Yfirvofandi mjólkurskortur
Mjólkursamlagið Tine í Noregi hefur boðað innflutning á mjólk. Allt stefnir í að innlend framleiðsla verði fimmtán milljón lítrum undir áætlaðri neyslu fyrstu þrjá mánuði ársins.
Ástæðan fyrir skortinum er minni mjólkurframleiðsla en spár gerðu ráð fyrir. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að greiðslumark í landinu hafi verið aukið. Nokkrar deilur hafa kviknað vegna málsins í Noregi og er mjólkursamlagið gagnrýnt fyrir ónóga upplýsingagjöf. Hefði fyrr verið ljóst í hvað stefndi telja bændur að þeir hefðu getað brugðist við með aukinni framleiðslu.
Landbúnaðarráðuneytið í Noregi hefur skorist í leikinn með því að lækka innflutningstolla á mjólkurduft tímabundið til þess að halda verði á mjólkurvörum óbreyttu. Með því á að anna eftirspurn og verður duftinu blandað út í framleiðsluvörur í allt að þrjú prósent hlutföllum. Þegar kemur að mjólkurskorti hefur framleiðsla á fljótandi vörum og ostum forgang, á meðan framleiðsla á mjólkurdufti fyrir iðnað verður látin mæta afgangi.
Tine hefur sent út fréttatilkynningu þar sem mjólkursamlagið segist munu halda neytendum upplýstum um hvaða mjólkurvörur geti innihaldið innflutt mjólkurduft. Undanþága hefur fengist til að selja vörur í umbúðum með Nyt Norge merkið, sem er sambærilegt Íslenskt staðfest vottuninni, þrátt fyrir að varan innihaldi að hluta erlenda mjólk.
Ekki verði hægt að merkja hvert einasta ílát, en mjólkursamlagið mun leitast eftir að upplýsingarnar verði sjáanlegar í verslunum. Tine telur upp nokkrar mismunandi tegundir af jógúrti sem verða fyrir áhrifum. Að auki við mjólkurskort stefnir allt í að norsk eggjaframleiðsla nái ekki að anna eftirspurn.