Verg landsframleiðsla á hvern Íslending 30% meiri en að meðaltali í ESB-löndunum
Verg landsframleiðsla á mann á Íslandi árið 2017 var 30% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28 (ESB28) samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat).
Voru niðurstöðurnar birtar nýverið á vefsíðu Hagstofu Íslands. Þar segir að Ísland hafi verið í fimmta sæti af 37 Evrópuríkjum (ESB28 auk Íslands, Noregs, Sviss, Tyrklands, Svartfjallalands, Serbíu, Bosníu-Hersegóvínu, Albaníu og Makedóníu).
Magn vergrar landsframleiðslu á mann árið 2017 var hæst í Lúxemborg, 153% yfir meðaltali ESB28, en þar á eftir kom Írland þar sem verg landsframleiðsla á mann var 84% yfir meðaltali ESB28.
Lúxemborg sker sig úr hópnum en líta verður til þess að fjöldi fólks vinnur og verslar í landinu og leggur til landsframleiðslunnar en býr utan þess og telst því ekki til íbúa.
Ísland í samvinnu við Eurostat
Hagstofa Íslands tekur þátt í samstarfi hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um útreikning jafnvirðisgilda (PPP). Þau eru notuð til að umreikna hagrænar stærðir til sambærilegs verðlags svo unnt sé að bera saman rauntölur á milli landa. Þegar horft er á samanburð af þessu tagi má líka sjá mikla samsvörun á milli velgengni og verðlags. Því meiri sem velgengnin og kaupmáttur launa er í hverju landi, því meiri líkur eru á hærra verðlagi og öfugt. Þetta þekkja Íslendingar vel af ferðalögum erlendis.