Vafi á réttmæti líftölumælinga
Auðhumla hefur tekið þá ákvörðun að nýta ekki niðurstöður úr líftölumælingum til verðfellingar mjólkur þar sem bráðabirgðatækjabúnaður sýnir hærri gildi en vant er.
Rannsóknarstofa mjólkur iðnaðarins hefur haft að láni notað mælingatæki erlendis frá, en beðið er eftir nýjum búnaði í aprílmánuði. Gæðaráðgjafar Auðhumlu munu fara yfir líftölumælingar aftur í tímann, allavega aftur í febrúar og lengra ef þurfa þykir. Ef mjólk hefur verið verðfelld og vafi leikur á réttmæti mælinga, mun slíkt verða leiðrétt og viðkomandi mjólkurframleiðendur upplýstir. Frá þessu er greint á heimasíðu Auðhumlu.
Enginn vafi leikur á réttmæti mælinga á öðru efnainnihaldi mjólkur, svo sem fitu, prótein, fríum fitusýrum, úrefni og kasein og að auki frumutölu mjólkur. Líftölumælingar verða áfram birtar mjólkurframleiðendum til leiðbeininga um stöðu og þróun á líftölu.