Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Snorri Sigurðsson flutti búferlum til Nígeríu til að stýra uppbyggingarverkefni Arla.
Snorri Sigurðsson flutti búferlum til Nígeríu til að stýra uppbyggingarverkefni Arla.
Mynd / Hans-Henrik
Viðtal 28. júní 2023

Ævintýraleg uppbygging hátæknifjóss í Afríku

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Norður-evrópska samvinnufélagið Arla opnaði nýlega myndarlegt 500 kúa fjós í Nígeríu og samhliða því þorp fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Snorri Sigurðsson, sem er lesendum Bændablaðsins væntanlega vel kunnur fyrir regluleg skrif hans í blaðið, stýrði verkefninu og lýsir hér þessari áhugaverðu framkvæmd.

Norður-evrópska samvinnufélagið Arla, sem er fjórða stærsta afurðafélag heims, á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1881. Síðan þá hefur félagið unnið mjólkurvörur úr mjólk frá kúabúum eigenda sinna, sem eru í sjö löndum í norðurhluta Evrópu og telur fjöldi þeirra nú rúmlega 8.700. Nú hefur félagið í fyrsta skipti byggt fjós sem er alfarið í eigu félagsins en fjósið er í Kaduna fylki í Norður-Nígeríu.

Legubásafjósið sjálft, hér á hægri hönd, tekur 478 kýr í legubása og er nærri 200 metra langt.

Af hverju að byggja kúabú?

Snorri segir það alls ekki sjálfgefið að framleiðendasamvinnufélag eigi sjálft kúabú. „Arla er fyrst og fremst sölufélag fyrir mismunandi vörur sem eru unnar úr mjólk og Nígería, sem er að verða eitt fjölmennasta land í heimi, er mjög mikilvægt fyrir félagið sem flytur m.a. til landsins mörg þúsund tonn af mjólkurdufti. Hér er því pakkað og selt til neytenda. Flest þróunarlönd gera kröfu til innflutningsaðila á vörum, sem eru í samkeppni við innlenda framleiðslu, að stuðla að uppbyggingu á innviðum og í tilviki innflutningsaðila á mjólkurvörum gerði ríkisstjórnin einfaldlega kröfu um að innflutningsaðilarnir byggðu upp mjólkurframleiðslu og -vinnslu og var m.a. gerð krafa um að hver innflutningsaðili væri með a.m.k. 400 kúa bú! Arla gat auðvitað ákveðið að gera það ekki og draga sig út af nígeríska markaðinum, en þetta var í raun auðveld ákvörðun þar sem núverandi umfang okkar hér og hinn ört vaxandi markaður vó miklu þyngra en kostnaðurinn við uppbygginguna og rekstur kúabúsins í framtíðinni. Þess utan getum við nýtt mjólkina í eigin afurðavinnslu hér svo dæmið gengur ljómandi vel upp til lengdar.“

Að sögn Snorra verður kúabúið líka notað til kennslu en bæði nígeríski landbúnaðarháskólinn og dýralæknaháskólinn hafa óskað eftir samstarfi við Arla um starfsþjálfun og kennslu. Þá er ráðgert að vera með margs konar námskeið á kúabúinu fyrir þarlenda kúabændur.

Alls er Arla með 400 hektara lands á langtímaleigu og þar af þekur byggingarsvæðið sjálft 180.000 fm.

Einstakt ferðalag

Snorri hefur stýrt þessu verkefni fyrir samvinnufélagið, en því fylgdi að flytja búferlaflutningum til Nígeríu.

„Þetta er búið að vera eiginlega ótrúleg vegferð sem við í Arla höfum verið á síðustu ár og hálf óraunverulegt að verkefnið sé komið á þann stað sem það er í dag. Ég var fenginn til að stýra þessu verkefni fyrir Arla um mitt ár 2020, en á þeim tíma vann ég í Kína og sá þar um ráðgjafarverkefni til þarlendra kúabúa. Við, þ.e. ég og Kolbrún Anna, eiginkona mín, fluttum til Nígeríu um áramótin 2020–2021 og við tók vinna við hönnun, útboð og allt sem því fylgir og núna rúmum tveimur árum síðar erum við með fjós sem tekur 478 kýr og höfum samhliða byggt upp heilt þorp fyrir starfsfólk og þá sem þjónusta kúabúið. Þetta er gjörólíkt því sem fólk þekkir á Íslandi eða mörgum öðrum löndum enda er reynsla Nígeríubúa af mjólkurframleiðslu fyrst og fremst bundin við kýr frá hirðingjum, sem flakka um hið svokallaða Sahel-belti í Afríku og selja mjólk sína þar sem þeir hafa sett niður tjöld sín. Að vera með hátæknifjós er því algjörlega nýtt af nálinni og krefjandi á margan hátt.“

Allir gripir kældir og á sandi

Kúabúið, sem er staðsett á svæði sem er ríkt af vatni, er hannað að danskri fyrirmynd þar sem mikið rými er fyrir alla gripi og velferð gripanna í hávegum höfð. „Ég ákvað strax að leggja til við stjórnina að byggja fjós sem gengi lengra en önnur kúabú þegar maður horfir til dýravelferðar og því erum við í raun með einstakt kúabú, ekki bara í Afríku heldur í heiminum. Hér eru t.d. allir gripir með aðengi að sandlegusvæði, þ.e. geta lagt sig í mjúkan og þurran sand, hafa aðengi að burstum til að klóra sér frá tveggja mánaða aldri og svo erum við með mun meira rými fyrir hvern grip en gerist og gengur. Þess utan erum við með sérstakt kælikerfi fyrir alla gripi, þ.e. viftur sem sjá um að halda nærumhverfinu fyrir gripina góðu svo þeim líði vel.“

Á svæðinu í kringum kúabú Arla eru þúsundir kúa í eigu hirðingja sem flakka um með gripina frá einu landsvæði til annars eftir þróun beitarsvæðanna.

Innfluttar kýr

Í stað þess að nota nígerískar kýr eru kýrnar sem munu sjá um mjólkurframleiðsluna á kúabúinu af Holstein kyni og innfluttar frá Danmörku. „Ég ákvað strax í upphafi að hanna kúabúið fyrir innfluttar kýr og keyra á þá lausn þar sem við erum í þessu til að framleiða mjólk og stefnum á arðsemi. Við getum ekki látið einhverjar tilfinningar stjórna því hvernig við sinnum kúabúskapnum, ekki frekar en að velja eina dráttarvélategund frekar en aðra af því að hún er af sérstakri tegund.

Kýrnar eru hér til að framleiða mjólk og það mikið af henni en við stefnum að því að framleiða 5 milljónir lítra hér árlega þegar fram líða stundir. Við fengum því að velja kvígur frá eigendahópi Arla í Danmörku og völdum fyrst og fremst kvígur frá búum sem eru með miklar afurðir. Við leigðum svo flutningavél og flugum hingað niður eftir 216 kvígum, helmingur þeirra þegar sæddar með kyngreindu sæði. Við stefnum hér að því að kúabúið verði afurðahæsta kúabú Afríku innan fárra ára og hér eru allar forsendur fyrir því að geta framleitt vel yfir 40 kíló af mjólk á kú dag hvern að jafnaði. Í samanburði við nígerískar kýr, þá er þetta líkt og að bera saman fólksbíl og Formúlu 1 bíl. Holstein kýr hafa verið þrautræktaðar til að framleiða mikið af mjólk við kjöraðstæður en hinar nígerísku frænkur þeirra hafa yfirburði til að lifa af við erfiðar aðstæður, þurrka og skort á fóðri. Það er bara ekki þörf fyrir þá eiginleika á kúabúi Arla.“

Þrettán manns starfa við kúabúið og á ökrum en 40 verðir gæta svæðisins.Caption

Langt utan alfaraleiðar

Kúabú Arla stendur langt utan alfaraleiðar og akstursfjarlægðin í næstu stórbæi, Kaduna og Kano, er á fjórða klukkutíma. „Þetta virkar nú líklega hálf öfugsnúið á fólk en málið er að það var auðvitað mikilvægt fyrir okkur að velja landsvæði sem ekki var þegar í notkun. Ég hafði nákvæmlega engan áhuga á því að fá á okkur ákúrur fyrir að ýta nígerískum bændum út vegna okkar framkvæmda svo við fengum land sem var í eigu hins opinbera og hafði ekki verið notað í áratugi. Í Nígeríu eru enn þá mörg svæði sem eru ónotuð þrátt fyrir að þau gætu öll verið nýtt til landbúnaðar svo þarna eru víða sóknarfæri.

Landið sem við fengum er gott ræktarland, 400 hektarar á vatnsgóðu svæði og stendur við um 20 ferkílómetra stöðuvatn sem bændurnir á svæðinu nota til að vökva akra sína með þegar þurrkatímabilið stendur. Vegna aðstæðna, ekki nema rétt um 1.000 km norðan við miðbaug, er hægt að rækta allt árið um kring þar sem hér kemur aldrei vetur, vor né haust. Hér er bara sumar allt árið og eini munurinn er hvort það sé rigningartímabil eða ekki. Við getum því margnýtt landið á hverju ári og 400 hektarar í Nígeríu jafngilda því rúmlega 1.000 hekturum á Íslandi svo dæmi sé tekið.“

Arla-þorpið

Þar sem kúabúið var utan alfaraleiðar var strax ljóst að byggja þurfti upp húsnæði fyrir starfsfólkið, og þótt kýrnar verði ekki nema tæplega 500 þarf marga starfsmenn miðað við það sem gerist og gengur í Evrópu á sambærilegum kúabúum. Alls vinna fimmtán manns við kúabúið, akra og þrif en ofan á það starfa þar 40 verðir. „Þetta á sér allt eðlilegar skýringar. Hér er í fyrsta lagi mikil áhersla lögð á að veita mörgum vinnu og það er því ekki beint litið á það sem kost að hagræða þegar kemur að starfsmannahaldi. Þetta þarf maður einfaldlega að virða. Fyrir vikið eru mjög fáar sjálfvirkar lausnir valdar og tækin sem við erum með eru ekki heldur afkastamikil.

Þess utan er allt sem við erum að gera nýtt fyrir starfsfólkið okkar og því tekur tíma að þjálfa upp rétt vinnubrögð og svo framvegis. Svo má ekki gleyma öryggismálunum en ég er með fleiri verði en starfsfólk, öryggisverði sem passa upp á að kálfum eða kúm sé ekki stolið og/ eða starfsfólkinu okkar, en það er því miður algeng iðja í Nígeríu að ræna fólki og krefjast peninga. Þegar allt er talið þarf s.s. töluvert húsnæði undir alla sem starfa þarna og við erum þegar búin að byggja sjö hús og vegna fleiri framkvæmda á komandi árum reikna ég með að við byggjum önnur sjö hús á næstu tveimur árum.“

Ef af líkum lætur mun nýja þorpið hýsa að minnsta kosti hundrað manns fyrir lok næsta árs. 

Kvígurnar una sér vel í nýja kvígufjósinu.

Formleg opnunarhátíð

Eins og áður sagði var kúabúið formlega tekið í notkun 25. maí sl. að viðstöddu fjölmenni og mörgum af áhrifamestu einstaklingum landsins. „Þetta var ótrúlegur dagur og eitthvað sem maður upplifir bara einu sinni á ævinni. Nígeríubúar gera hlutina öðruvísi en við erum vön í Evrópu svo þessi opnun, sem ég á sínum tíma stakk upp á við markaðsdeildina, vatt hraustlega upp á sig. Ég var búinn að sjá fyrir mér að við myndum vera með einhverja blaðamenn og sýna þeim aðstöðuna en þetta endaði sem heljarinnar listsýning með tilheyrandi. Hingað komu alls konar fyrirmenni, höfðingjar og meira að segja sjálfur emírinn af Zazzau, einn af þremur viðurkenndum emírum í Nígeríu. Allir nutu þess að fá leiðsögn um kúabúið og við hina formlegu opnun, þ.e. þegar klippt var á borðann, fengum við mikið lof fyrir þá sýn sem við höfum á mjólkurframleiðsluna, ekki bara í Nígeríu heldur allri Afríku. Að það þurfi að horfa til aukinnar framleiðslu og hámarka nýtingu bæði gripa og lands. Þetta sjá fleiri og fleiri núna sem betur fer.“

Snorri að útskýra fyrir fylkisstjóranum í Kadúna-fylki, emírnum af Zazzau og fleiri gestum hvernig fylgst verður með atferli kúnna með rafrænum hætti í nýja fjósinu.

Hvað tekur við?

Þótt kúabúið hafi nú hafið rekstur er verkefni Snorra í Nígeríu ekki lokið.

„Bygging kúabúsins var bara fyrsti áfangi og nú tekur við næsti hluti sem er að reka það. Ég efast ekki um að við eigum eftir að lenda í alls konar mótvindi fyrsta árið og ég mun því ekki fara alveg á næstunni. Svo eru reyndar fleiri verkefni hjá mér hérna, m.a. að byggja upp söfnunarstöð fyrir mjólk hér á kúabúinu okkar. Sú söfnunarstöð snýr að öðru verkefni sem er að útbúa 1.000 ný lítil kúabú fyrir þá hirðingja sem vilja breyta til og fara út í hefðbundinn kúabúskap.

Það verkefni er komið vel á veg og ég vænti þess að við byrjum að kaupa mjólk af þessum kúabúum í byrjun næsta árs. Það þarf því að henda upp söfnunarstöð fyrir mjólkina. Svo þarf að vinna úr mjólkinni og til að byrja með notum við afurðastöð sem mitt fólk rekur í Kaduna-borg, þar er einungis framleidd fersk jógúrt með stutt geymsluþol og við seljum hana fyrst og fremst í Kaduna-borg og Kano-borg. En þegar mjólkurmagnið stígur mikið verður afurðastöðin okkar í Kaduna-borg of lítil og við þurfum að byggja nýja. Við erum því þessa dagana að klára hönnun á afurðastöð, sem við stefnum á að byggja á landi Arla-kúabúsins á næstu 18 mánuðum eða svo. Það er því nóg að gera næstu misserin.“

Skylt efni: Arla

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt