Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Andrés Hjaltason, bóndi í Njarðvík eystri, með hrút sinn Helming. Er sá kynjaskepna og sjaldgæft tilfelli. Sökum sérstöðu sinnar fær Helmingur að lifa og er nú þriggja vetra.
Andrés Hjaltason, bóndi í Njarðvík eystri, með hrút sinn Helming. Er sá kynjaskepna og sjaldgæft tilfelli. Sökum sérstöðu sinnar fær Helmingur að lifa og er nú þriggja vetra.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 10. apríl 2024

Furðuskepnan lifir góðu lífi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í Njarðvík, norðan Borgarfjarðar eystri, býr bóndinn Andrés Hjaltason. Hann hugar að sauðfjárrækt og ýmsum uppfinningum auk þess sem hann hefur furðuskepnu á húsi.

„Veturinn hefur verið ágætur, heldur verið vindasamt, og svo kemur þetta í köflum, gott og vont,“ segir Andrés bóndi í Njarðvík og bætir við að reyndar hafi á pörtum verið byljasamt og mikið af lausamjöll á ferðinni. Snjóalög þó ekki veruleg.

Hann segir samfélag bænda á svæðinu mjög gott. Samstaða sé mikil og góð hjálp sé milli bæja í öllu sem snúi að bústörfum, hvort heldur í fósturtalningu eða öðru. Vel gangi að smala. Þá hafi arfgerðamálin verið mönnum hugleikin, þar eins og víðar. Sem betur fer hafi verið til staðar allnokkrir lambhrútar. „Ég fór með einar tólf rollur milli bæja til kunningja, reyndar ekki í sæðingar, ég ætla að láta þetta duga til að byrja með. Einn var með um fimmtíu ær undir svoleiðis og sá gæti fengið ein hundrað lömb,“ segir Andrés.

Njarðvík á Austurlandi. Þar er ágætt land og náttúran fögur.
Mynd / ál

Tveimur skepnum skeytt saman

Erindið var þó að spyrja um furðuskepnuna. Andrés á frægan hrút á heimilinu.

Andrés bóndi sýnir hvernig Helmingi er skipt frá pung að haus, þráðbeint eftir skepnunni endilangri, í svart og hvítt. Ljósa hliðin er hyrnd, hin kollótt.

„Hann heitir Helmingur, fæddur 2021 og þykir stórmerkileg skepna,“ útskýrir hann. „Helmingur er tvískiptur á lit: grár öðrum megin og ljós hinum megin. Það er bara skorin rák eftir honum endilöngum, þú gætir skorið hann í tvo jafna hluta eftir litahelmingunum. Þetta er mjög sérstakt þó að þekkt séu einstök tilfelli þessa í heiminum. Hann er ekki fjárhrútur, nema bara settur á út af þessu, það koma ágætis lömb undan honum en þau voru bara svört og hvít.
Njarðvík á Austurlandi. Þar er ágætt land og náttúran fögur.

Annað er það að vorið sem hann fór á fjall var hann kollóttur en þegar hann kom heim um haustið til réttar þá var horn öðrum megin en kollótt hinum megin. Hann er sem sagt bara með sitt hvort genið, held ég,“ segir Andrés.

Foreldrar Helmings voru bæði kollótt og hvít en hann birtist svo helmingaður: Dökkur og ljós; einkum frá snoppu og aftur á dindil eru skilin hnífskörp en ekki eins á bakinu og fram á haus.

Andrési finnst heldur lítill áhugi á að rannsaka hann betur og botnar ekki alveg í því. „Ég er búinn að senda mörg sýni úr honum og meira að segja alla leið til Nýja-Sjálands. En ég hef fengið óskaplega lítið út úr því nákvæmlega hvað hann er merkilegur. Ég tími allavega ekki að lóga honum og var að hugsa um að bjóða þeim í Húsdýragarðinum hann. En Helmingur er mjög sérstakur, eiginlega dýrvitlaus. Bæði leiðinlegur og vondur,“ bætir hann við.Helsta kenningin um furðulegt sköpulag Helmings er að farið hafi af stað tvö frjóvguð egg, þau svo runnið saman í móðurkviði og myndað eitt fóstur. Mun það ferli kallað kímera í erfðafræði, er afar sjaldgæft en þekkist þó í dýraríkinu. Þá renna tvær okfrumur saman og mynda fóstur með erfðaefni tveggja einstaklinga.

Hér sýnir hrúturinn Helmingur prúður og einhyrndur sinn fegursta svip en eigandinn segir hann þó jafnan dýrvitlausan.
Rannsaka efnainnihald sauðamjólkur

Dóttir Andrésar, Heiða Sigrún, stundar nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í mörg ár hefur það verið draumur hjá Andrési að rannsaka innihald mjólkur í sauðfé og mjólkurlægni, nánar tilgreint hverju þar munar milli áa. Hann vonast til að Heiða Sigrún taki þetta sem útskriftarverkefni. „Þetta held ég að hafi aldrei verið gert á Íslandi,“ segir Andrés og bætir við til útskýringar: „Spurningin er af hverju sumar rollur eru alltaf með þyngri lömb en aðrar og ýmislegt svoleiðis. Við ætluðum að taka sýni úr rollu, broddmjólk, og svo aftur eftir fjóra, fimm daga, og senda í rannsókn á Keldur til að vita innihald mjólkur; hversu mikið prótein væri, fita og annað. Okkur féllust svo eiginlega hendur af því að það kostaði 25 þúsund krónur að rannsaka eitt svona sýni.“

Þau feðgin séu að vinna í þessu máli og leiti styrkja í verkefnið. „Þá ætlum við að taka fimm ær sem alltaf skila góðu og svo einhverjar lufsur sem skila minna. Eins er það líka með stærð júgra. Maður hefur alltaf haldið að rollur með stór júgur væru að skila betri lömbum en í gegnum tíðina er það samt bara ekki þannig. Rollur með lítil og falleg júgur geta verið að skila betra heldur en einhver rolla með beljujúgur.

Ég hef sem sagt ekki heyrt af því að þetta hafi verið rannsakað og held að mál sé komið til hvað nákvæmlega þetta varðar,“ segir Andrés jafnframt. Einhverjar rannsóknir hafi þó farið fram í tengslum við að nota sauðamjólk í ostagerð.

„Þetta er stórmerkilegt, kúabændur eru búnir að lifa á mjólkurinnihaldi í fjörutíu, fimmtíu ár en ef við lítum á það þannig þá er þetta nákvæmlega sama hjá okkur sauðfjárbændunum þótt á annan máta sé. En okkur langar sem sagt að vita hvort þarna sé einhver munur,“ segir hann.

Ferskur þari fyrir fengitíma eykur frjósemi

Andrés hefur verið að gera tilraunir með að fóðra ær sínar á þara til að auka frjósemi.

„Ég fór í Hjartarstaði í haust og náði mér í sýru, sem þeir nota til að súrsa bygg, því ég fór út í smá tilraunaverkefni. Ég fór sem sagt að gefa þara fyrir fengitímann. Í gamla daga var talið að það hefði góð áhrif. Skúli Kristinsson, sem var fæddur og uppalinn í Húsavík, sagði að frjósemin á vorin hefði byggst á því að verið hefði þari í fjörunni fyrir fengitímann.“

Andrés fór út í það árið 2020 að kaupa þangmjöl frá Reykhólum og segir það hafa alveg hreint svínvirkað. „En nú er ég að safna þara sjálfur, fór með gröfu niður á bryggju og mokaði þara upp á kerru og gaf svo bara á garðann. Ég byrjaði á að ná í nýjan og góðan þara og þær voru vitlausar í þetta!

Ég var að gefa um það bil 200 kg á garða þar sem voru 80 ær. Svo náði ég reyndar seinna í þara sem var eldri og þær fengu hann niðursaxaðan, eins og salat bara. En þær voru ekki eins hrifnar af honum. Svo setti ég þara í sýru og þá átu þær það miklu betur. Ég sá það svo í talningunni núna um mánaðamótin að ferski þarinn fyrir 76 rollur skilar sex lömbum umfram tvö, svo það kom vel út að gefa hann á garðann,“ segir hann enn fremur. Sýruþarinn hafi þó litlu eða engu skilað í hækkaðri frjósemi.

Engar ansvítans kálrollur

Andrés er með um 320 fjár og hleypir út eins oft og gefur yfir veturinn. Hann er með fyrirmálsrollur og hefur verið í mörg ár.

„Þetta eru milli 70 og 80 rollur sem bera 23. apríl eða þar um bil,“ segir hann og útskýrir nánar: „Þá er ég laus við þær þegar sauðburðurinn byrjar og hef svo verið að lóga þeim fyrstu dagana í sláturhús af því að þær ganga allar á sama svæði og það tekur svona tvo til þrjá tíma að smala þeim á haustin. Þær eru bara hérna hinum megin við Njarðvíkurskriðurnar, Snotrunes og þar. Ég er ekki með mikið pláss í fjárhúsunum og hef gert þetta til að létta á mér á sauðburði. Sömuleiðis á haustin því vandamálið er að við erum lengi búin að vera seinust í röðinni hjá Norðlenska. Þá losnaði ég við þessi lömb því þau voru utan kvóta; þetta voru frjálsir dagar. Ég var að lóga milli 100 og 140 lömbum og þá er ég ekki að liggja með þau lömb hér á haustin því þá hef ég bara ekki nóga beit hér á túnum. Nema þá bara að þurfa að sleppa þessu út fyrir girðingar og ég er ekki með kál, ég er á móti því.“

En hví skyldi Andrés vera á móti kálinu? „Nú af því að þetta er bara ekki ætt kjöt,“ svarar hann að bragði. Það viti allir. „Þú getur ekki auglýst fjallalömb sem eru búin að vera á káli í sex, átta vikur! Ég segi að þessi kállömb eigi að vera með 20–30% minna verð og að auglýsa beri þau sem kállömb, sem þau eru. Þetta kemur fram í bragðinu. Eins og á sumum búum, t.d. á Suðurlandinu, þar sem bóndi var að státa af mestum afurðum eftir kind, hann hefur lógað öllum þessum lömbum á tveimur síðustu dögunum í sláturtíðinni og þá búinn að vera með þau á káli í átta vikur,“ segir Andrés með þunga og bætir við: „Og ábyggilega komið hrútabragð af hrútunum.“

Í hrútakaupum hjá Indriða á Skjaldfönn

Andrés er því ýmislegt að spekúlera. „Ég lenti einhvern tímann í hrútakaup til Indriða á Skjaldfönn og við vorum þrír eða fjórir að spjalla saman,“ segir hann og heldur áfram með söguna: „Þegar við höfðum komið að bænum lá þar afvelta rolla við hliðið og Indriði sagði að þetta væri mikið vandamál hjá sér. Ég sagði að hann ætti að reka niður tvo girðingarstaura og negla borð á þá. Þá þyrfti hann ekki að hafa neinar meiri áhyggjur af því að rollur færu afvelta. Og þetta er alveg sannleikur. Þær vantar eitthvað til að klóra sér á og yfirleitt fara þær yfir þegar þær eru að klóra sér, fara of langt.“

Einhverjar fleiri hugmyndir hafi komið til tals daginn þann á Skjaldfönn. „Ég fór líka að segja Indriða frá því að ég bjó til klaufsnyrtistól. Úr lítilli blárri tunnu sem ég bjó út þannig að þær sitja bara á rassinum í tunnunni og ég hef greiðan aðgang að fótunum.

Á vorin klaufsnyrti ég, bóluset, skoða júgrað og gef ormalyf kannski í leiðinni fyrir sauðburðinn: geri þetta sem sé allt í einu. Indriði sagði sem svo við mig að ég væri fjölfróður gáfumaður,“ segir Andrés kíminn og hnýtir við að endingu: „Ég sagði nú við hann að ég væri bara barnaskólagenginn.“

Skylt efni: Hrúturinn Helmingur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt