Þungt hljóð í bændum
Það sem af er árlegri fundaferð Bændasamtaka Íslands með bændum um landið, hefur verið áberandi að þeir eru svartsýnir á starfsskilyrði stéttarinnar.
„Það sem brennur helst á bændum er endurskoðun búvörusamninganna,“ segir Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Hljóðið sé þungt í fólki varðandi starfsskilyrði landbúnaðarins.
„Það vantar 9–12 milljarða inn í greinina til að standa undir eðlilegum fjármagnskostnaði og launagreiðslugetu. Í endurskoðun búvörusamninga er horft til þess að ekkert nýtt fjármagn er að koma inn í samningana. Menn hafa ekki ofan í sig og á og staðan er grafalvarleg,“ segir hún og bætir við að bændur á Borgarnesfundi hafi til að mynda imprað á að mögulega væri komið að því að taka upp aðferðir Frakka og mæta með haugsugur á Austurvöll til mótmæla. „Umhverfismálin standa þó jafnvel upp úr á fundunum og að sjálfsögðu nýliðunin,“ segir Vigdís. Þá hafi talsvert verið rætt um lausagöngu sauðfjár.
Fundaferð Bændasamtakanna hófst 21. ágúst og var byrjað í Borgarnesi, þá haldið á Hvammstanga, í Skagafjörð, Eyjafjörð, á Breiðumýri og í Kelduhverfi. Þá var haldið austur fyrir og fundað á Eiðum. Í framhaldinu er efnt til funda á Mýrum, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli og Selfossi.
Yfirreiðinni lýkur á Vestfjörðum í mánaðarlok; á Ísafirði og Patreksfirði. Sjá dagsetningar HÉR.