Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Hákon Hansson, dýralæknir á suðurfjörðum Austurlands, hættir senn eftir 47 ára ötult starf með bændum að velferð skepna. Hann hefur séð sveitirnar hníga og rísa og segir talsverða nýliðun meðal bænda.
Hákon Hansson, dýralæknir á suðurfjörðum Austurlands, hættir senn eftir 47 ára ötult starf með bændum að velferð skepna. Hann hefur séð sveitirnar hníga og rísa og segir talsverða nýliðun meðal bænda.
Mynd / sá
Viðtal 21. júní 2024

„Dýralækningar eru mínar ær og kýr“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hákon Hansson hefur verið dýralæknir í 49 ár, þar af 47 á suðurfjörðum Austurlands. Senn lýkur hann einkar farsælu starfi með bændum og búaliði og ekki án eftirsjár.

Hákon fæddist árið 1950 á Höfn í Hornafirði. Hann er kominn af lærdóms- og dugnaðarfólki. Faðir hans var þýskur en móðir hans, Björk, var dóttir Hákonar Finnssonar í Borgum í Hornafirði.

Hákon bjó í Kópavogi ásamt móður sinni og tveimur systrum en var mikið í Borgum í bernsku. Faðir Hákonar var menntaður járnsmiður og vann mikið en fjölskyldan var mjög samhent þar til Hans féll frá þegar Hákon var þrettán ára.

Hákon kynntist þýskum afa sínum nokkuð og heimsótti hann nokkrum sinnum í Þýskalandi á námsárunum. Faðir hans lést árið 1964.

Vert er að geta þess að Hákon Finnsson í Borgum var merkur maður á sinni tíð, fræðimaður og safnari, skrifaði mjög mikið og hélt m.a. dagbók í 40 ár sem fjölskyldan sá síðar um að koma í Þjóðskjalasafn. Hákon Hansson er, ásamt Karli Skírnissyni líffræðingi, höfundur bókar um nafna sinn og afa, sem út kom árið 2016.

Reyndur til leiks

Hákon gekk í Menntaskólann í Hamrahlíð, var þar í fyrsta árganginum og útskrifaðist 1970. Ekki síst eru honum minnisstæðir öndvegiskennararnir Vigdís Finnbogadóttir, Örnólfur Thorlacius og Jón Böðvarsson frá þeim árum. Hann segist allt frá tólf ára aldri hafa verið ákveðinn í að verða dýralæknir.

Haustið 1970 fékk Hákon inngöngu í dýralæknaskólann í Hannover í Þýskalandi. „Það var ansi erfitt að fara þetta,“ segir hann. Enda hafði hann aldrei áður farið til útlanda, hvað þá einn. „En einhvern veginn þá vildi maður ekki gefast upp. Það er dálítil svona ættarþrjóska í okkar fólki,“ segir Hákon sposkur. Vistin þótti honum erfið fyrstu tvö árin, m.a. að læra þýskuna almennilega og þá voru enn eftir rúm þrjú ár af náminu.

„Ég tók lokaprófið á afmælisdeginum mínum þegar ég varð 25 ára,“ segir Hákon og bætir við að þá hafi verið úr vöndu að ráða með framhaldið. Hann hafi illa treyst sér til að koma heim og ráðast reynslulaus einn út í sveit.

„Ég tók einhverja bestu ákvörðun sem hugsast gat og ákvað að ráða mig sem dýralækni í Þýskalandi til að byrja með. Ég var hjá tveimur mjög góðum dýralæknum sem ráku saman stofu sunnan við Saxelfi, skammt frá Cuxhaven, þar sem ég starfaði í eitt og hálft ár og fékk ómetanlega reynslu. Þeir sem fóru beint heim eftir nám lentu sumir í vandræðum því að þeir voru þá einir og ekkert hægt að leita eftir aðstoð,“ segir hann.

Hákon fór svo upp til Íslands eftir starfstímann og þá hafði hann m.a. í reynslubankanum eina 46 keisaraskurði á kúm.

Alltaf sáttur á Austurlandi

Síminn hringir, enda sauðburður, og eftir að svara erindinu segist Hákon leggja sig fram um að bændur nái í hann vandræðalaust. Hann reyni alltaf að svara kalli. „Maður hefur innprentað bændum að draga ekki of lengi að hafa samband ef eitthvað er að. Þá eru alltaf meiri líkur á að hægt sé að hjálpa skepnunum,“ útskýrir hann.

Hákon var búinn að vera í hálfan mánuð á Íslandi eftir námið þegar hann tók við nýstofnuðu embætti héraðsdýralæknis á suðurfjörðum Austfjarða og settist að á Breiðdalsvík. Þetta var árið 1977. Hann hafi um tíma horft til embættis dýralæknis á Flúðum, sem komið var á fót 1986, enda verið aðstoðardýralæknir með náminu í Laugarási í Biskupstungum og hrifist af hinum öfluga og góða landbúnaði þar í sveitunum. En það átti ekki fyrir honum að liggja.

Hann segist alltaf hafa verið sáttur við að vera fyrir austan og aldrei séð eftir að ráða sig þangað. „Mér hefur liðið ósköp vel hérna. Allir hér, bændur og aðrir, hafa gegnum árin reynst mér alveg ótrúlega vel,“ segir hann.

Breiðdalsvík er lítið sjávarþorp þar sem búa um 200 manns. Upp af víkinni er Breiðdalur, landmestur dala á Austfjörðum og búsældarlegur. Riðan lék þó sauðfjárbúin í Breiðdal grátt og um helmingur bænda hætti.

Einn á vaktinni

Dýralæknisumdæmið spannar svæðið frá Lónsheiði og að mörkum gamla Fáskrúðsfjarðarhrepps með austustu bæjum. Skepnur eru nú á um 40 bæjum í umdæminu.

Starfstími Hákonar sem dýralæknis á Austurlandi spannar nú 47 ár og hann er enn að störfum, 73 ára gamall. „Það fæst ekki maður hingað og á ekki að ráða dýralækni hingað aftur,“ útskýrir Hákon sem hefur frá árinu 2011, þegar héraðsdýralæknisumdæmin voru lögð niður, verið sjálfstætt starfandi en með samning við Matvælastofnun. „En þá bera menn líka ábyrgð á öllu,“ hnýtir hann við. „Ef ég fór í frí þurfti ég að finna mér afleysingu og var launalaus á meðan, þannig er samningurinn, maður verður að sjá um þetta allt sjálfur. Það er ansi mikið álag.

Síðan árið 2011 hef ég aldrei farið í lengra frí en hálfan mánuð. Tja, nema þegar ég slasaði mig 2020, þá var ég skikkaður í tveggja mánaða frí,“ segir hann með nokkurri kaldhæðni.

Hér stendur Hákon við að gefa kú í æð, eitt það algengasta sem dýralæknar gera við meðhöndlun á kúm. Þá er oftast um að ræða doða, Mg-skort, súrdoða eða aðra efnaskiptasjúkdóma. Mynd/aðsend

Talsverð nýliðun í sveitunum

Vinnuloturnar segir Hákon ganga í hviðum. Það geti verið rólegt fyrstu vikur ársins og í sumarlok en vorin og haustin annasöm. Þá komi til ýmis verkefni eins og bólusetningar. Gera þurfi ýmsar aðgerðir, m.a. keisaraskurði á ám. Enginn dagur sé eins.

„Sauðburðurinn er aðalmálið hér. Þegar ég byrjaði voru hér 37 kúabú en núna eru þau þrjú. Nú er svo vel hugsað um kýrnar og ekki lengur mikið að gera varðandi þær,“ segir hann. Innflutningur á erlendum kúakynjum hugnast honum ekki. „Ég held að þetta sé orðið svo gott núna að þess þurfi ekki. Kýrnar okkar í dag eru orðnar svo afurðamiklar. En sjálfsagt kemur þetta, ég þykist vita það. Það er ákveðinn þrýstingur á innflutning,“ segir hann.

Dálítil nautarækt er í sveitunum umhverfis en Hákon segir það ekki mikið. Mest séu þetta sauðfjárbændur og einhverjir með hesta líka. Hann sinni þessu öllu eftir þörfum. Sem betur fer sé fólk enn þá í sauðfjárbúskap en horfurnar séu því miður lakar; fólk þurfi að vinna fulla vinnu með slíku til að hafa nægjanlega afkomu.

Býlum fækkar en jarðnæði er víða ágætt. „Á þessu svæði voru margir bændur farnir að eldast fyrir svona þremur áratugum og menn sáu ekki beint hvernig þetta myndi þróast,“ segir Hákon. Heilmikil nýliðun hafi þó orðið og lítið sé orðið um mjög gamla bændur. „Sömuleiðis er nokkuð annar bragur á búskapnum og sveitunum. Að öðru ólöstuðu var gamla sveitamenningin dásamleg og fólkið svo gott, hlýtt og fínt. Það bar mann nánast á höndum sér. Þó að þetta fólk hefði flest ekki farið í skóla, eða bara stutt í nám, var það bæði vel lesið og bráðvelgefið upp til hópa,“ bætir hann við.

Hákon segir langflesta bændur natna og sinna sínum búskap vel.

Hákon hlaut Landstólpann árið 2021 fyrir framlag sitt til samfélagsins.
Varar við glannaskap í riðuvörnum

Þegar Hákon kom á Breiðdalsvík voru 32 sauðfjárbú bara í Breiðdalnum. Svo kom upp riða og olli mjög miklu tjóni. Aðalniðurskurðurinn var árið 1987 en þá var riðan komin á nánast alla bæi í Breiðdal nema þrjá. Hákon segir það hafa verið hryllilegt.

„Þegar farið var í niðurskurðinn, sem var óhjákvæmilegt því ella hefði allur búskapur lagst af, var þetta óskaplega sárt og ótrúlegt hvað bændur lögðu á sig í þeim efnum og hvað þeir sættu sig við. Bæturnar voru ekki upp á marga fiska. Allt þurfti að sótthreinsa og urða og gríðarlega mikil verkefni sem fylgdu þessu. Bændurnir voru yfirleitt fjárlausir í tvö til þrjú ár og þetta var náttúrlega gífurlegt áfall fyrir þá. Um eða yfir helmingur þeirra byrjaði aftur, hinir hættu bara,“ lýsir hann.

Nú eru verndandi, eða mögulega verndandi, arfgerðir komnar til sögunnar. Hákon var skipaður í sérfræðingahóp sem fjallaði um þau mál fyrir ráðuneytið. „Vonandi að þær skili sér,“ segir hann. „Það er þarna ein tegund sem vísindalega er sannað að vörn er í og verið að reyna að rækta mikið út af því. Fyrstu kindurnar með þessa arfgerð komu frá Þernunesi í Reyðarfirði. Einnig hefur fundist fé með þetta á tveimur bæjum í Dölunum. Þetta er mjög jákvætt. Svo er nú verið í dálítilli tilraunastarfsemi sem ég er ragur við. Það er búið að fórna svo miklu og menn búnir að leggja svo mikið á sig að það má ekki fara út í einhverja ævintýramennsku,“ segir hann með þunga og heldur áfram: „Það er allt í lagi að vera með hugsanlega verndandi arfgerðir þar sem riða hefur aldrei fundist en þetta verður að rannsaka betur áður en farið er að setja hugsanlega verndandi arfgerðir inn á riðusvæði þegar verið er að taka nýtt fé. Það virðist þó vera lítil samstaða um það. Mér finnst þetta svolítill glannaskapur.“

Fræðsla til bænda

Hákon hefur ritað og birt fjölmargar fræðslugreinar um dýrasjúkdóma, t.d. varðandi forvarnir og meðhöndlun við orma- og hníslasmiti, bógkreppu í sauðfé og burðarhjálp, svo fátt eitt sé talið. Hann segist snemma hafa lagt sig eftir að sinna sauðfénu því ekki nenni allir dýralæknar að sinna því. Enda kannski lítið orðið annað en símaráðgjöf nema helst á sauðburði. Hann hafi einnig haft ánægju af því að fræða bændur.

Sauðfjárskólinn var verkefni sem nokkur búnaðarsambönd á Norður- og Austurlandi komu á fót og RML hélt síðar áfram með. Leitað var til Hákonar með að fjalla um sauðfjársjúkdóma, sem hann og gerði og fjallaði um flesta þekkta sjúkdóma í fé. Hann nestaði svo námskeiðsgesti með fræðsluefninu og segir bændur hafa verið mjög áhugasama. Það sem hafi verið að birtast annað slagið um dýrasjúkdóma, m.a. í Bændablaðinu, sé sprottið frá þessari fræðslu. Hann hefur einnig frætt um sjúkdóma í hreindýrum og var formaður hreindýraráðs í 26 ár.

Mikill menningarmaður

Hákon er maður ekki einhamur og hefur gjarnan lagt lið menningu, í besta skilningi þess orðs. Hann kom til dæmis að stofnun Breiðdalsseturs árið 2010 og hefur stutt það með ráði og dáð síðan. Setrið, sem er orðið rannsóknasetur Háskóla Íslands, hverfist að miklu leyti um jarðfræði og málvísindi. Hann beitti sér m.a. fyrir því að borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands yrði flutt til Breiðdalsvíkur árið 2017 í tengslum við setrið.

Hákon kom einnig að Einarsvöku í Heydölum, til minningar um sr. Einar Sigurðsson, prest í Heydölum 1590– 1626 og eitt afkastamesta sálmaskáld Íslendinga á þeim tíma. Frumkvöðull þess verkefnis var sr. Gunnlaugur Stefánsson, fv. sóknarprestur í Heydölum.

Búið var að safna fjármunum, um 20 milljónum króna, til byggingar sérstakrar Einarsstofu við kirkjuna, en fjármununum er af ýmsum ástæðum enn óráðstafað.

Hann er mikill bókamaður og þá ekki síður tónlistarunnandi og hefur m.a. sótt óperur og aðra tónleika í Þýskalandi og Austurríki. „Þessi áhugi á klassískri tónlist byrjaði þegar ég var í menntaskóla, en ekki síður á rokkinu. Ég var til dæmis að kaupa mér miða á tónleika með Gildrunni. Annars er Rolling Stones mín hljómsveit,“ upplýsir hann.

Hákon er svokallaður Flygilvinur og átti sinn þátt í að tókst að kaupa og borga að fullu glæsilegan Estonia- flygil til tónleikahalds á Breiðdalsvík, þar sem m.a. hafa stigið á svið erlendir einleikarar.

Fyrrum voru tvö togskip gerð út frá Breiðdalsvík. Nú eru bátarnir minni.

Vakað yfir hagsmunum byggðarlagsins

Ef undan er skilið starf dýralæknisins er starf Hákonar um áratugaskeið í þágu atvinnulífs og sveitarstjórnarmála á svæðinu þó líklega viðamest. Hann var formaður stjórnar kaupfélagsins á árunum 1978 til 1985 og stjórnarformaður Hraðfrystihúss Breiðdælinga á árunum 1983–1987.

Hann hlaut Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, árið 2021. Í umsögn með viðurkenningunni sagði m.a: „Hákon hefur alla tíð látið sig atvinnu- og samfélagsmál í Breiðdal varða. ... Hákon fékk flest atkvæði til sveitarstjórnar í kosningunum 2014 og tók við embætti oddvita Breiðdalshrepps til 2018. Það segir talsvert um stöðu hans í samfélaginu, en þetta voru að mörgu leyti mjög erfið ár í sögu Breiðdalshrepps. Breiðdalshreppur var eitt fyrsta byggðarlagið til að taka þátt í verkefnum Byggðastofnunar, Brothættar byggðir. ... Hann hefur jafnan verið vakinn og sofinn yfir hagsmunum síns byggðarlags og ekki hikað við að beita sér þegar þess hefur þurft fyrir velferð þess og hagsmunum íbúa.“

Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðabyggð árið 2018.

Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðabyggð árið 2018. Á Breiðdalsvík er nokkur uppgangur í atvinnulífi og ferðaþjónustu og menn una við sitt.

Þyngsli fyrir brjóstinu

Um áramótin 2020–2021 fór Hákon á eftirlaun en hefur eigi að síður haldið áfram að sinna dýralæknisþjónustunni. „Mér finnst ég hafa vissar skyldur við þetta fólk sem hefur reynst mér vel í gegnum árin, meðan ég get það,“ segir hann og heldur áfram:

„Ég er ráðinn núna í hálft starf sem dýralæknir, eitt ár í senn. Ég hef nú samt verið alveg í fullu starfi þótt það sé látið heita hálft. Og eftir breytinguna 2020 hef ég ekki fengið bakvaktir greiddar, þannig að ég tek bakvaktir hér án þess að fá greitt fyrir það. Ég er þó ekkert að kvarta yfir því, enda kominn á eftirlaun,“ segir hann sposkur.

Þegar hann hætti verði dýralæknisþjónustu sinnt frá Egilsstöðum og er þá orðið um verulegan veg að fara í útköll á suðurfirði. Hákon lýkur því senn störfum, í sumar eða í síðasta lagi eftir sauðburð á næsta ári.

„Þegar ég hef verið að tala um að hætta, alveg frá því fyrir 2020, fæ ég dálítil þyngsli fyrir brjóstið. Þetta hefur verið mitt líf, mínar ær og kýr alla tíð.“

Það hefur heyrst í umdæmi Hákonar að menn megi ekki til þess hugsa að missa hann úr starfi dýralæknis. Hann segir það nú einkum sprottið af því að ekki komi annar í staðinn þegar hann hætti, frekar en að það snúist um hans persónu. „Þetta er líka erfitt fyrir mig, því eftir öll þessi ár eru þetta orðnir vinir mínir,“ segir hann. Honum þykir vænt um einveruna, leitar á náðir bókmennta og tónlistar, og segist vera orðinn dálítill einfari í eðli sínu.

„Þeir sem urðu bestu vinir mínir hér fljótlega eftir að ég kom voru flestir dálítið eða miklu eldri en ég og eru eiginlega allir fallnir frá. Svo ég er mikið einn en finnst engu að síður mjög gaman að hitta fólk. Ég svara alltaf kalli,“ segir Hákon að lokum.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt