Ungaeldi á Keisbakka miðar að því að auka við æðarvar
Ábúendur á Keisbakka á Skógarströnd, þau Oddný Halldórsdóttir og Magnús Tómasson, eru að reyna að auka við æðarvarp í landi sínu.
Fjórar eyjar tilheyra landi Keisbakka og er æðarvarp á tveimur þeirra. Hafa bændur hug á að auka við æðarvarpið, koma upp varpi á öllum eyjunum.
Núna er æðarvarpið að Keisbakka í tveimur eyjum, Dilk og Hrappsey. Eyjarnar eru skammt undan landi Keisbakka, Dilkur í um það bil í 2,7 kílómetra og Hrappsey í 1,7 kílómetra fjarlægð. Í þessum tveimur eyjum eru nokkur hundruð hreiður og er varpinu sinnt af ábúendum sem sett hafa upp hreiðurskýli og flögg á eyjunum. Tvær aðrar eyjar eru nær landi, Múli og Landey
Oddný Halldórsdóttir á Keisbakka búin að ná einum í gerðinu.
Töluvert lagt í varnir
Starfsmenn Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi taka þátt í verkefninu með ábúendum, en um er að ræða verkefni sem standa á yfir í 10 ár. Þetta er þriðja árið sem ungar eru aldir upp að Keisbakka en þeim er sleppt merktum út í náttúruna síðsumars.
Jón Einar Jónsson, vísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, segir að landeigendur hafi áhuga á að laða fleiri æðakollur að þessum eyjum og hafi í því skyni lagt töluvert í varnir gegn tófu og mink. Þau hafa bæði vaktað varpið og reist girðingu meðfram ströndinni á landareign Keisbakka. Þá hafi verið fyllt upp í skurði á svæðinu og grafin tjörn með útfalli út í sjó. „Með þessum aðgerðum er vonast til þess að æðarvarp myndist í Múla og Landey og einnig á ströndinni innan girðingar í grennd við tilbúnu tjörnina,“ segir Jón Einar.
Jón Einar Jónsson, vísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi.
186 ungar merktir í sumar
Jón Einar segir að útungunarvél sé á Keisbakka og hún notuð til að koma varpinu af stað. Með henni er hægt að unga út 200 eggjum í einu. Eitt egg er tekið úr hverju hreiðri og ungað út í vélinni. Áður en ungum er sleppt eru þeir merktir með sérstökum stálmerkjum frá Náttúrufræðistofnun. Nú í sumar voru merktir 186 ungar og 178 í fyrrasumar.
Æðarfuglar hefja að sögn Jóns Einars varp tveggja til þriggja ára þannig að á næsta ári má vænta fyrstu varptilrauna á nýjum stað. „Okkar markmið er að skrá framvinduna og einnig að merkja fullorðna fugla í tveimur varpeyjum Keisbakka úti á Hvammsfirði, til að kanna hvort eldri kollurnar færi sig þá líka þegar fram í sækir,“ segir Jón Einar. Hann bætir við að ungasleppingar hafi áður verið notaðar til að koma á fót æðavarpi og nægi þar að nefna t.d. Þernuvík í Ísafjarðardjúpi, Hvallátrum og Þorvaldsey á Breiðafirði.
Áhugavert verkefni
Næstu árin verður framvindan skráð, en meðal þess sem vísindamenn Rannsóknasetursins fýsi að vita er hvort takist að koma á fót varpi í eyjunum Múla og Landey þar sem ekki er varp nú. Takist að koma upp varpi í þessu eyjum er óvíst hvort þar verði á ferð ungar úr ungauppeldinu eða hvort núverandi varpfuglar úr hinum eyjunum, Dilk og Hrappsey, færi sig nær landi og komi sér fyrir í Múla eða Landey eða færi sig jafnvel alla leið upp á land. „Við höfum áhuga á að vita hvort varp á nýjum stað er eingöngu háð nýliðun eða hvort tilfærsla eldri fugla komi einnig við sögu. Þeir ungar sem alast upp á Keisbakka eru líklegir að reyna varp þar sem fullorðnir fuglar,“ segir Jón Einar. „Þetta er mjög áhugavert verkefni og við hlökkum til að sjá hver niðurstaðan verður eftir nokkur ár.“