Útilokar ekki að um smitsjúkdóm geti verið að ræða
Einar Jörundsson, dýralæknir og meinafræðingur á Keldum, krufði i gær ær sem veiktist af þeim óútskýrðu veikindum sem hafa herjað á ær víðs vegar á landinu á undanförnum vikum. Hann sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að ekki sé hægt að útiloka að um smitsjúkdóm sé að ræða.
Einar sagði að krufningin bendi til þess að meltingatruflun hafi hrjáð kindina, en sýni sem tekin voru til rannsóknar ættu að skýra hvað var að. Niðurstöðurnar verði ljósar á næstu dögum, en verið sé að safna blóð-, gróður-, og jarðvegssýnum um allt land.
Dýralæknar telja þó að ekki sé um bráðsmitandi sjúkdóm sé að ræða þar sem það sé allt í lagi með fjölda fjár sem hafi verið innan um kindur sem hafa drepist. Þó hey séu léleg dugi sú skýring ekki til.