Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Fulltrúar á Búnaðarþingi 2024 greiða atkvæði.
Fulltrúar á Búnaðarþingi 2024 greiða atkvæði.
Mynd / smh
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, sem í grunninn er uppfærsla á efni stefnumörkunar samtakanna.

Úr allsherjarnefnd var samþykkt tillaga um að deildarfundir búgreina og Búnaðarþing verði sameinað í einn þriggja daga viðburð sem beri heitið Búnaðarþing. Lagt er til að starfshópurinn skili fullmótaðri tillögu ásamt kostnaðargreiningu til afgreiðslu á Búnaðarþingi 2025.

Gætt að hæfi við meðferð mála

Úr allsherjarnefndinni var einnig samþykkt viðbót við eigendastefnu stefnumörkunar samtakanna. Að félagsmenn sem sinni trúnaðarstörfum innan samtakanna – og séu jafnframt starfsmenn fyrirtækja í eigu samtakanna – skuli gæta að hæfi sínu við meðferð mála. Tryggja þurfi að þátttaka þeirra í forystusveit samtakanna hafi ekki áhrif á hlutlægni og trúverðugleika starfa þeirra hjá fyrirtækjum Bændasamtakanna.

Að efla ímynd kvenna sem bændur

Nefnd um innri starfsskilyrði landbúnaðar hafði til umfjöllunar nokkra kafla stefnumörkunar Bændasamtakanna. Breyting á kafla um velferð og réttindi bænda var samþykkt þar sem gert er ráð fyrir að Bændasamtökin leggi áherslu á að tryggja andlega og líkamlega velferð bænda, samtökin vinni að því að koma upp skipulagðri afleysingaþjónustu fyrir bændur og að þau efli jafnréttisfræðslu í landbúnaðarnámi í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í kaflanum er einnig kveðið á um að samtökin vinni áfram að því að stuðla að jafnrétti þeirra sem koma að búrekstri og efli ímynd kvenna sem bændur, auk þess að efla fræðslu um ólík rekstrarform og lífeyrismál.

Nefndin lagði til breytingu á kaflanum um regluverk og framleiðslukerfi sem samþykkt var, þar sem gert er ráð fyrir að Bændasamtökin haldi áfram samtali við stjórnvöld um hvaða leiðir skuli fara og hvernig aðkoma ríkisins skuli vera í að tryggja starfsskilyrði og afkomu landbúnaðarins í heild.

Í kaflanum um byggðamál var samþykkt tillaga um viðbót við kaflann, þess efnis að skilja þurfi á milli opinbers stuðnings við byggðamál annars vegar og landbúnaðar hins vegar – og gæta þess að stuðningur við byggðamál sé ekki tekinn með þegar reiknaður er stuðningur við landbúnað.

Landbúnaðurinn stuðli að byggðafestu, en byggð stuðli ekki endilega að eflingu landbúnaðar.

Nauðsynlegar afkomutryggingar

Samþykktar voru viðbætur við kafla um öryggi og tryggingar.

Mælst er til þess að Bændasamtökin, í samvinnu við búnaðarsambönd, vinni áfram að verkefninu „Búum vel“ en markmið þess er að bæta öryggis- og vinnuverndarmenningu í sveitum, fækka slysum í landbúnaði og stuðla að góðu vinnuumhverfi og bættri ásýnd bæja. Starfið hafi meðal annars falist í heimsóknum til bænda, fundum og fræðslu.

Í kaflanum er mælst til þess að Bændasamtökin, í samstarfi við hagsmunaaðila, haldi áfram átaki í eldvörnum í landbúnaði til að tryggja öryggi dýra og lífsviðurværi bænda.

Þar kemur enn fremur fram að nauðsynlegt sé að skilvirkt og áreiðanlegt tryggingakerfi sé til staðar fyrir bændur.

Ef stjórnvöld vilji að ákveðnar greinar eflist, eins og kornrækt og útiræktun grænmetis, sé ekki ásættanlegt að einstaklingar taki alla áhættuna og því þurfa einhvers konar afkomutryggingar að koma til.

Síðasti kafli nefndar um innri skilyrði landbúnaðar fjallaði um nýliðun, sem er nýr kafli í stefnumörkuninni. Þar er mælst til að Bændasamtökin beiti sér fyrir breytingum á skattalögum líkt og þekkist í Noregi og löndum Evrópusambandsins (ESB), samhliða því að koma á fót gjörbreyttu og bættu lánaumhverfi. Mikilvægt sé að leita leiða til að halda áfram ábúð á jörðum, það þarf að vera hagur bænda að selja til áframhaldandi landbúnaðarnota en ekki bara hæstbjóðanda.

Landbúnaður þjóðhagslega mikilvægur innviður

Í nefnd um ytri skilyrði landbúnaðar var samþykkt breyting á málsgrein í kafla um afkomu og velferð bænda í stefnumörkun Bændasamtakanna. Þar segir að lausnin á afkomuvanda bænda verði ekki fundin á einum stað heldur sé mikilvægt að rýna í virðiskeðjuna alla og regluverkið sem umlykur hana.

Í kafla um fæðu- og matvælaöryggi var samþykkt sú breyting að biðlað verði til stjórnvalda um að íslenskur landbúnaður verði skilgreindur sem þjóðhagslega mikilvægur innviður. Tryggja þurfi að jarðir í eigu ríkisins sem henta vel til búrekstrar eða annarri landbúnaðartengdri starfsemi standi nýliðum í landbúnaði til boða. Leggjast þarf í skipulagt átak til að koma jörðum í landbúnaðarnot og ábúð, hvort sem er með sölu eða útleigu.

Loks var samþykktur nýr kafli inn í stefnumörkun samtakanna, sem fjallar um varnir gegn nýjum sjúkdómum í landbúnaði. Þar segir að til að tryggja heilbrigði innlendrar matvælaframleiðslu verði gerð sama krafa um heilnæmi og heilbrigði innfluttra landbúnaðarafurða og gerð er til innlendrar framleiðslu. Ísland geti verið í lykilstöðu gagnvart sjúkdómastöðu á heims- vísu vegna hnattrænnar stöðu sinnar. Með hertum kröfum á innfluttum landbúnaðarafurðum og nauðsynlegum kynbótum hér á landi verði hægt að tryggja heilbrigði og hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða til framtíðar.

Ísland staðfest verði innleitt

Nokkrar ályktanir voru einnig samþykktar úr nefndinni. Samþykkt var að Bændasamtökin og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins leiti allra leiða til að finna framtíðarlausnir og fjármagn til að efla stofnútsæðisframleiðslu fyrir kartöflubændur, svo mögulegt verði að hætta innflutningi á erlendu útsæði sem ógnar ræktun á Íslandi vegna hættu af sjúkdómum eins og „kartöflumyglu“.

Samþykkt var sú ályktun að Búnaðarþing beini því til innlendra matvælaframleiðenda að taka upp merkið „Íslenskt staðfest“. Mikilvægt sé, líkt og gert hafi verið í nágrannalöndunum, að taka upp upprunavottun innlendrar framleiðslu til þess að aðskilja greinilega íslenskar vörur frá innfluttum vörum. Neytendur vilji íslenskt en umbúðir séu oft og tíðum villandi eða illa merktar. Verkefnið sé því gríðarlega mikilvægt skref í hagsmunagæslunni.

Ályktun um tollvernd var samþykkt, þar sem ítrekaðar eru fyrri áhyggjur bænda varðandi verklag og regluverk tengt eftirliti og úthlutun tollkvóta en einnig gjöld tollskrár sem staðið hafa óbreytt síðan 1996.

Uppfærsla umhverfisstefnu

Umhverfisnefnd lagði til að skipaður yrði vinnuhópur um endurskoðun og uppfærslu umhverfisstefnu Bændasamtakanna sem samþykkt var af fulltrúum á Búnaðarþingi.

Til viðbótar fyrirliggjandi kafla um loftslags- og umhverfismál var samþykkt ákvæði um lífrænan landbúnað.

Þar kemur fram að markmið um aukna útbreiðslu vottaðs lífræns landbúnaðarlands verði sjálfstætt markmið í umhverfisstefnu Bændasamtaka Íslands. Í lífrænum landbúnaði sé unnið samkvæmt markmiðum um sjálfbæra þróun og líffræðilegan fjölbreytileika með skiptiræktun og nýtingu lífrænna áburðarefna.

Markmið um aukna dýravelferð sé útfært með reglum um betri aðbúnað, takmörkun sýklalyfja og aukna útivist. Ýmis tækifæri blasi við bændum í að tvinna lífrænan landbúnað saman við fullvinnslu afurða eða ferðaþjónustu. Lagt er til að unnið verði í takt við markmið og aðgerðaráætlun sem stjórnvöld setja.

Bætt upplýsingagjöf og efling fræðslu

Úr félags- og fjárhagsnefnd voru samþykktar tillögur meðal annars um bætta upplýsingagjöf til félagsmanna Bændasamtakanna og eflingu fræðslu í félagskerfi bænda.

Fleiri tillögur og breytingar á köflum stefnumörkunarinnar voru samþykktar á þinginu, en þær má allar nálgast fljótlega á vef Bændasamtaka Íslands (bondi.is).

Skylt efni: Búnaðarþing

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...