Þau Rebekka og Jack eru bjartsýn á framtíðina enda þýðir ekkert annað.
Þau Rebekka og Jack eru bjartsýn á framtíðina enda þýðir ekkert annað.
Mynd / sp
Viðtal 18. október 2024

Með bjartsýni og gleði að vopni

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Rebekka K. Björgvinsdóttir nautgripabóndi hlaut í sumar fyrsta lán Byggðastofnunar sem ætlað er til nýliðunar í landbúnaði undir nýju samkomulagi við evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF) þegar hún festi kaup á Hólmahjáleigu í Austur-Landeyjum.

Rebekka varði fyrstu árum ævi sinnar á Syðstu-Mörk í Rangárþingi eystra, þar sem afi hennar, oddvitinn Guðjón Ólafsson, og amma, Hallfríður Helga Dagbjartsdóttir, voru með búskap. Fjögurra ára fluttust þau foreldrar hennar til Reykjavíkur en Rebekka sótti fast í að verja öllum sumrum og fríum í sveitinni hjá afa og ömmu. „Ég segist alltaf vera úr sveit, ef einhver spyr, enda kann ég hvergi betur við mig,“ segir Rebekka sem hefur nú fest rætur sínar kirfilega í Austur-Landeyjum.

„Ég átti tvær íbúðir á Hellu sem ég leigði út, en eftir að við ákváðum að reyna okkur við kaupin á Hólmahjáleigu seldi ég þær og þannig náðum við upp í tíu prósentin sem til þurfti við kaupin – og reyndar meira en það. Svo gat ég fært gamalt íbúðarlán yfir á Hólmahjáleigu, með lægri vöxtum og öllu sem því fylgir. En alls er þetta 90% veðhlutfall hjá okkur. Heil tíu prósent hljóma kannski ekki sem há upphæð, en fyrir þá sem láta sig dreyma um að kaupa jörð þá verður að athuga að heildarkaupverðið getur hlaupið á hundruðum milljóna,“ segir hún hlæjandi.

Kaupverð Hólmahjáleigu var 280 milljónir króna, en í kaupunum fylgdi aðliggjandi jörð, Rimakot og svo bústofn, vélar og framleiðsluréttur. Jörðin er í kringum 600 hektarar, um það bil helmingurinn gróið og grasgefið land og hinn helmingurinn sandur, en báðar jarðir liggja að sjó.

Fyrrverandi eigendur voru þau Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda, og kona hans, Majken Egumfeldt-Jörgensen, sem hafa fært sig um set í Austur-Landeyjum og búa nú á Stóru-Hildisey 1. Þau hjónin tóku við Hólmahjáleigu fyrir tæpum 20 árum en bærinn var áður í eigu foreldra Rafns.

Bærinn Hólmahjáleiga við falleg birtuskil.

Fundu hvort annað á Tinder

Rebekku við hlið í þessum stórræðum er kærasti hennar, Jack William Bradley, sem ættaður er frá Bretlandi.

Þau Jack kynntust á stefnumótaforritinu Tinder sem kemur með uppástungur að maka í nágrenninu og segir Rebekka litlu hafa munað að þau misstu hvort af öðru. „Ég var með einhverja kílómetratakmörkun á leitarvél Tinder og Jack var þá á leið vestur á Flateyri að hitta vini sína, en hann starfaði áður á kúabúi Jónatans Magnússonar, bænum Hóli í Önundarfirði, frá árinu 2020 og hafði kynnst fólki fyrir vestan. Þannig ef hann hefði verið kominn lengra en kílómetrarnir sögðu til um á Tinder hefðum við ef til vill aldrei hist.“

„En við fundum hvort annað,“ segja þau brosandi og rifja upp fyrsta stefnumótið fyrir nær tveimur árum. „Það var hávaðarok og við ákváðum að fara og fá okkur ís, nema ísinn lenti allur framan í Rebekku,“ segir Jack og má ætla að einhverjir vonbiðlar hefðu látið sig hverfa. Jack lét hins vegar engan bilbug á sér finna enda Rebekka ótvíræður kvenkostur í hans augum og þau eiga bæði auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu.

Hænurnar eru alls níu talsins og njóta lífsins í kofanum sínum fyrir aftan þau Rebekku og Jack. Fremst á myndinni strunsar kötturinn Brandur í burtu, ef til vill á leið í fjósið til að verða sleiktur.

Brösótt byrjun en framtíðin björt

„Ég hóf annars ferilinn sem hermaður í Bretlandi sem gekk ekki þrautalaust. Þar kom í ljós að ég er með óreglulegan hjartslátt, glímdi við síþreytu, auk þess að ég sleit liðband í hné og fótbrotnaði svo að lokum. Ég er kannski ekki gerður fyrir herþjónustuna,“ segir Jack og glottir.

Hann þrjóskaðist við um átta ára skeið, en þótt herþjónustan hafi verið draumurinn kitlaði landbúnaðurinn einnig. Áður en að hann flutti hingað til lands fyrir um fimm árum hafði hann reynt fyrir sér á nautgripabúum í Ástralíu og á Bretlandi, sótt námskeið í klaufsnyrtingum og sæðingum auk þess að stunda nám í hjarðstjórnun mjólkurkúa (e. dairy heard management) við háskólann í Chester í Bretlandi. Fór svo að Jack útskrifaðist á tímum Covid- veirunnar og fékk þá kunnáttu sína í gegnum vinnu metna.

„Áhugi minn fyrir nautgripum vaknaði þegar ég neyddist til að aðstoða á kúabúi fyrrverandi kærustu minnar, en ég get ekki sagt að samband mitt við kýr hafi verið ást við fyrstu sýn. Ég man eftir því að hafa stokkið yfir girðingu á flótta frá þeim, nær verið búinn að gera í buxurnar af hræðslu við þessi stóru dýr. Breskar kýr vega venjulega vel yfir hálft tonn, eða 550–700 kg, á meðan íslensk meðalkýr er um 450 kg.“

Aðspurð segja þau Jack sjá að langmestu leyti um búið sjálfur enda vinni Rebekka utan heimilisins eins og er. Þau hafi þó fengið verktaka í heyskap því þau hafa ekki enn komið sér upp öllum þeim vélabúnaði sem þarf til verksins. Þau halda að jafnaði um fjörutíu mjólkurkýr í lausagöngufjósi þar sem þær ganga í mjaltaþjón að vild og hafa greiðan aðgang að fóðri og vatni.

Kálfar njóta þarna góðs atlætis í stíum sínum og sækja í kálfafóstru að vild. Jack segist panta mjólkurduftsblöndu frá Danmörku í stað þess að nota íslenskt duft. „Þeir fá skitu, greyin, af því íslenska og verða ekki alltaf langlífir eða hraustir, enda ýtir slæm uppistaða næringar á fyrsta ári undir dauðsföll eða veikindi í framtíðinni.“

Það væsir ekki um búfénaðinn á bænum enda metnaður lagður í að ala hrausta og langlífa gripi.

Kálfadauði og kvótakaup

Hlutfall dauðfæddra kálfa hjá fyrsta kálfs kvígum er hátt og bendir Jack á að eitt vandamálanna sé það að kvígurnar séu smáar og hafi ekki líkamlegan burð til þess að ala fullvaxta kálfa. Leggja þurfi góðan grunn að öllum gripum upp á framtíðina því það skilur ekkert eftir sig að gæta ekki vel að fyrstu gerð.

„Ef kálfar eru veikburða þá eru þeir ekki að fara að bera hraust afkvæmi. Og ef þú færð ekki hraust dýr, af hverju ertu þá að eyða peningum í þennan rekstur? Íslenska kýrin er góð mjólkurkýr sem þyrfti eins og önnur dýr að vera eins mikið úti við og hægt er, að auki þarf aðgætni, gott fóður og góðan aðbúnað í heild. Þannig vaxa þau best og við fáum sem mest út úr hverjum grip,“ segi Jack, sem hyggur á aukna framleiðslu í náinni framtíð.

„Mér hefur reiknast það til að við þyrftum að vera með um 55 mjólkandi kýr, auk þess að stækka fjósið ef við eigum að geta uppfyllt mjólkurkvótann. Hann er 400 þúsund lítrar en eins og er náum við 226 þúsund lítrum árlega. Stækkun plús róbótar mun kosta okkur 29 milljónir króna ef ég hef reiknað þetta rétt,“ segir Jack, sem þó er harðákveðinn í að gefast ekki upp.

„Vaxtalaust lán kæmi sér þarna mjög vel. Ef við hefðum þess háttar viðbót gætum við fengið gróða úr rekstrinum hjá okkur sem svo færi beint í búið. Þannig hagnast smátt og smátt án mikils halla á ársgrundvelli. Ég geng í öll störf sjálfur, enda er líka mikilvægt að við séum ekki bæði yfir okkur þreytt og stressuð.

Mér þykir líka annars gaman að elda og hef komist að því að það er mjög mikilvægt að Rebekka borði reglulega staðgóðar máltíðir svo hún verði nú ekki „hangry“,“ segir Jack hlæjandi.

Eins og er borga þau aðeins vexti af láninu en áætlað er að eftir þrjú ár hefji þau fullar greiðslur. Þau stefna að því að innan þess tíma verði framleiðslan komin á gott skrið og þau geti uppfyllt mjólkurkvótann. „Þetta er auðvitað kannski óraunhæfur draumur, en það má halda í vonina. Málið er bara það að ef eitthvað fer úrskeiðis, mjólkurróbóti skemmist eða annað, þá getur allt farið á hliðina því við höfum ekkert almennilegt fjármagn til að standa í ströngu. Ekki enn að minnsta kosti. Mánaðarlegur rekstur eins og er skilur lítið eftir.“

Jack segir að í raun sé það ekki það skynsamlegasta að taka við búi á miðju sumri eins og þau gerðu.

„Fyrri eigendur voru búin að nýta mest af mjólkurkvótanum sem fylgdi við kaupin og við fengum því einungis lítinn hluta hans í ár.“

Rebekka tekur undir og segir það þó alltaf hafa verið á hreinu hvað myndi fylgja með jörðinni, seljendur nýttu kvótann fram að 1. júlí þegar þau tóku við. Þau séu þó í óvissu með afkomu eftir að kvótinn er fullnýttur en þar spili inn í ákvörðun á verði fyrir umframmjólk.

Dregur úr nýliðun í landbúnaði

Íslenska greiðslumarkskerfið hefur verið gagnrýnt fyrir ýmsa ágalla og það þykir ekki það auðveldasta fyrir nýgræðinga í greininni.

Rebekka og Jack benda á að mjólkurkvótar séu dýrir og takmarki nýliðun í greininni enda eigi nýir bændur oft erfitt með rekstur þar sem þeir þurfa að fjárfesta í greiðslumarki auk annarra kostnaðarliða. Þannig takmarki kerfið möguleika bænda á að auka framleiðslu sína, jafnvel þótt eftirspurn eftir mjólkurvörum sé mikil. „Þetta leiðir til þess að framleiðsla er stöðluð, sem getur hindrað nýsköpun og þróun í mjólkuriðnaðinum. Opinber stuðningur þyrfti að vera meiri.“

Jack veltir fyrir sér ýmsu varðandi íslensk nautgripabú og tekur fram að í Englandi hefðu þau vart getað fengið lán til kaupanna á Hólmahjáleigu. Þar séu bændur fæddir í starfið.

Biblía landbúnaðar

Það er þó sitthvað sem hann vill innleiða í sinn búskap frá heimalandinu og mælir með að fólk líti á vefsíðuna ahdb.org.uk. Þar sé um að ræða svokallaða biblíu landbúnaðar í Englandi sem geymi ógrynni nytsamlegra upplýsinga.

Hann nefnir til dæmis auknar rýmiskröfur í fjósum ytra. „Þegar kemur að því að ég breyti fjósinu hér mun ég hafa það í huga, auk þess að steypa gólfið og setja mykjulón fyrir utan sem er mun hagstæðara og heilsusamlegra í heildina.

Það þarf nefnilega að gæta þess að kýrnar fái hreint loft en andi ekki stöðugt að sér menguðu lofti frá sínum eigin úrgangi. Það þætti ekki heilsusamlegt fyrir mannskepnuna að anda í sífellu að sér þeim gastegundum sem myndast úr eigin afturenda og þess þá heldur fyrir kýrnar með sína gasmengun. Það getur valdið súrefnis- eða orkuskorti sem ég hef tekið eftir í kúm hérlendis. Annað sem ég hef tekið eftir er að fleiri bændur þyrftu að geta tileinkað sér að framkvæma fleiri hluti sjálfir og spara sér með því ýmsan kostnað. Til dæmis bæði sæðingar og svo klaufsnyrtingu, en rannsóknir hafa sýnt að góð klaufhirða bætir líðan kúnna auk þess að auka nyt þeirra um allt að einn lítra mjólkur daglega.“

Jack segist stefna á að rækta naut sem eiga að geta verið úti allan ársins hring. „Landið okkar er mjög gjöfult og ég sé fyrir mér að byggja skýli þar sem þau geta haldið við. Naut geta vanist á að vera utandyra frá unga aldri og upplagt að nýta þetta stóra land sem við eigum. Í skýlinu yrði auðvitað hey og einhver aðstaða, en þetta eru dýr sem geta vel staðið af sér veturinn.

Fyrst af öllu þurfum við þó að finna út úr mjólkurkvótamálunum, svo get ég farið að hefja ræktun og byggja skýli,“ segir Jack sem hefur augljóslega skýra sýn á framtíðina.

„Við erum heilt yfir heppin með landið okkar og hvort annað,“ segir Jack og Rebekka tekur undir. Þau eru að sama skapi afar ánægð með lánveitingu Byggðastofnunar og hvetja þá sem áhuga hafa að kynna sér málið. Ferlið segja þau auðvelt og aðstoð auðfáanlega ef spurningar vakna.

Rebekka og hesturinn Lokkur.
Almennilegt kaos

Það má þó ekki gleyma að með Hólmahjáleigu fylgdi einnig fimmtíu hesta hjörð, en umsjón hennar er alfarið í höndum Rebekku. „Það kom mér skemmtilega á óvart að eignast allt í einu heilt stóð! Mér hefur alltaf þótt gaman af hestum og eignaðist minn fyrsta hest fyrir nokkrum árum, sem lifði þó því miður ekki lengi. Þá fékk ég hann Lokk minn sem er mikið yndi og svo á ég núna heila fimmtíu í viðbót sem var skemmtilegt viðbrigði,“ segir Rebekka og hlær. „Þetta gengur ágætlega hjá mér – þetta eru hryssur sem mér tókst að koma öllum inn í gerðið og það er búið að snyrta á þeim hófana og svona. Þær voru mishressar með þetta í fyrstu, enda sumar ungar og óvanar nokkurri meðhöndlun. Þarna er að finna ægilega gullmola inn á milli og svo eru þarna um tuttugu folöld sem þarf að temja eða selja. Þetta kemur allt í ljós,“ segir hún.

Níu hænsnfuglar eru einnig á bænum, kettlingurinn Kitler, hvolpurinn Arló og kötturinn Brandur sem veit ekkert betra en að vera sleiktur þéttingsfast af kúnum og því heldur klístraður dags daglega. „Þetta er almennilegt kaos sem við höfum gaman af að takast á við,“ segir Rebekka að lokum.

5 hlutir sem Rebekka getur ekki verið án

1. Jack, hann er kletturinn minn, kann allt og veit allt og kemur manni til að hlæja alla daga.

2. Róbótinn, ég er sárfegin að þurfa ekki að handmjólka 50 kýr kvölds og morgna!

3. Traktorinn, ekki heyjum við, ýtum svo rúllu inn af túni og inn í fjós sjálf, þá væri maður sko orðin að vöðvabúnti.

4. Kálfafóstran er algjör snilld! Kálfarnir fá sjálfsafgreiðslu.

5. Dýrin: Arló, sem réttir mér skóna á morgnana, Lokkur, sem ber mig á bakinu og lyftir af herðum mér öllum áhyggjum lífsins stundarkorn og Kitler, sem malar á öxlinni á mér eftir langan dag.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt