Faraldur í Evrópu
Stjórnvöld í Evrópu hafa aukið viðbúnað vegna fjölgunar tilfella fuglaflensu.
Útbreiðsla fuglaflensu hefur aukist í byrjun vetrar þar sem villtir farfuglar bera veiruna með sér. Smitefnin geta komist í snertingu við alifugla, en í Austurríki hefur þurft að skera niður 200 þúsund fugla vegna útbreiðslu sóttarinnar á stóru búi. Herinn var kallaður til vegna umfangs aðgerðanna, en koma þurfti upp sótthreinsilaugum til þess að hreinsa vinnuvélar og tæki á búinu. Frá þessu greinir Poultry World.
Í Frakklandi hefur verið greint frá sex tilfellum fuglaflensu á alifuglabúum, tveimur hjá fuglum í haldi og hefur sóttin greinst hjá tíu villtum fuglum sem hafa drepist. Frönsk stjórnvöld hafa þrýst á bólusetningu alifugla, en veiran hefur samt sem áður greinst á tveimur búum þar sem fuglarnir hafa verið sprautaðir.
Í byrjun nóvember greindist fuglaflensa á bresku kjúklingabúi með 20.000 fuglum. Það er fyrsta tilfelli flensunnar í alifuglarækt þar í landi síðan í febrúar á þessu ári. Breskir alifuglabændur eru hvattir til að grípa til aðgerða til þess að verja fuglana sína. Talið er mjög líklegt að villtir fuglar verði fyrir barðinu á veikinni en á fuglabúum þar sem sóttvarnir eru í lagi er áhættan lítil.
Faraldurinn er sérstaklega skæður í Ungverjalandi, en þar var greint frá 30 tilfellum í fyrstu viku nóvembermánaðar. Flest tilfellin voru hjá foie-gras framleiðendum með endur eða gæsir í sunnanverðu og austanverðu landinu.