Rautt afbrigði tröllasmjörssvepps, Fuligo septica var. rufa sem ber við himin á kurlhaugi í Kjarnaskógi.
Rautt afbrigði tröllasmjörssvepps, Fuligo septica var. rufa sem ber við himin á kurlhaugi í Kjarnaskógi.
Mynd / Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Viðtal 23. ágúst 2024

Töfrar sveppatínslunnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Á meðan vætutíð sumarsins hefur ekki endilega glatt hinn almenna Íslending hafa sveppaáhugamenn iðað í skinninu. Gekk sá orðrómur að vegna vætunnar hafi tínsla nú verið möguleg fyrr en ella en telja margir að ferðir í sveppamó eigi helst að eiga sér stað síðsumars.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir.

Fagmenn á borð við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur, einn helsta sveppafræðing hérlendis, gefa lítið út á það. Hún segist hafa í lengri tíma reynt að benda fólki á að tínslu sveppa er rétt að hefja mun fyrr en í ágúst og september, ekki sé óvenjulegt að hún geti hafist um miðjan júlí. Segir Guðríður lerkisveppinn vera mettan um það leyti, að minnsta kosti á Norðurlandi og kúalubbinn kominn eitthvað á undan.

Í byrjun september sé hins vegar sveppatíðin nær oftast búin. Næturfrost geti hafist um það leyti og því sé nær að fylgjast vel með hvenær sveppirnir fari að stinga upp kollinum um mitt sumar og þá hægt að vakta það svæði með tilliti til tínslu þegar þeir séu fullvaxnir.

Þá er ágætt að tína það sem maður þarf til sinnar neyslu og ekki taka minni, óvaxta sveppi heldur leyfa þeim að vaxa og þroskast áfram. Svo má hafa bak við eyrað að ef mikill þurrkur er, þá koma kannski engin sveppaldin fyrr en í byrjun september og uppskeran eftir því.

Sveppir eru annars mislengi að vaxa. Kantarellur taka til dæmis langan tíma að stækka almennilega og ætti að leyfa þeim litlum að vera í friði.

Kantarellur. Mynd / Wikipedia

Væta, hiti og árið á undan

„Væta er ekki bara málið þegar kemur að vexti sveppanna,“ segir Guðríður. Hiti leiki þar stórt hlutverk og því geti þeir sem spenntir voru fyrir vætunni í sumar staldrað aðeins við.

„Það var til dæmis ákaflega blautt á sunnan- og vestanverðu landinu einhvern tíma fyrir nokkrum árum – og þá var ekkert sérstaklega góð spretta í þeim landshlutum. Fyrir marga þessara matsveppa skiptir árið á undan máli því þeir eru tengdir trjám, sem mynda svepprót. Ekki allir en margir. Í rauninni skiptir árið á undan tréð máli því það skaffar sveppunum næringu. Þeir fá sykurefni frá trénu yfir í sig og skaffa vatn og öll áburðarefnin í staðinn, nota þannig sveppina í raun í staðinn fyrir rætur. En mjög mörg tré hafa stuttar og þykkar rætur, til að mynda lerkirætur sem einnig eru með stuttar hliðarrætur.

Svepprótin tengist þessum hliðarrótum, fer inn í rótina og vefur sig um feitar forðafrumur sem eru í ytri hluta rótarinnar og vefur sig utan um líkt og tvinni á tvinnakefli. Eru þannig í náinni snertingu við frumurnar og þannig fara þessi efnisskipti fram. Tréð lætur þessar sambýlisörverur sínar fá svona frá tíu til tuttugu prósent af þeim sykri sem það býr til með ljóstillífun. Það fer niður í ræturnar og þar fara fram skiptin á áburðarefnum. Þannig að ef tré gengur vel eitt árið þá hafa sveppirnir það afskaplega gott hið næsta.“

Guðríður segir það misjafnt í hvaða landshluta sveppirnir vaxa, en nú í ár blómstri matsveppirnir á Vestfjörðum. Kantarellurnar má finna þar og á útkjálkum norðanlands.

Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að hérlendis eru skráðar nálægt 3.000 tegundir sveppa, þar af eru fléttur og fléttuháðir sveppir í kringum 850 talsins, en á hverju ári bætast nokkrar tegundir við. Af þeim eru hátt í fjörutíu þeirra taldir hæfir til átu en þó miseftirsóknarverðir. Kúalubbi, lerkisveppur, kóngssveppir og furusveppir eru hvað algengastir svo og reyðilubbi, en einnig þykja kantarellur spennandi kostur.

Guðríður stendur fyrir sveppagöngum Skógræktarfélags Eyfirðinga og er uppskeran yfirleitt elduð að göngu lokinni. Þá er fólki kennt að hreinsa sveppina, sem svo er smjörsteiktir og rjómalagaðir, eldaðir á prímus og bornir fram með brauði. Hún segir afar misjafnt hvort sveppir finnast og gæti hún þess að hafa með sér nokkur stykki úr eigu sinni til þess að gæða fólki á ef lítið finnst.

Hér sést netið sem gróhirslan er gerð úr og líkami slímsveppsins (sem er frumvera en ekki alvöru sveppur) sem er seigfljótandi og gulur.

Nýtt afbrigði tröllasmjörs

„Það er skemmtilegt að segja frá því að það var sveppasýning hér í Kjarnaskógi á sunnudeginum um verslunarmannahelgina þar sem stóð til að ég héldi sýningu á þó nokkrum sveppum og mér sjálfri,“ segir Guðríður.

„Á bílastæðinu neðarlega við skóginn stóð stærðarinnar kurlhaugur, heitur og hlýr – en í slíkum haugum finnast oft hentugir sveppir til slíkra sýninga og var þessi allvænlegur að sjá. Það kom mér þó heldur betur á óvart þegar ofarlega í haugnum sat þessi heljarmikli slímsveppur, sá stærsti sem ég hef nokkurn tíma séð. Skærgulbrún klessa sem úr láku seigfljótandi, gulir dropar af einhverju slímkenndu. Þetta reyndist vera risa tröllasmjör, þrjár gróhirslur rauðs afbrigðis tröllasmjörs, Fuligo septica var.rufa. Tröllasmjörið hefur fundist hér einhvern tíma áður, fyrir 60–70 árum í gróðurhúsum reyndar, en aldrei hef ég vitað til eða séð neitt þessu líkt hérlendis. Mér reiknast til að hann hafi verið 25 sentímetrar í þvermál og ætli hann hafi ekki verið 40 sentímetrar á hinn kantinn, sat svona kannski 5 sentímetra hár þakinn gulum slímdropum,“ segir Guðríður og mælir með að fólk líti við á bílastæðinu í Kjarnaskógi og skoði gripinn, enda sé þetta afbrigði ný lífvera fyrir landið.

Kurlhaugur sem var hlýr að innan og við topp hans voru þrjár gróhirslur rauðs afbrigðis tröllasmjörs, Fuligo septica var. rufa.

Skylt efni: Sveppir | sveppatínsla

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt