Vefverslun með íslenskar búvörur
Vefverslunin Gott og blessað hefur tekið til starfa. Nú er hægt að kaupa íslenskar búvörur frá smáframleiðendum beint í gegnum netið og fá þær sendar heim.
Vöruúrvalið spannar breitt svið íslenskrar matvöruframleiðslu en þar má finna grænmetis-, kjöt-, mjólkur- og fiskivörur – unnar matvörur og tilbúna rétti.
Fjallað var um væntanlega opnun verslunarinnar í Bændablaðinu í ágúst.
Gott og blessað hefur að markmiði að kynna og selja vörur íslenskra smáframleiðenda og heimavinnsluaðila ásamt því að selja sælkeravörur frá framleiðendum sem nota íslenskt hráefni. Jafnframt því að reka vefverslun er Gott og blessað með litla verslun að Flatahrauni 27 í Hafnarfirði. Þangað geta viðskiptavinir sótt vörur sem þeir hafa pantað en jafnframt skoðað og keypt vörur sem þar eru á boðstólum.
Vefverslunin mun leitast við að tryggja aðgang neytenda að þessum vörum og að vefverslunin verði öruggur farvegur fyrir smáframleiðendur til þess að koma vörum sínum í sölu og dreifingu.