Þrír heimsmeistarar frá 2013 eru í liðinu
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Formleg kynning á landsliði Íslands í hestaíþróttum var haldin í verslun Líflands, Lynghálsi, miðvikudaginn 15. júlí sl.
Liðsstjórinn, Páll Bragi Hólmarsson, kynnti þar fullskipað lið, en alls telur íslenska landsliðið í hestaíþróttum 21 knapa, þar á meðal eru þrír heimsmeistarar frá heimsmeistaramótinu í Berlín 2013 sem eiga keppnisrétt í ár.
Auk þess var tilkynnt hvaða sex hross koma fram fyrir hönd Íslands á kynbótasýningum á mótinu. Meirihluti hrossanna verður fluttur út á næstu dögum en nokkur þeirra eru þegar stödd í Evrópu.
Liðið mun halda út til Herning í Danmörku þann 29. júlí og taka til við lokaundirbúning fyrir heimsmeistaramótið, sem stendur yfir dagana 3.–9. ágúst.