Þrjú spænsk félög buðu í smíði hafrannsóknaskips
Þann 1. október voru opnuð hjá Ríkiskaupum tilboð í smíði nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun.
Þrjú tilboð komu í smíði skipsins og komu þau öll frá spænskum skipasmíðastöðvum, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar. Á næstu vikum verður farið yfir tilboðin, þau metin og í framhaldi þess hefjast viðræður við þá sem buðu í verkið.
Tilboð sem bárust voru frá eftirfarandi skipasmíðastöðvum:
- Asteileros Armon VIGO, S.A.
- Construcciones Navales P. Freier, S.A.
- Gondan
Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum þá felur opnunarskýrsla ekki í sér niðurstöðu útboðs. Í opnunarskýrslu er einungis birt heildartilboðsfjárhæð en endanlegt val getur ráðist af fleiri valforsendum skv. útboðsgögnum. Framsetning opnunarskýrslu er með fyrirvara um hugsanlega reiknivillu og að ekki er búið að meta gildi tilboða. Komi í ljós að fjárhæðir í opnunarskýrslu eru ekki réttar miðað við framsetningu tilboðsblaðs og leiðbeiningar um útfyllingu á því, verður leiðrétt opnunarskýrsla birt eins fljótt og unnt er.