Fréttir um árangur
Margt gott og jákvætt gerðist í veröldinni á síðasta ári þrátt fyrir að fregnir af því sem miður fer séu jafnan mest áberandi í umræðunni.
Upplýsingaveitan FutureCrunch birti nýverið samantekt um jákvæðan árangur í heimi okkar á síðasta ári og er hér stiklað á fáeinum þeirra.
Samtökin The Ocean Cleanup fjarlægðu 8 milljónir kílóa af rusli úr höfunum. Þá hefur samfélagsverkefni Sungai Watch í Indónesíu hrundið af stað plasthreinsunarbylgju þar í landi og fjarlægðar voru um 1,6 milljónir kílóa plastúrgangs úr ám þar á árinu. Íbúar Ekvador ákváðu í kosningum að verja hinn dýrmæta Amason-skóg og stöðva olíuboranir í þágu náttúruverndar. Þá fagna Brasilíumenn 66% samdrætti í eyðingu Amason- svæðisins.
Miklar framfarir urðu í rannsóknum á sjúkdómum og meðferð og víða tókst að útrýma landlægum smitsjúkdómum. Áherslur Kínverja á endurnýjanlega orku hafa leitt til umtalsverðrar minnkunar þeirra í kolefnislosun. Hollenska sprotafyrirtækið Arctic Reflections hefur komið fram með mögulega aðferð til að þykkja heimskautaísinn og forða honum frá bráðnun.
Í fyrra voru um 3,8 milljarðar trjáa gróðursettir á heimsvísu, þar af 4,2 milljónir trjáa fyrir tilstuðlan Life Terra í Evrópu, með þátttöku 73.000 almennra borgara.
Sjá nánar á FutureCrunch.com