Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, verslunarstjóri og vert, segir ýmsar áskoranir fylgja því að reka dagvöruverslun í dreifbýli.
Hann starfaði lengi sem sjómaður en keypti Vegamót þegar þau voru boðin til sölu árið 2017.
„Það er samfélagsverkefni að reka verslun,“ segir Gísli því bæði þurfi á hvort öðru að halda. Bílddælingar viti að til þess að verslunin haldist opin þurfi þeir að skipta við hana og að sama skapi reyni Gísli að vera sanngjarn í álagningu.
Samhliða verslunarrekstri er veitingastaður rekinn í sama húsi. Gísli segir þessi ólíku rekstrarform hjálpa hvort öðru. Suma daga borgi búðin launin og aðra daga veitingahúsið og þetta sé einn af stóru lykilþáttunum í að þetta gangi. Þó geti reynt á að reka búð þegar mikið er að gera á veitingastaðnum. „Það þarf náttúrlega að fylla á og ég er í gömlu húsnæði sem er ekki byggt fyrir verslun,“ segir hann.
Forsendurnar fyrir verslunarrekstri á Bíldudal hafi breyst með auknu atvinnulífi á svæðinu. Arnarlax og aðilar þeim tengdir hafi verið mjög duglegir að versla í Vegamótum og sé til að mynda allur kostur fyrir bátana í fiskeldinu fenginn þar.
Vöruframboðið úthugsað
„Það er ótrúlega mikið úrval í lítilli búð af því sem fólk þarf,“ segir Gísli. Hann skoði stundum listann yfir fimmtíu vinsælustu vörurnar í vefverslun Heimkaupa og reynast sömu vörur fáanlegar í Vegamótum. Þá hafi hann grisjað út allan óþarfa í vöruframboðinu á undanförnum árum. Vöruúrvalið byggi helst á dagvöru eins og mjólk, grænmeti, ávöxtum, kjötvörum og fleiru. Þá reyni hann að eiga til allt það sem fólki gæti óvænt vantað þegar það er byrjað að elda, eins og tómatsósu, sósujafnara eða annað í þeim dúr.
Þá sé ekki endilega alltaf það sama til þar sem markhópurinn er ekki stór. Það sé kannski ekki nema einn íbúi í bænum sem vilji einhverja ákveðna vöru og það sé ekki hægt að ætlast til að viðkomandi versli sama hlutinn oft í mánuði. Aðspurður hvort hann sé með tölvukerfi sem haldi utan um innkaupin segir Gísli: „Þetta er allt í grautnum í hausnum á mér – tilviljanakennt eins og lífið mitt.“
Á Vegamótum er ekki mikið úrval af sérvörum eins og tíðkast oft í litlum verslunum úti á landi, enda sé plássið gjörnýtt undir dagvöru. Rétt við hliðina á Vegamótum sé hins vegar lítil verslun með öllu milli himins og jarðar. „Þar geturðu fengið kristalsglös og tvist,“ segir Gísli.
Flutningskostnaður áskorun
Hár flutningskostnaður sé ein helsta áskorunin við rekstur lítillar verslunar í dreifbýli. „Maður er kannski að flytja nokkra goskassa og það kostar tuttugu þúsund krónur,“ segir Gísli. Það sé kostnaður sem þurfi að setja á tiltölulega fáar vörur. „Þess vegna er dýrara að versla úti á landi.“
Það geti verið hagstæðara fyrir heimafólk að versla allt í Bónus. Því fylgi hins vegar óhagræði þar sem fólk þurfi að fara yfir langan veg og gera stórinnkaup. Þá sé ekki víst að matvaran sé enn fersk þegar kemur að því að neyta hennar. Bílddælingar viti því að best sé að sækja það sem vanti hverju sinni í heimabyggð.
Gengur ekki nógu illa
Rekstur Vegamóta gengur vel og segir Gísli rætast úr öllu með bjartsýni og jákvæðni. Hjá honum eru fjórir starfsmenn í fullu starfi allt árið. Yfir sumartímann fari starfsmannafjöldinn upp í fimmtán manns, með hlutastarfsmönnum, en þá er mikið að gera á veitingastaðnum. Innviðaráðuneytið hefur veitt styrki til að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum. Gísli segist ekki hafa sótt í þann sjóð þar sem hann reiknar ekki með að uppfylla skilyrðin.
„Ég held að það hafi ekki gengið nógu illa.“ Gísli vill taka fram þakklæti sitt fyrir stuðninginn frá samfélaginu, sem eigi ekki síður þátt í velgengni rekstursins.