Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Mikilvægt er að leiða saman þekkingu og reynslu og innleiða heildræna og samþætta nálgun við stjórnun gróðurelda, allt frá viðbúnaði til áhættuminnkunar, viðbragða og endurheimtar,“ segir Rebekah D'Arcy skógfræðingur.
„Mikilvægt er að leiða saman þekkingu og reynslu og innleiða heildræna og samþætta nálgun við stjórnun gróðurelda, allt frá viðbúnaði til áhættuminnkunar, viðbragða og endurheimtar,“ segir Rebekah D'Arcy skógfræðingur.
Mynd / Pixabay
Viðtal 25. febrúar 2025

Eldar munu verða tíðari

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Skógfræðingur sem rannsakað hefur brunahegðun og hermilíkön gróðurelda telur að Íslendingar þurfi að efla skilning á slíkum eldum og varnir gegn þeim.

Rebekah D'Arcy er menntaður skógfræðingur og búsett á Íslandi. Hún hefur unnið við skógrækt á Íslandi í rúm þrjú ár og starfar nú sem aðstoðarmaður við rannsóknir hjá Landi og skógi.

Hún hlaut heiðursverðlaun haustið 2023 fyrir meistaraprófsritgerð sína í skógfræði við Bangor-háskólann í Wales, um áhrif gróðurelda á tré á Íslandi.

Nýlega vann Rebekah einnig að verkefni um hugsanlega innleiðingu á viðurkenndu eldhegðunarlíkani fyrir Ísland. Þetta líkan er hægt að nota til að líkja eftir brunahegðun í tilteknu landslagi, byggt á landssértækum gögnum.

„Í því verkefni lagði ég áherslu á viðkvæm svæði og fyrri eldsvoða,“ segir Rebekah.

Rebekah við rannsóknir í Heiðmörk. Mynd/Aðsend

Áhrif gróðurelda á Íslandi

Í Bændablaðinu í janúar var fjallað um að Norðurlöndin skoði nú í sameiningu vaxandi hættu á víðtækum skógareldum og hvernig efla megi varnir og viðbrögð.

Rannsóknir Rebekuh eru forvitnilegar m.a. í ljósi þess og hún segir fulla þörf á að Íslendingar gefi þessum málum aukinn gaum.

Uppistaðan í meistararitgerð hennar var árslöng rannsókn á áhrifum gróðurelda hérlendis. „Til þess beitti ég sannreyndum aðferðum til að hanna og framkvæma mat eftir bruna á 56,5 ha gróðureldasvæði í Heiðmörk árið 2021. Með þeim gögnum áætlaði ég fyrst lífmassatap trjáa ofanjarðar.

Að því búnu gerði ég tölfræðilega greiningu, með því að búa til aðhvarfslíkan, til að greina hvaða áhrif gróðurelda orsökuðu mest tjón og afföll í trjám. Tæplega þriðjungur reita í úrtakinu voru grassvæði án trjáa. Af 223 skráðum trjám voru 58 ekki með sjáanlegar skemmdir og 119 enn lifandi. Ég kynnti niðurstöður þessarar rannsóknar á Fagráðstefnu skógræktar 2024 á Akureyri og hjá fleiri stofnunum,“ segir Rebekah.

Hún safnaði einnig gróðri, lífrænum niðurbrotsleifum (humus) og jarðvegssýnum sem hún undirbýr nú fyrir greiningu. Út frá þessu mun hún meta kolefnisbreytileika í lífmassa bæði ofan- og neðanjarðar eftir brunann.

Hún er einnig að undirbúa grein sem á að skila til birtingar í ritrýndu vísindatímariti um niðurstöður þessarar rannsóknar.

Spálíkan fyrir brunahegðun

Rebekah nefnir aðra rannsókn sína sem tengist sama efni. Um var að ræða þriggja mánaða hagkvæmniathugun á innleiðingu á þekktu eldhegðunarlíkani, með íslenskum veður-, landslags- og gróðurgögnum, til að spá fyrir um brunahegðun. Rannsóknin var unnin með Þresti Þorsteinssyni, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

„Þar sem þetta var hagkvæmniathugun í þriggja mánaða tímaramma hefur líkanið ekki enn verið innleitt, því meiri vinnu þarf til að gera það nothæft,“ útskýrir Rebekah. „Við vitum ekki nóg um hvernig eldur hegðar sér í mismunandi tegundum eldsmats á Íslandi, þ.e.a.s. hugsanlega eldfimum gróðri sem líklegt er að kvikni í og dreifist, til að geta útfært gagnlegt líkan,“ bætir hún við. Því verði sótt um styrk til framhaldsrannsókna, til að rannsaka brunahegðun í íslenskum gróðurgerðum.

Efla viðbúnað vegna gróðurelda

Rebekah er spurð hvort hún telji að íslensk náttúra sé viðkvæm fyrir gróðureldum. „Einfalda svarið er já,“ svarar hún og heldur áfram: „Við vissar aðstæður í veðurfari, landslagi og gróðurskilyrðum geta kviknað gróðureldar í öllum gerðum vistkerfa á landi, þ.m.t. í óframræstu votlendi. Hins vegar fer tíðni og alvarleiki gróðurelda eftir samsetningu fyrrnefndra þátta innan vistkerfis,“ segir hún. Til útskýringar nefnir hún að til dæmis geti sum vistkerfi haldið velli og náð sér þrátt fyrir minni háttar elda, á meðan önnur verði fyrir stórfelldu tjóni í miklum gróðureldum.

„Þrátt fyrir að við höfum séð fjölgun gróðurelda á Íslandi, hafa þeir aðeins verið skráðir frá árinu 2006. Flestir hinna skjalfestu gróðurelda urðu í lággróðri, aðallega graslendi. Mesti eldurinn sem mælst hefur var Mýraeldar, í votlendi. Því minna sem við vitum um eldhegðun og áhrif elds á íslensk vistkerfi, því berskjaldaðri erum við fyrir eldhættu. Það sem við vitum er að vegna þátta eins og áframhaldandi hlýnunar og minni beitar, er Ísland að verða grænna en áður. Á vorin höfum við séð lengri snjólaus tímabil að vetri og lengri þurrari tímabil að vori, sem aftur eykur líkur á að kviknað geti eldur í sinu. Magn gróðurs sem kviknað getur í á þurrkatímabilum er um leið að aukast, sérstaklega í þurrari og léttari eldsmat, t.d. grösum,“ segir hún.

Vitað er að svæði þar sem fólk fer um eða dvelur geta verið viðkvæmari en ella, t.d. vegkantar og sumarbústaðasvæði. „Þar sem við vitum ekki mikið um hvernig eldur hegðar sér í okkar einstaka landslagi, er erfitt að vita hvernig á að skipuleggja árangursríkar aðferðir til að draga úr eldhættu eða koma í veg fyrir að eldar breiðist út.“ Hún nefnir dæmi frá síðastliðnu vori þar sem sumarhúsaeigandi olli óvart neistaflugi í gróðri við notkun á vinnutæki. Talið er að þetta hafi leitt til margra blettaelda í mosaþekjunni og þurfti að kalla út slökkvilið. Þetta sýni að skýra aðgerðaáætlun þurfi vegna gróðurelda hérlendis.

Undirbúningur fyrir framtíðina

Rebekah kveðst hafa verið í samtali við sérfræðinga innan íslenskra stofnana og stýrihóp íslenskra gróðureldvarna sem hafi áhuga á þessum málum. Mikilvægt sé að leiða saman þekkingu og reynslu og innleiða heildræna og samþætta nálgun við stjórnun gróðurelda, allt frá viðbúnaði til áhættuminnkunar, viðbragða og endurheimtar.

„Þótt gróðureldar séu ekki stórt vandamál á Íslandi nú, þá munu slíkir atburðir verða tíðari með vaxandi gróðursæld, loftslagsbreytingum sem leiða til hækkandi hitastigs og lengri þurrkatímabila, fjölgun íbúa og umferðar ferðamanna um landið. Ef við lærum að takast á við gróðurelda með samþættri stjórnun eldvarna, verðum við betur búin undir framtíðina,“ segir Rebekah.

Skylt efni: Skógareldar | gróðureldar

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt