,“ segir Þórarinn.
 
Þórarinn segir að Finnur hafi farið á Landsmót hestamanna árið 2000 og séð þar Álfadísi í kynbótadómi 4 vetra og orðið afar hrifinn af henni. Einar Öder hafi svo bent honum á að Álfasteinn, sonur hennar, væri til taks í nágrenninu árið 2005 og þeir urðu sammála um að halda Stelpu við hann. 
 
Síðan þá hefur Stelpa eignast tólf afkvæmi og eru þau mörg tengd svipuðum blóðlínum, hún á t.a.m. tvö afkvæmi undan Álfarni frá Syðri-Gegnishólum sem er albróðir Álfasteins.
 
Ævintýraleg ásókn eftir stjörnudóm
 
Ólafur Ásgeirsson tamdi Spuna og þjálfaði fyrstu þrjú árin, en Þórður Þorgeirsson sýndi hann fyrst fyrir kynbótadómi árið 2011, þá 5 vetra gamlan. Dómurinn reyndist sögulegur, hann fékk 8,92 í aðaleinkunn sem er hæsti kynbótadómur sem 5 vetra hestur hefur hlotið og Spuni varð stjarna á einni nóttu. Hann kom svo fram á Landsmóti það sama ár og var þar hæst dæmda hross mótsins.
 
Spuni og Þórarinn bregða á leik.
 
Ýmsar sögur af einhvers konar múgæsingu sem myndaðist í framhaldi eru nokkuð litríkar. Aðsóknin í gæðinginn átti víst að hafa verið svo yfirdrifin að langar bílaraðir með hestakerrur í eftirdragi mynduðust dag eftir dag að sæðingastöðinni Sandhólaferju, þar sem Spuni var til notkunar. 
 
„Þetta var erfitt sumar fyrir Guðmar [Aubertsson dýralækni í Sandhólaferju],“ segir Hulda nokkuð gráglettin en til vitnis um það sýnir WorldFengur að um 101 afkvæmi undan Spuna hafi fæðst árið 2012. Síðan þá hefur Spuni eingöngu þjónað hryssum heima í Vesturkoti, bæði í húsnotkun og í girðingu. Hulda áætlar að hann fái við um 60 hryssur á ári.
 
Orðlaus og stolt
 
Þórarinn tók við þjálfun hestsins árið 2012 og þá strax var stefnt á að keppa í gæðingakeppni Landsmótsins árið 2014. Þeir mættu galvaskir og sigruðu A-flokkinn með glæsibrag. Eftir það var ákveðið að stilla hestinum upp í íþróttakeppni og hömpuðu þeir Þórarinn og Spuni bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistaratitli í fimmgangi í fyrra. 
 
Spuni og Þórarinn eru ríkjandi Reykjavíkur- og Íslandsmeistarar í fimmgangi.
 
Nú fær Spuni Sleipnisbikarinn, æðstu verðlauna sem íslenskir kynbótahestur getur hlotið og er því í raun búinn að vinna allt sem hann unnið getur. Eða hvað?
 
„Hans ferill verður örugglega ekki mikið lengri á keppnisbrautinni. En við myndum samt dubba okkur upp og mæta á Heimsmeistaramót ef það yrði haldið á Íslandi,“ segir Þórarinn og brosir. „Hann mun áfram sanna sig í gegnum afkomendur sína,“ bætir hann við.
 
„Við höfum alltaf vandað okkur með hann og aldrei tekið neinar áhættur. Við höfum svo notið góðs af vinsældum hans, hann hefur ekki þurft að minna mikið á sig. Notkunin á honum er mikil og því hafa sumrin í raun farið í það. En í þau skipti sem hann kemur fram höfum við reynt að gera það eins vel og mögulegt er,“ segir Hulda. 
 
„Við erum orðlaus yfir þessu sjálf en erum að sjálfsögðu stolt. Við gætum ekki beðið um betri hest.“
 
Nothæf afkvæmi
 
Afkvæmi Spuna eru nú 428 talsins. Þau elstu voru tamin haustið 2013. Það munu vera hross sem urðu til í sumardvöl hans norður í Brimnesi 3 vetra gamall þegar hann fékk til sín nokkrar ósýndar hryssur. Nokkur þessara hrossa hafa skilað sér í góðan dóm. 
 
Í dag hafa 79 afkvæmi Spuna komið til kynbótadóms. Meðalaldur sýndra hrossa er 5,3 ár, meðaleinkunn þeirra 8,14 en þar af hafa 3 hlotið yfir 8,80 fyrir hæfileika. Tólf þeirra munu fylgja honum á afkvæmasýningu á Landsmóti þar sem Hulda mun taka við Sleipnisbikarnum. 
 
Sjálfur hefur Þórarinn tamið allnokkur afkvæmanna og segir þau í versta falli góð reiðhross. „Hann er að gefa afskaplega nothæfa hesta. Mér finnst lítið um geðslagsgallaðar bikkjur sem ekki nýtast í neitt. Þetta eru allt afskaplega stabíl hross og gangsöm. Þetta eru góðir reiðhestar ef þau eru ekki sýningarhestar.“
 
Frumburðurinn á Vesturkoti
 
Afrek Spuna er ekki eina hamingja Huldu og Þórarins í ár því frumburður þeirra kom í heiminn þann 3. júní sl. Hraustlegur drengur sem hefur hlotið nafnið Einar Ingi.
 
„Þegar við vissum að þetta yrði strákur þá ákváðum við að hann skyldi heita í höfuðið á Einari Öder. Okkur fannst það réttast. Við vonum að ef hann smitast af hestabakteríunni þá verði hann jafn frækinn hestamaður og frændi sinn,“ segir Hulda. 
 
 
Þórarinn tekur í sama streng. „Hvort sem hann hafi einhvern áhuga á að tosast á truntum eða ekki þá verður hann vonandi jafn skemmtilegur og góður maður. Miðað við hvað það gekk vel með fyrsta hestinn sem fæddist í Vesturkoti, getum við þá ekki veðjað að svo verði líka með fyrsta barnið?“
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...