Tillaga að landbúnaðarstefnu kynnt í ríkisstjórn
Tillaga að landbúnaðarstefnu var kynnt í ríkisstjórn í dag undir yfirskriftinni Ræktum Ísland. Þrír efnisflokkar liggja stefnunni til grundvallar; landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd auk tækni og nýsköpunar.
Í tilkynningu úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að undir efnisflokkunum þremur séu dregin fram tíu áhersluatriði; landnýting, landsskipulag og flokkun, fæðuöryggi, líffræðilegur fjölbreytileiki, umhverfisvernd, alþjóðleg markaðsmál, neytendur, fjórða iðnbyltingin, menntun, rannsóknir, þróun, og fjárhagsleg samskipti ríkis og bænda. Þá er í tillögunum kynnt 22 skref sem að mati verkefnisstjórnar er nauðsynlegt að stíga við gerð aðgerðaráætlunar.
Vinna við stefnumótunina hófst fyrir þremur árum í samráði við Bændasamtök Íslands, en um samstarfsverkefni stjórnvalda, bænda, neytenda og atvinnulífs var að ræða undir forystu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. „Í september 2020 skipaði ráðherra verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem lagði í maí sl. fram Ræktum Ísland! umræðuskjal um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Skjalið var í kjölfarið birt á samráðsgátt stjórnvalda. Ráðherra, ásamt verkefnisstjórn, fór að því loknu í hringferð um landið og hélt tíu opna fundi þar sem hlustað var eftir viðhorfi fólks, hugmyndum og ábendingum um umræðuskjalið. Verkefnisstjórnin vann svo úr niðurstöðum þeirra ábendinga sem bárust. Áætlað er að stefnan verði lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga á næsta þingi.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og Hlédís Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri skipuðu verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Með henni störfuðu Bryndís Eiríksdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Hér er hægt að nálgast stefnuna en sérstakur vefur hefur einnig verið stofnaður til kynningar á henni.