Vísbendingar um að búseta leggist af í einstökum byggðarlögum
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Vísbendingar eru um að föst búseta í einstökum byggðarlögum gæti lagst af innan 20 ára vegna þess að íbúðir þar eru vinsælar sem sumarhús aðkomumanna. Dæmi er um að þriðjungur eigna séu í eigu „utanbæjarmanna“ og útlit er fyrir að það hlutfall eigi eftir að aukast. Þróun af þessu tagi er nefnd fjarbúaspenna.
Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Miðgarði í Skagafirði í síðasta mánuði fór fram úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði. Eitt verkefnanna sem hlaut styrk að þessu sinni snýst um fjarbúa og fasteignamarkað á landsbyggðinni. Styrkþegi er Vífill Karlsson og hlaut verkefni hans 2,5 milljónir króna í styrk.
Kortleggja samfélög sem búa við fjarbúaspennu
Fram kemur á vefsíðu Byggðastofnunar að rannsaka eigi fasteignamarkaðinn á landsbyggðinni og kortleggja hve mörg samfélög búi við fjarbúaspennu. Notaður verður nafnalisti yfir alla sem eiga fasteignir þar og þeir fundnir sem ekki hafa þar lögheimili. Þeim verður send skoðanakönnun og spurt hvort þeir vilja selja, leigja eða eiga sínar eignir. Þeir sem vilja selja verða spurðir um söluverð til þess að fá hugmynd um hvort byggingarkostnaður sé í takt við markaðsverð. Með þessum hætti verður hægt að meta fjarbúaspennu, þ.e. hvort stór hluti húsnæðis sé „haldið frá“ leigu- eða sölumarkaðnum og setji þar með staðbundna vinnumarkaðnum og fólki á vinnumarkaði skorður.
Svæðisbundnir háskólar og vinnusóknarmynstur
Þrír aðrir styrkir voru veittir úr Byggðarannsóknasjóði á ársfundinum. Þóroddur Bjarnason fékk 3 milljónir króna til að kanna svæðisbundin áhrif íslenskra háskóla. Framtíðarsetur Íslands hlaut 2,5 milljónir til að vinna rannsókn sem nefnist Aðferðir framtíðarfræða. Hvert er hagnýtt gildi þeirra við byggðaþróun? Lilja Guðríður Karlsdóttir fékk 2 milljónir króna í styrk vegna rannsóknar sem hefur yfirskriftina Vinnusóknarmynstur og vinnusóknarsvæði á Norðurlandi.
Byggðarannsóknasjóður var stofnaður haustið 2014 og er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Til úthlutunar eru 10 milljónir króna. Alls bárust 15 umsóknir, samtals að upphæð rúmlega 48 milljónir króna. Umsóknirnar voru afar fjölbreyttar og flestar uppfylltu þær skilyrði sjóðsins.