Þrívíddarprentaður heilavefur
Vísindamenn hafa þróað þrívíða lífprentun sem formar virkan mennskan taugavef.
Greint er frá því í Scientific European að stofnfrumur í þrívíddarprentuðum vefjum vaxi og myndi taugahringrásir og stafrænar tengingar við aðrar taugafrumur. Þannig líki þær eftir náttúrulegum heilavef. Slíka lífprentaða taugavefi sé hægt að nota til að búa til líkan af sjúkdómum í mönnum, svo sem Alzheimer, Parkinsons o.fl., sem orsakist af skerðingu á taugakerfi. Segja vísindamennirnir að allar rannsóknir á heilasjúkdómum krefjist aukins skilnings á virkni taugakerfa manna.
Þrívíð lífprentun er ferli þar sem náttúrulegu eða tilbúnu lífefni (e. bioink) er blandað saman við lifandi frumur og prentað, lag fyrir lag, í náttúrulega vefi líkt og í þrívíddarbyggingu. Frumurnar vaxa í lífblekinu og hið prentaða þróast þannig í átt að því að líkja eftir náttúrulegum vefjum eða líffærum.
Mennskur taugavefur hefur áður verið þrívíddarprentaður með stofnfrumum en þá vantaði m.a. tauganetsmyndun sem nú hefur verið leyst með því að stafla prentuðum lögum ekki lóðrétt heldur lárétt, sem sagt er gera gæfumuninn.
Þetta þykir áhugaverð framför fyrir rannsóknir á taugakerfi manna. Dýrarannsóknir séu t.d. takmarkandi vegna tegundasértæks mismunar. Segir Scientific European að þessar nýju uppgötvanir geti markað tímamót í að skilja betur hvernig heilasjúkdómar myndist í mönnum og stuðlað að þróun virkra meðferða til að vinna bug á þeim.