Byggja á nýjan samning á grunni þess sem fyrir er
Höfundur: smh
Á dögunum bárust um það fregnir að aukning í mjólkurframleiðslu hefði verið tæp 15 prósent miðað við sama tíma í fyrra og voru þá horfur á því að framleiðsla þessa árs yrði meiri en greiðslumark ársins, sem er 140 milljónir lítra. Um svipað leyti sendu Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði bréf til bænda þar sem samdráttur er boðaður á greiðslumarki næsta árs. Áður hafði því verið lýst yfir að greitt yrði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk út næsta ár.
Landbúnaðarráðherra hefur boðað uppstokkun á greiðslumarkskerfinu svo það er ljóst að það eru forvitnilegir tímar fram undan í mjólkurframleiðslunni. Því er ekki úr vegi að kanna hug formanns Landssambands kúabænda til stöðunnar og hvers sé að vænta.
Sigurður Loftsson.
„Það hefur verið ævintýraleg aukning í sölu mjólkurafurða síðustu tvö ár, einkum þeim fituríkari. Frá miðju ári 2013 til dagsins í dag er aukningin í smjörsölu til að mynda 21 prósent, rjóma 11 prósent og feitum ostum um 11 prósent, þá hefur sala nýmjólkur vaxið um þrjú prósent, eftir viðvarandi samdrátt síðustu áratugi. Vegna þessa var greiðslumark aukið milli áranna 2013 og 2014 úr 116 milljónum lítra í 125 millljónir og síðan í 140 milljónir fyrir yfirstandandi ár. Þessi mikli vöxtur hefur verið mjög krefjandi verkefni fyrir greinina, en ekki verður betur séð en bændum hafi gengið vel að nýta þau tækifæri sem hann hefur skapað,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, um stöðu mála.
Laga þarf greiðslumarkið að bættri birgðastöðu
„Hluti þess greiðslumarks sem ákvarðað var fyrir yfirstandandi ár kom til vegna þess að byggja þurfti upp nauðsynlegar birgðir, en þær höfðu gengið til þurrðar í söluaukningu síðustu ára. Söluspáin gerði ráð fyrir aukningu upp á 136 milljónum lítra og 4 milljónir voru áætlaðar til birgðasöfnunar. Nú stefnir í að framleiðsla yfirstandandi árs verði nokkuð yfir útgefnu greiðslumarki og því líklegt að laga þurfi greiðslumarkið til samræmis við bætta birgðastöðu. Lækki greiðslumarkið deilast stuðningsgreiðslurnar á færri lítra sem því nemur, það gerir þeim væntanlega léttara fyrir sem átt hafa í erfiðleikum við að fylla sitt greiðslumark. Að öðru leyti sé ég ekki annað en komandi ár geti orðið kúabændum hagfellt. Það er ennþá þokkalegur vöxtur í sölu, en auðvitað er nauðsynlegt að haldið verði vel á spöðum í markaðsmálum og hvergi slakað á því efni,“ segir Sigurður. Hann segir enga ástæðu til að efast um að ekki verði staðið við yfirlýsingar um að áfram verði greitt fullt afurðastöðvarverð fyrir alla mjólk á næsta ári.
Brýnt að taka upp starfsskilyrði kjötframleiðslunnar
Nú rennur mjólkursamningurinn út í árslok á næsta ári. Sigurður segist sjá það fyrir sér að nýr samningur um starfsskilyrði kúabænda muni taka mið af þeim árangri sem núverandi samningur hefur skilað. „Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að núverandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og þau ákvæði búvörulaganna sem tengjast greininni, hafa skilað verulegum árangri til hagsbóta fyrir neytendur og tryggt afkomu bænda. Ég tel því eðlilegt að byggt verði áfram á grunni þess fyrirkomulags sem í gildi er, en þróa það jafnframt áfram og sníða af því þá agnúa sem til staðar eru. Mikilvægustu þættirnir sem varða starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar eru tollverndin og að bændur fái áfram að koma fram sameinaðir gagnvart markaði, að þessu þarf sérstaklega að gæta. Síðan er að mínu mati algörlega nauðsynlegt að tekið verði á starfsskilyrðum nautakjötsframleiðslunnar.“
Uppstokkun á styrkjakerfinu hefur ekki verið rædd
Í ræðu landbúnaðarráðherra á síðasta Búnaðarþingi kom fram að hann sæi fyrir sér að með nýjum búvörusamningum myndi styrkjakerfið í landbúnaði byrja að ganga í endurnýjun lífdaga. Sigurður sér þó ekki fyrir sér að þar verði einhver sérstök uppstokkun í einni svipan. „Það hafa ekki verið viðraðar neinar hugmyndir eða tillögur af því tagi við okkur varðandi mjólkina og ég tel afar ólíklegt að svo verði. Að mínu mati ber að horfa til þess að stuðningur ríkisins við greinina treysti afkomu bænda og stuðli að bættum aðbúnaði gripa, en jafnframt lægra vöruverði til neytenda og bættri samkeppnishæfni greinarinnar. Það má líka benda á að síðasta Búnaðarþing varaði við hugmyndum um landgreiðslur, þar sem slíkur stuðningur hefði ríka tilhneigingu til að eigngerast. Ég óttast að það sama geti átt við um búsgreiðslur. Í þessu sambandi er líka rétt að minna á, að landbúnaðarráðherra gaf um síðustu áramót út nýja reglugerð um velferð nautgripa, þar sem um helmingur allra fjósa í landinu var úreltur á næstu 20 árum. Landssamband kúabænda hefur áætlað að fjárfestingarþörf greinarinnar einungis vegna þess sé ekki undir 18 milljörðum. Með einhverjum hætti verður greinin að bera þá fjárfestingu. Það er ekki bundið við Ísland að eiginfjármyndun í landbúnaði sé hæg, slíkt er fremur algengara en hitt víðast hvar í þróuðum löndum. Margar þjóðir bregðast við þessu með því að tryggja landbúnaðinum aðgang að langtímafjármögnun á boðlegum vöxtum, slíku er hins vegar ekki til að dreifa hér. Það bætir þá varla úr skák ef stuðningsgreiðslum greinarinnar verður spreðað út um holt og móa með óljósum tilgangi.
Ég tel því að það eigi að byggja nýjan samning á grunni þess sem fyrir er, en gera á því nauðsynlegar breytingar. Það gildir um greiðslumarkskerfið eins og annað.“
Skiptir mestu að það sé stuðlað að traustri búsetu
Sú þróun hefur orðið í mjólkurframleiðslunni að kúabú hafa verið að stækka. Risafjós er í byggingu hjá Flateyjarbúinu á Mýrum í Hornafirði og fleiri dæmi mætti taka. Sigurður hefur ekki áhyggjur af því að það séu ekki bændur sem standi að slíkum búrekstri og þiggi stuðningsgreiðslur úr kerfinu. „Nú þekki ég ekki frekar en aðrir til þeirra hugmynda sem forsvarsmenn Flateyjarbúsins hafa um framtíð þess, en vissulega eru þar á ferð hugmyndir um stærra bú en áður hefur þekkst hér á landi. Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er hvort rekstur þessa bús stuðlar að traustari búsetu fólks í sínu nærumhverfi. Að mínu viti er það ekki endilega neikvætt að utanaðkomandi aðilar vilji fjárfesta í greininni. Hins vegar er það mín skoðun að fjölskyldubúið eigi áfram að vera sá grunnur sem nautgriparæktin byggir á, en það verður líka að þróast í samhliða nýrri tækni og auknum samfélagskröfum. Hvað varðar beingreiðslurnar, þá eru þær greiddar á framleiddan lítra mjólkur innan greiðslumarks og gera sér engan mannamun í því eins og fyrirkomulagið er í dag, enda eru þær hugsaðar til að lækka vöruverð til neytenda. Sé hins vegar vilji til þess að taka í auknum mæli tillit til stærðarhagkvæmni búanna við útdeilingu stuðnings, er eðlilegast að ræða það samhliða nýjum samningi.“
Tækifæri fyrir dugmikla og útsjónarsama bændur
„Núverandi stjórnvöld hafa lýst því í stjórnarsáttmála að íslenskum landbúnaði verði gert kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir. Nú í byrjun sumars var endanlega staðfest skipun samninganefndar vegna búvörusamninga og væntanlega verður gengið frá nýjum samningum á komandi vikum eða mánuðum sem gilda muni næstu ár. Þar munu að vonum felast tækifæri fyrir dugmikla og útsjónarsama bændur. Ég er því heldur bjartsýnn á framtíðina fyrir hönd nautgriparæktarinnar.“