Úreltar riðuvarnir
Miðfjarðarhólf í Vestur-Húnavatnssýslu hefur bæst í hóp sýktra sauðfjárveikivarnarhólfa, eftir að riðutilfelli greindust á tveimur bæjum og þurfti í kjölfarið að skera þar niður um 1.400 fjár.
Ákall fólks er nú víða hávært innan búgreinarinnar um nauðsyn þess að breyta þurfi fyrirkomulagi riðuveikivarna á Íslandi.
Tillögur yfirdýralæknis þess efnis hafa legið í landbúnaðarráðuneytinu frá því í desember 2021 þar sem gert er ráð fyrir nýju heildarskipulagi þessara mála. Meðal breytinga sem þar er lagt til er að hlífa skuli gripum með verndandi arfgerðir þegar skera þarf niður hjörð í kjölfar staðfestra riðutilfella. Auk þess eru þar tillögur að breytingum á fyrirkomulagi varnarhólfa, sem komið var á til að útrýma öðrum sauðfjársjúkdómum en riðu og höfðu borist til Íslands með innfluttu fé.
Á liðlega 40 árum hafa rúmlega 850 hjarðir verið skornar niður á Íslandi, með meira en 200 þúsund fjár. Deildar meiningar eru um árangurinn af þessum aðgerðum, en ljóst er að tjónið er mikið – bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt – fyrir bændur sem hafa ræktað upp sínar hjarðir. Á þessum tíma hafa ríflega 620 bæir gengið í gegnum þær hörmungar.
Riðutilfellum fækkað og hjörðum
Óumdeilt er að riðutilfellum hefur fækkað umtalsvert, en að sama skapi einnig fjölda hjarða í landinu. Þegar niðurskurðaraðgerðir hófust voru 25 varnarhólf af 38 sýkt. Í dag eru átta af 25 hólfum sýkt. Riða hefur komið aftur í nýjan fjárstofn á um 12 prósent bæjanna og á suma oftar en einu sinni. Áætlað er að aflétting riðuhafta verði í Landnámshólfi 31. desember á þessu ári.
Mikið ræktunarstarf er þegar hafið sem felur í sér útbreiðslu á arfgerðunum tveimur sem taldar eru verndandi gegn riðu. Hrútar með slíkar arfgerðir voru fengnir á sæðingastöðvar fyrir síðustu fengitíð og voru nokkrir í hópi þeirra vinsælu. Má búast við að þúsundir lamba muni bera arfgerðirnar eftir sauðburð nú í vor. Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, hefur stýrt átaksverkefni í arfgerða- greiningum og er í teymi sem leiðir það verkefni að rækta upp riðuþolinn sauðfjárstofn á Íslandi.
Hann telur æskilegt að yfirdýralæknir hafi tækifæri til að velja mismunandi leiðir þegar upp koma riðutilfelli; í fyrsta lagi að skera allt niður eins og hér er gert, skera allt niður nema verndandi arfgerðir eða bara sýkta gripi þó það séu ekki mikið af verndandi arfgerðum í hjörðinni.
Sjá nánar á bls. 20-22. í nýju Bændablaði sem kom út í morgun