Víða ekki hægt að koma niður plöntum vegna klaka og bleytu
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Gróðursetningar hófust fyrir nokkru á Austurlandi þrátt fyrir langt og kalt vor og eru fáeinir skógarbændur komnir vel á veg með að setja út frysta lerkið.
„Veðrið hefur töluvert verið að stríða okkur í vor varðandi gróðursetningar. Það hefur gengið hægar en vanalega að koma út lerki sem geymt hefur verið í frysti yfir veturinn, en það eru þær plöntur sem þarf að koma fyrst út,“ segir Ólöf I. Sigurbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga.
Hún segir mikilvægt að koma plöntum sem fyrst út, helst megi það ekki dragast mikið yfir mánaðamótin maí/júní að koma plöntum í jörð. Aðstæður hafa verið með þeim hætti í vor að víða var hreinlega ekki hægt að koma plöntum niður vegna klaka og eða bleytu.
Ekki alltaf jólin
Eitthvað hafi verið um að setja hafi þurft þær plöntur sem ekki komust í jörð í plöntubakka til áframræktunar og þá með tilheyrandi aukakostnaði. Eins hafi landeigendur í einhverjum mæli skilað inn plöntum sem þeim var úthlutað því svæðin voru víða svo blaut að ekki var hægt að komast inn á þau. Til að bæta enn gráu ofan á svart vantar líka sums staðar mannskap í gróðursetningar, en margir landeigendur treysta sér ekki til eða hafa ekki tök á að koma sjálfir niður plöntum.
„Það verður að segjast eins og er að það eru ekki margir að sækjast eftir að komast í gróðursetningu þegar hitastigið er 2 °C og slydda. Svo það eru ekki alltaf jólin í þessu frekar en öðru,“ segir Ólöf.
Teygjum á gróðursetningartímanum
Hún segir að fáeinir skógarbændur séu komnir vel á veg með að setja út fryst lerki „og við hvetjum þá sem ekki eru byrjaðir en fengu úthlutað frystu lerki að kappkosta að koma því í jörðu sem allra fyrst,“ segir hún.
Rannsóknir sýni að hratt dragi úr lifun frostplantna ef þær fara seint í jörðu og viðmiðið hefur verið mánaðamótin maí-júní.
„Í ljósi þess hversu seint hefur vorað hefur var ákveðið að teygja gróðursetningartímann eins langt og þorandi þótti. Eftir þann tíma þurftum við að setja plöntur í bakka til áframhaldandi ræktunar, þeim plöntum sem verður skilað inn þurfa lengri umönnun á gróðrarstöð og verða gróðursettar í haust. Þetta skapar okkur aukakostnað og -vinnu því lagt var upp með að þessar plöntur kæmust út núna í vor,“ segir Ólöf. Hún bætir við að ekki sé um stórmál að ræða, en þetta sé dæmi um afleiðingar veðurfarsins, „og er vissulega þó nokkur kostnaðarauki fyrir verkefnið“.
Ólöf segir að þrátt fyrir kuldatíð undanfarið komi skógurinn fallegur undan vetri og það megi þakka stöðugu veðurfari á liðnum vetri, sem var laus við hitasveiflur.