Alex Máni Guðríðarson hefur markvisst skoðað fugla í tuttugu ár. Hann hefur skráð hjá sér 292 ólíkar tegundir sem hann hefur séð á Íslandi.
Alex Máni Guðríðarson hefur markvisst skoðað fugla í tuttugu ár. Hann hefur skráð hjá sér 292 ólíkar tegundir sem hann hefur séð á Íslandi.
Mynd / ál
Viðtal 21. ágúst 2024

Fann unnustuna í fuglaleit

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Alex Máni Guðríðarson, fuglaáhugamaður frá Stokkseyri, segist vera þekktur sem einn af „fuglakörlunum“ í nærsamfélaginu.

„Ég er búinn að vera í þessu í tuttugu ár,“ segir Alex, en hann er tuttugu og sjö ára og segir áhugamálið jaðra við að vera þráhyggja. Hann sé í hópi þeirra sem halda úti lista yfir hversu margar tegundir fugla þeir hafi séð á Íslandi. Að jafnaði séu nálægt níutíu tegundir með fasta viðdvöl á landinu, en fuglaáhugamenn keppist við að sjá sem flesta flækinga sem koma umfram það.

Í heiminum öllum séu í kringum tíu þúsund tegundir fugla og hafa yfir fjögur hundruð þeirra sést hérlendis. Sá einstaklingur sem hefur séð flestar tegundir sé með 341 á sínum lista,
en Alex segist hafa barið 292 tegundir augum.

Þó svo að Ísland bjóði ekki endilega upp á flestar tegundir segir Alex marga skemmtilega fugla finnast hér sem séu ekki annars staðar í Evrópu. Þessi dýr séu alltaf til staðar óháð árstíð og telur Alex að lífið væri svart og hvítt og tilbreytingarlaust ef þeirra nyti ekki við.

Fuglaskoðunarhúsið í Friðlandinu í Flóa.

Sá fyrstur flóaskríkju

Alex segir tilfinninguna að sjá eitthvað sem maður hafi ekki séð áður vera yndislega. „Þeim mun sjaldgæfara, þeim mun betra. Svo þegar maður finnur nýja tegund fyrir landið þá vottar fyrir að maður klikkist aðeins í hausnum í smástund á meðan maður er að ná sér niður á jörðina,“ segir Alex.

Hann var einmitt svo heppinn fyrir nokkrum árum að sjá fugl af tegundinni flóaskríkja, sem var þá í fyrsta skiptið á Íslandi og í sjötta skiptið í allri Evrópu. Í kjölfarið hafi síminn ekki stoppað vegna símtala frá fuglaskoðurum sem vildu vita hvar væri hægt að bera fuglinn augum.

Unnusta Alex var meðal þeirra fuglaáhuga- manna sem hringdu til að fá upplýsingar um flóaskríkjuna og voru það þeirra fyrstu kynni. „Svo fór hún að spjalla meira og áttaði sig á hvað er gaman að tala við mig um fugla og við höfum ekki hætt að tala saman síðan,“ segir hann.

Kría fóðrar unga. Mynd / Alex Máni Guðríðarson

Farið landshorna á milli

Með tilkomu samfélagsmiðla hafi orðið aukin vakning fyrir þessu áhugamáli. Í Facebook- hópnum Fuglar á Íslandi séu fimmtán þúsund meðlimir og margir þeirra birti reglulega myndir og skapist líflegar umræður. Þá sé meira fjallað um þetta áhugamál í fjölmiðlum og telur Alex að fólk hafi gaman af „þessum vitleysingum sem keyra landshorna á milli til að leita að sérstökum fuglum.

Þetta er þannig að það fréttist af sjaldgæfum ugli á Stöðvarfirði og menn eru þá komnir í næsta flug á Egilsstaði eða út í bíl og farnir af stað. Þetta getur líka tekið á sambönd hjá fólki, því menn hreinlega verða að fara,“ segir Alex. Fólk þekki hvað annað í þessu áhugamáli og þegar vitað sé að margir eigi eftir að sjá einhvern tiltekinn fugl sé farið saman í hópum.

„Ég myndi skjóta á að þetta væru hundrað manns á Íslandi sem virkilega fara gagngert út til að skoða fugla. Ef það væru fleiri ruglaðir eins og við sem eltumst við þessa skrýtnu fugla þá myndi sennilega finnast meira.“ Nýjar tegundir flækingsfugla séu þó oft skráðar, þökk sé meðal annars því að almenningur er með góðar myndavélar í snjallsímunum. Fólk, sem hefur ekki endilega þekkingu á flækingsfuglum frá Evrópu og Ameríku, geti því tekið myndir og deilt með öðrum og fengið úr því skorið hvaða tegund um er að ræða.

Helsti búnaður fuglaskoðara er kíkir eða fjarsjá. Myndavélar eru líka vinsælar.

Þarf ekki að vera dýrt

Helstu tækin sem fuglaáhugamenn noti séu sjónaukar eða öflugar fjarsjár og byggist skrásetning tegunda mikið á trausti. „Ef þú finnur sjaldgæfan fugl verðurðu að leggja fram gögn um hann fyrir flækingsfuglanefnd. Ef þú ert ekki með nógu góða lýsingu getur það verið fellt hjá þér.“ Því séu stöðugt fleiri fuglaskoðarar búnir að koma sér upp öflugum ljósmyndabúnaði.

Þó svo að hægt sé að kaupa fjarsjá fyrir nokkur hundruð þúsund og myndavélabúnað fyrir meira en milljón segir Alex að áhugamálið þurfi ekki að vera dýrt. Mikið sé til af notuðum græjum og hægt sé að komast af með sjónauka sem kosti ekki hálfan handlegg. Helsti kostnaðurinn felist í því að vera stöðugt á ferðinni, en það sé líka jákvætt því þessu fylgi hreyfing. „Það eru margir sem segja að þetta hjálpi við andlegu hliðina.“

Skammt frá heimaslóðum Alex er Fuglafriðlandið í Flóa þar sem er kjörlendi fyrir fjölmargar tegundir. Þar hafa Fuglavernd og Árborg byggt upp fuglaskoðunarhús sem Alex nýtir sér oft. Sambærileg hús megi finna víða um land en Alex bendir á að bíllinn sé oft besta felubyrgið.

Skylt efni: fuglaskoðun

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt