Samkvæmt rannsóknum Schipper í Nýja-Sjálandi eru graslendi beitarlands jafnan í kolefnislegu jafnvægi, nema þegar rask eða rof hefur orðið í jarðveginum.
Samkvæmt rannsóknum Schipper í Nýja-Sjálandi eru graslendi beitarlands jafnan í kolefnislegu jafnvægi, nema þegar rask eða rof hefur orðið í jarðveginum.
Mynd / smh
Viðtal 16. október 2024

Sjálfbær kolefnisbúskapur beitilanda í góðu ástandi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Beitarhagar í góðu ástandi viðhalda kolefnisbúskap sínum vel. Hið sama gildir í túnrækt, nema þegar rof verður í ræktuninni við plægingu sem getur valdið verulegri losun á kolefni.

Frá þessu greindi nýsjálenski vísindamaðurinn dr. Louis Schipper á fyrirlestri sínum í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti föstudaginn 27. september.

Aðstæður svipaðar og á Nýja-Sjálandi

Schipper er einn af fremstu vísindamönnum Nýja-Sjálands á sviði rannsókna á kolefni í jarðvegi beitarlanda og annars konar landbúnaðarlöndum.

Hlynur Óskarsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann, hafði veg og vanda af komu Schipper og segir hann aðstæður á Nýja-Sjálandi um margt svipaðar og hér. Til dæmis má nefna að þar er eldfjalla- og mýrarjarðvegur ríkjandi og sauðfjárbeit ein helsta landnýtingin. Louis hafi um árabil rannsakað kolefnisbúskap beitarlanda, en um helmingur af allri losun gróðurhúsalofttegunda í Nýja- Sjálandi sé einmitt úr úthögum. Það er í samræmi við nýjustu losunartölur á Íslandi sem gefa til kynna að um 63 prósent af losun kolefnis frá Íslandi komi frá landnotkunarhlutanum, en sá hluti skiptist svo niður í mólendi (77 prósent), ræktað land (19 prósent) og votlendi eða mýrarjarðveg (11 prósent).

Hvati til eigin rannsókna

Stór hluti af þeim gögnum sem stuðst er við hér á Íslandi, við útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnýtingar, kemur frá stöðlum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), en frumvinna stendur nú yfir við þessa gagnaöflun um losun frá þessum þremur áðurnefndum bókhaldsflokkunum landnotkunar. Gert er ráð fyrir að fyrstu tölur ættu að koma inn í bókhaldið á næstu tveimur árum.

Schipper segir að ekki sé óvanalegt að áætla að þessi staðalgildi séu íhaldssöm og mögulega hærri en raunin sé, spurður um hvort ástæða sé til að ætla að tölur frá IPCC um losun frá landnotkunarhlutanum séu ekki í samræmi við raunverulega losun.

Hann segist skilja fyrirkomulag losunarstuðlanna þannig að það sé IPCC sem leggi þá fram sem staðalgildi, sem lönd geti notað þegar þau hafi ekki sín eigin gögn. Það hvetji lönd til að safna eigin mælingum til að bæta reikningsbókhaldið á gróðurhúsalofttegundum. Sérstaklega þar sem losun frá ákveðnum þáttum sé mikil.

Grunnmat sem hægt er að bæta

Schipper heldur áfram og segir að lönd búi gjarnan við ákveðið samspil landbúnaðar og loftslags – og um Ísland ætti hið sama að gilda. Þær losunartölur sem miðað sé við séu því ekki í eðli sínu rangar heldur einfaldlega grunnmat, sem hægt sé að bæta með vandaðri rannsóknarvinnu, eins og Hlynur og samstarfsmenn hans séu að vinna að. Þessar losunartölur geri löndum einnig kleift að einbeita sér að því að nýta tækifærin til að draga úr eigin losun.

Traustar rannsóknaraðferðir til jarðvegssýnatöku

Spurður um mögulegan ávinning af rannsóknum hans fyrir Ísland, segir Schipper að það verði örugglega gagnkvæmur ávinningur af rannsóknarvinnu beggja landa.

Til að bæta staðalgildin hafi þau á Nýja-Sjálandi einbeitt sér að því að þróa traustar rannsóknaraðferðir til að meta hversu mikið kolefni tapast eða bætist við jarðveg sem notaður er til beitar. Þau hafi þróað sértækar aðferðir til jarðvegssýnatöku og leiðir til að mæla bindingu og losun koltvísýrings úr jarðvegi.

Mikilvægi beitarstjórnar

Þessar aðferðir segir Schipper að hafi gert þeim kleift að mæla breytingarnar sem tengjast mismunandi aðferðum beitarstjórnar, eins og vökvunar, ræktunar á nytjaplöntum og mikilvægi beitarstjórnunar á mýrarjarðvegi.

Með þessu fáist betri gögn um losun frá mismunandi landnýtingu og þá verði hægt að einbeita sér að því að draga úr losun og jafnvel finna beitarstjórnunaraðferðir sem geta bundið koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Viðkvæmur mýrarjarðvegur

Schipper segir að mýrarjarðvegur sé sérstaklega viðkvæmur fyrir raski og geti losað mikið af gróðurhúsalofttegundum. Bæði löndin hafi áhuga á því að skoða hvernig draga megi úr losun frá framræstum mýrarjarðvegi með annars konar beitarstjórnun eða með mögulegri endurheimt yfir í náttúrulegt vistkerfi.

Hann telur að þó mikið vísindastarf sé fram undan hjá báðum löndum, megi ekki gleyma því að bæði löndin þurfi að vinna með bændum og samfélögum þeirra til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum breytingum. Bændur séu vörslumenn landsins og munu því hafa innsýn í hvað sé mögulegt að gera á þeirra löndum.

Heimafengin gögn um metanlosun dýra

Þegar Schipper er spurður um stöðu losunarrannsókna og rannsóknargögnum í Nýja-Sjálandi segir hann að það sé misjafnt eftir lofttegundum. Flestir losunarstuðlarnir sem séu í notkun fyrir nituroxíð frá jarðvegi og metanlosun frá dýrum séu byggðir á rannsóknum frá Nýja- Sjálandi.

Stuðlar varðandi breytingar á kolefnisinnihaldi í jarðvegi þegar breyting á landnotkun hefur átt sér stað, til dæmis með umbreytingu skóga í beitilönd, séu einnig byggðir á rannsóknum frá Nýja-Sjálandi. Fyrir framræstan mýrarjarðveg séu notuð fyrir fram gefin staðalgildi.

Stöðugt sé verið að endurskoða þessa losunarstuðla til að fínstilla þá, með árlegum rannsóknarverkefnum fyrir forgangssvæði.

Beitarlönd í kolefnislegu jafnvægi

Hlynur vinnur sjálfur að rannsóknarverkefnum fyrir hönd Landbúnaðarháskólans sem munu bæta losunargögn fyrir Ísland. Hann segir að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að fylgjast vel með því sem gert er í Nýja- Sjálandi í þessum efnum, þar sem þeir væru komnir svo langt á undan okkur. Í máli Schipper hafi komið skýrt fram að staðan á heimsvísu væri alvarleg að því leyti að kolefni úr jarðvegi væri jafnt og þétt að tapast. Mikilvægt væri að spyrna við fótum og varðveita það.

„Mér þótti áhugavert að sjá að samkvæmt mælingum hans þá var graslendi beitarlanda jafnan í kolefnislegu jafnvægi, nema þegar rask eða rof hefur orðið í jarðveginum og þá er tap. Svo var áhugavert að heyra hann segja frá rannsóknum á losun frá lífræna jarðveginum [framræstu votlendi], að hann sé talinn vera um eitt prósent af landi í landnotkunarhluta Nýja-Sjálands en beri ábyrgð á um átta prósent af heildarlosuninni.

Í túnræktinni virtist líka allt vera í jafnvægi, nema þegar plægt er og landið stendur bert. Þá er kolefnisbúskapurinn neikvæður og það verulega. Því ættum við hér á Íslandi kannski að hugsa um að stýra okkar jarðrækt þannig að land standi helst aldrei bert, nema þá í mjög stuttan tíma. Því er æskilegt að land sé frekar plægt á vorin en ekki á haustin eins og þekkist.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt