Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Sveinn Runólfsson með nýju bókina en hún lýsir því hvernig sandauðn var breytt á nokkrum áratugum í það að vera langstærsta bú sem nokkurn tímann hefur verið til á landinu.
Sveinn Runólfsson með nýju bókina en hún lýsir því hvernig sandauðn var breytt á nokkrum áratugum í það að vera langstærsta bú sem nokkurn tímann hefur verið til á landinu.
Mynd / mhh
Viðtal 8. júlí 2024

Úr svartri auðn í stærsta bú landsins

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ég kom í Gunnarsholt þegar ég var rétt rúmlega eins árs gamall,“ segir Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, sem var að gefa út glæsilega bók um Gunnarsholt og sögu staðarins.

„Síðan hef ég verið viðloðandi við staðinn frá 1947, meira og minna allt mitt líf nema þegar ég var í framhaldsskóla og háskólum, annars hef ég verið í Gunnarsholti þannig að ég leit þannig á að það væri enginn betur til þess fallinn en ég að segja sögu staðarins,“ segir Sveinn.

Kostajörð breyttist í sandauðn

Bókin mun beina sjónum lesandans að því hvernig þessi kostajörð við landnám breyttist í sandauðn og því einstæða afreki að breyta þessari gereyddu jörð í land er fóstraði langstærsta bú sem nokkurn tímann hefur verið rekið á Íslandi. Sveinn hefur fengið mjög góð viðbrögð við bókinni. „Það hefur enginn þorað annað en lofsama bókina og fólk undrast bæði gæði og fjölda mynda. Talar um að það „fenni svo fljótt yfir sporin“ og því sé svo þýðingarmikið að þessar heimildir um Gunnarsholt liggi fyrir. Það eru myndir, texti og kort. Það hefur mikið verið hringt eftir útgáfuhófið í Gunnarsholti 13. júní þar sem mættu 170 manns,“ segir Sveinn kampakátur en hann starfaði sem landgræðslustjóri árin 1972 til 2016.

Gunnarsholt á Rangárvöllum er eitt glæsilegasta býli landsins. Í dag er Land og skógur meðal annars með höfuðstöðvar sínum á staðnum. Mynd / Jón Karl Snorrason.

Fór í eyði 1925

Í Gunnarsholti er geysilega mikil og merk saga og löng og ég byrja á að segja lítillega frá henni við landnám og svo fjalla ég svolítið um eyðingarsöguna, þar til að Gunnarsholt fer endanlega í eyði 1925, þá var öll jörðin og allar aðliggjandi jarðir orðnar svartur sandur. Aðalhluti bókarinnar fjallar um hvernig þetta land var endurreist og hvernig þessi miklu landgæði sem voru þarna voru endurheimt,“ segir Sveinn.

Skóginum eytt

Sveinn segist ekki vera í vafa um að allt land Gunnarsholts hafi verið skógi og kjarri vaxið í upphafi. „Sem dæmi um það má telja að, fyrir utan þau merki sem hafa fundist í jörð og jarðvegi sem ekki er fokinn á haf út, á öllum þessum jörðum á þessu svæði í Rangárvöllunum, þar voru bæirnir byggðir uppi á hólum og framan í brúnum. Menn vildu sjá yfir landið, þeir sáu ekkert fyrir skóginum, skógarnir voru brenndir og höggnir í eldivið og til þess að þreyja fram lífið, þangað til ekkert kjarr var eftir og þegar kjarrið var horfið þá hvarf skjöldurinn sem verndaði þennan eldfjallajarðveg og viðkvæma gróður,“ segir Sveinn og bætir við: „Þegar þessi skjöldur var horfinn þá byrjaði hamslaus uppblástur og þá eyddist þetta smátt og smátt, allur gróður, og þarna var búfé beitt allan ársins hring.“

„Þýðir ekkert að kenna Heklu einni um þetta“

„Það var nánast ekkert land eftir til þess að heyja og þess vegna fór þetta svona endanlega í þessa miklu eyðimörk og það er ekki nokkur vafi á því að Rangárvellir og Rangárvallarhreppur er verst leikna sveitarfélag landsins af þessum náttúruhamförum í formi uppblásturs og gróðureyðingar. Það var ekki Heklu gömlu einni um að kenna nema óbeint því það er alveg ljóst að hún var búin að vera að gjósa í mörg þúsund ár áður en landnámið hófst og það er ekki fyrr en áhrif búsetunnar og rányrkju fer að gæta verulega sem uppblásturinn hefst,“ segir Sveinn um leið og fram kemur í máli hans að vissulega séu óbein áhrif í því að jarðvegurinn þarna er mjög fokgjarn út af ösku og vikri en að það þýði ekkert að kenna bara Heklu um þetta. „Við getum kennt sjálfum okkur og vanþekkingu um þetta en fólkið varð að þreyja fram lífið og nýta allt það sem landið gaf og rúmlega það,“ segir Sveinn.

Fyrstu aðgerðir í Gunnarsholti

Sveinn segir að fyrsta ráðið í baráttunni við að stöðva eyðinguna hafi verið að girða og friða verstu sandfokssvæðin fyrir beit. „Fjárveitingar voru af afskaplega skornum skammti og það voru lítil svæði sem voru tekin fyrir hverju sinni en það skipti sköpum og þar sem verstu sandflákarnir voru, þar voru hlaðnir grjótgarðar sem ég lýsi í bókinni, þvert á helstu vindáttina, norðaustanáttina, til að stöðva sandskrið og gefa melgresinu grið sem var sáð meðfram þessum görðum,“ segir Sveinn um leið og hann ítrekar þá þrjá þætti sem skiptu sköpum á fyrstu 40 árunum í Gunnarsholti.

„Það var að girða og friða fyrir beit, hlaða grjótgarða og sá melfræi. Það er engin jurt, önnur en melgresið, sem við þekkjum í dag sem þrífst og líður vel í miklu sandfoki. Til dæmis þegar ráðist var til atlögu af fullum krafti á Landeyjasandi upp af Landeyjahöfn, þá var ekkert nema melgresið sem varð að grípa til og Landgræðslan þekkti vel til að takast á við að framleiða fræ af því.“

Heyi snúið til þerris í Gunnarsholti á vesturtúni 1948 á Farmall A-dráttarvél. Myndina tók Runólfur Sveinsson landgræðslustjóri á Zeiss Ikon myndavél og Ectachrome slides.

Til hvers að gefa út þessa bók?

Sveinn segir að tilgangurinn með bókinni sé margþættur. „Já, einn er sá að nútímamenn átti sig betur á því sem gert var í Gunnarsholti við endurheimt landgæða, einkum í upphafi og fram eftir miðri síðustu öld. Á seinni hluta síðustu aldar var Gunnarsholt í margra augum sú fyrirmynd sem þeir vildu fylgja í búskap og ekki síður í endurheimt landgæða,“ segir Sveinn og bætir við að þegar hann og Áskell Þórisson, sem braut um bókina og Páll Halldórsson flugstjóri luku við bókina um Landgræðsluflugið vorið 2021 hófust þeir handa við gerð þessarar bókar en það er fyrir þremur árum síðan. En það var þó ekki fyrr en í janúar 2022 sem þeir fóru á flug við skrif og umbrot bókarinnar.

Gagnaöflun í bókina

„Í gegnum tíðina hef ég sankað að mér þeim gögnum sem ég gat fundið um jörðina og á Þjóðskjalasafninu er til dæmis mjög mikið til af gögnum. Í skjalasafni Landgræðslunnar er einnig gríðarlega mikið til af bréfum og alls konar gögnum. Það hefur engan tilgang að birta nema brot af öllum þessum skjölum, því enginn myndi nenna að lesa það allt saman. Því er gripið til þess ráðs að láta góðar ljósmyndir og kort segja söguna að mestu leyti og hafa textann sem stystan. Myndasöfn Landgræðslunnar og höfundar eru rík af ljósmyndum frá Gunnarsholti en þær eru misjafnar að gæðum,“ segir Sveinn, aðspurður um gagnasöfnun í bókina.

„Áður en vinna hófst við gerð þessarar bókar vissi ég að hún yrði ekki að veruleika nema mér tækist að fá til liðs við mig heilan her hæfileikafólks. Það gekk eftir. Ótal aðilar hafa aðstoðað mig á ýmsa vegu, sumir hafa útvegað myndir, aðrir tekið myndir og enn aðrir bent mér á áhugaverða hluti. Við verklok skráði ég yfir 200 heimildarmenn og hjálparhellur auk ljósmyndaranna,“ bætir Sveinn við.

Forrækta sandana með lúpínu

Það var ekki hægt að sleppa fyrrverandi landgræðslustjóra án þess að spyrja hann hvort það væri raunhæft að hans mati að svörtu sandarnir á Suðurlandi verði einhvern tíma í framtíðinni notaðir sem ræktarland til matvælaframleiðslu á Íslandi. Það stóð ekki á svarinu. „Já, ég tel það vel gerlegt, alveg frá Höfn í Hornafirði í austri og allt vestur að Ölfusá. En sandarnir við Þorlákshöfn eru víðast of grýttir. Vissulega þarf að koma til talsverð stýring með varnargörðum á rennsli fallvatna eins og vestan við Hornafjarðarfljót og víða annars staðar. Hagkvæmast væri að forrækta sandana með einærri eða fjölærri lúpínu og plægja hana svo niður áður en sú fjölæra færi að dreifa sér. Eftir nokkur ár væri hún búin að auðga sandinn af næringarefnum og þá væri kornrækt þar fýsileg,“ segir Sveinn brosandi.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt