Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Nautgripabændurnir Karen Ósk Guðmundsdóttir og Ásgeir Ósmann Valdemarsson á Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu ásamt börnum sínum, Emil Jóhanni, fimm ára, og Dagbjörtu Ósk, fjögurra ára. Þau festu kaup á búinu árið 2022 og hafa síðan þá fjölgað kúnum, sett upp mjaltaþjón og tvöfaldað framleiðslugetuna en auk þess eru þau með holdakýr.
Nautgripabændurnir Karen Ósk Guðmundsdóttir og Ásgeir Ósmann Valdemarsson á Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu ásamt börnum sínum, Emil Jóhanni, fimm ára, og Dagbjörtu Ósk, fjögurra ára. Þau festu kaup á búinu árið 2022 og hafa síðan þá fjölgað kúnum, sett upp mjaltaþjón og tvöfaldað framleiðslugetuna en auk þess eru þau með holdakýr.
Mynd / ál
Viðtal 20. ágúst 2024

Fóru í framkvæmdir strax eftir kaup

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Kúabændurnir Ásgeir Ósmann Valdemarsson og Karen Ósk Guðmundsdóttir keyptu Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu í apríl 2022. Þau höfðu áður byggt upp holdanautarækt á æskuslóðum Ásgeirs í Austur-Húnavatnssýslu en gerðust að auki mjólkurframleiðendur við þessa flutninga.

Karen og Ásgeir eru bæði úr Húnabyggð. Hún frá Blönduósi og Ásgeir frá Auðkúlu við Svínavatn. Þegar þau tóku við Litlu-Ásgeirsá var þar fjós sem rúmaði 32 kýr á básum með 175 þúsund lítra framleiðslurétti. Nokkrum vikum eftir flutningana réðst unga parið í miklar breytingar á fjósinu með það að markmiði að fjölga kúnum og auka framleiðslugetuna.

Núna eru þau komin með yfir 400 þúsund lítra greiðslumark og segir Ásgeir þau heppin með að mjólkurkvótinn hafi lækkað í verði. Þau hafa bætt við sig framleiðslurétti á öllum tilboðsmörkuðum með greiðslumark frá því þau tóku við, en eru hætt í bili þar sem þau eru komin með kvóta nálægt framleiðslugetu búsins.

Ásgeir Ósmann Valdemarsson, 33 ára, og Karen Ósk Guðmundsdóttir, 31 árs. Þau hafa verið saman síðan 2018 og eiga tvö börn. Ásgeir er frá Auðkúlu við Svínavatn og Karen frá Blönduósi.
Alltaf viljað framleiða mjólk

„Jörðin var auglýst til sölu og við keyptum hana á opnum markaði,“ segir Ásgeir, en þrátt fyrir að unga parið hafi ekki þekkt fyrri ábúendur hafi kaupin ekki verið óvinnandi vegur. „Það sem hjálpaði okkur var að við vorum búin að koma þokkalega undir okkur fótunum í búskap áður,“ segir hann. Þau voru með 120 holdakýr sem voru farnar að skila tekjum og hafa þau haldið ræktun þeirra áfram á nýjum stað.

„Mig hefur alltaf langað að fara að mjólka,“ segir Ásgeir, en ungu bændurnir segjast vera mjög áhugasöm um kýr. „Mjólkurframleiðslan er nógu mikil vinna til að maður geti verið heima og reynt að lifa af því,“ segir hann, en þau þurftu bæði að vinna utan bús þegar þau voru áður eingöngu í holdanautarækt.

„Við ákváðum að fara strax í að breyta í lausagöngufjós og setja upp róbót,“ segir Ásgeir. Það hafi meðal annars verið þar sem þau vildu auka framleiðsluna og hafa færi á að fjölga kúnum. Þá hafi þau ekki viljað vera bundin í mjöltum kvölds og morgna.

Karen Ósk ásamt Dagbjörtu Ósk, fjögurra ára. Þar að auki á unga parið soninn Emil Jóhann, fimm ára.
Framkvæmdir mikið föndur

Þeim tókst að fjármagna framkvæmdirnar að stórum hluta með því að selja eitt íbúðarhúsið á Litlu- Ásgeirsá. Kaupandinn var Dani sem hafði verið vinnumaður á Auðkúlu í nokkur ár og hafði áhuga á að setjast að á landinu. Þeim var mikið í mun að velja sér góðan nágranna þar sem húsið er á bæjarhlaðinu.

Mikið föndur hafi fylgt breytingunum þar sem þau gátu ekki hætt að mjólka á meðan. Þau hafi þurft að reka kýrnar yfir alls konar krókaleiðir til að koma þeim í mjaltabásinn þegar búið var að brjóta upp öll gólfin í fjósinu. Í nokkur skipti hafi þurft að reka kýrnar í kringum bygginguna til að koma þeim á sinn stað eftir mjaltir. Álagið hafi verið mikið fyrstu mánuðina; „en núna gerum við ekki neitt,“ segir Ásgeir kíminn.

Raunin sé hins vegar sú að nauðsynlegt er að vera stöðugt á tánum í fjósinu og nefnir Karen að mikilvægt sé að sjá vandamálin fyrir áður en þau koma upp. Fyrstu vikurnar og mánuðina hafi þau þurft að reka sig á ýmsa hluti þar sem mjólkurkýrnar eru mun viðkvæmari en holdakýrnar. Þau hafi verið óhrædd við að spyrja dýralækna og reyndari bændur ráða ásamt því að fletta upp upplýsingum á netinu.

Heildarfjöldi gripa á bænum er á bilinu þrjú til fjögur hundruð ef talin eru með mjólkurkýr, holdakýr og gripir sem eru í uppeldi eða geldstöðu, þó þessi tala sé breytileg eftir árstíma. Þar af séu 60 til 80 kvígur í eldi á Auðkúlu. Þegar þau tóku við Litlu-Ásgeirsá fylgdi nokkur fjárstofn, en þau ákváðu eftir rúmt ár að einbeita sér alfarið að nautgripum og losuðu sig því við allt sauðféð. Þau hafa keypt fjögur hreinræktuð Angus naut í sameign með öðrum bændum og eru holdakýrnar að miklu leyti undan þeim.

Breytingarnar á fjósinu voru mikið föndur, en það var ekki hægt að hætta að mjólka á meðan framkvæmdirnar stóðu yfir. Nú er vinnuaðstaðan öll betri og framleiðslugetan helmingi meiri.

Selja ung naut á fæti

„Það eru í rauninni bara kýr og kvígur á búinu,“ segir Ásgeir, en að auki við að selja nautkálfana frá mjólkurkúnum unga, ala þau holdanautin ekki til slátrunar, heldur selja þau fimm mánaða gömul til annarra bænda sem klára eldið. Holdakýrnar bera á vorin og eru kálfarnir afhentir nýjum eigendum í október eða nóvember. „Úti í hinum stóra heimi er þetta meira og minna alltaf gert svona,“ segir Ásgeir, en hann veit hins vegar ekki af nema einum öðrum stórum bónda hérlendis sem hagar sínu nautaeldi svona.

Parið segir þetta gott viðskiptamódel, en þau eru með þrjá fasta kaupendur af öllum kálfum og svo séu fleiri sem hafi áhuga en komist ekki að. Hver kálfur sé seldur á í kringum 190 þúsund krónur að hausti, en Ásgeir segir að þökk sé hækkandi verði á kjöti megi bændur gera ráð fyrir að fá greitt 450 til 550 þúsund krónur fyrir hvern grip við slátrun ári síðar.

„Við fórum í þetta af því að holdakýrnar voru orðnar svolítið margar og við vorum ekki með húspláss fyrir þetta allt,“ segir hann. Þetta henti þeim vel þar sem þau hafa nægt hey og landnæði og geti látið kýrnar vera að mestu úti allt árið.

Upphaf þessa fyrirkomulags megi rekja til þess að stórt fyrirtæki auglýsti eftir að kaupa ung holdanaut sem stóð til að ala. Ásgeir og Karen hafi selt þeim sína kálfa í tvö ár en hætt því þar sem erfitt var að eiga í viðskiptum við eiganda þess fyrirtækis. „Það er miklu auðveldara að selja bændunum hér í kringum sig þó þeir eigi ekki endilega mikið af peningum en hann á nóg af þeim,“ segir Ásgeir. „Hann dró mann á asnaeyrunum lengi. Svo á seinustu stundu þegar maður þurfti að losna við kálfana gat hann nefnt einhverja tölu sem maður varð eiginlega að sætta sig við.“

Engar veiðitekjur kostur

Ásgeir vill hvetja eldri bændur til að leyfa unga fólkinu að komast að og aðstoða við kynslóðaskipti sem muni stuðla að endurnýjun fólks í sveitum. Honum finnist sem seljendur megi oft vera liprari, þó hann taki fram að það eigi ekki við í þeirra tilfelli, og nóg sé af fólki sem vilji komast í búskap.

Karen segir þau vera heppin með að tekjurnar af veiðiréttindum í Víðidalsánni séu ekki mjög miklar með þessari jörð og það hafi haldið kaupverðinu niðri. „Það er fullt af frábærum jörðum hérna allan dalinn sem er búið að leggja í eyði út af þessari laxveiðiá hérna,“ bætir Ásgeir við.

Ásgeir og Karen tóku saman árið 2018 og hafa eignast tvö börn; Emil Jóhann, fimm ára, og Dagbjörtu Ósk, fjögurra ára.

Ásgeir heldur mikið upp á Avant fjósavélina.

5 hlutir sem Ásgeir & Karen geta ekki verið án

1. Burðartjakkur:

Það er hjálpartæki sem er gott bæði fyrir bónda og menn þegar burður gengur illa.

2. Avant-inn minn:

„Avant er fjölnota tæki sem á að vera til á hverjum einasta bæ.“ Mikill rígur er á milli þeirra sem eiga Avant eða Schäffer í sveitinni.

3. Case-inn:

„Maður er náttúrlega ekki án traktors.“

4. Róbótinn:

„Það væri glatað að eiga ekki róbót.“

5. Tökubás:

Hann er nauðsynlegur í holdanautaræktinni.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt