Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sauðfjárbændur eru þátttakendur í margvíslegum verkefnum sem styðja við vistkerfisnálgun.
Sauðfjárbændur eru þátttakendur í margvíslegum verkefnum sem styðja við vistkerfisnálgun.
Fréttir 25. október 2023

Vistkerfisnálgun stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fjallað var um hugtakið „vistkerfisnálgun“ í sambandi við umgengni við og nýtingu á náttúru og auðlindum Íslands á málþingi matvælaráðuneytisins og BIODICE á dögunum.

Markmiðið með málþinginu var að vekja athygli á hugtakinu og hlutverki þess í stefnumótun matvælaráðuneytisins. Mun efni þingsins verða nýtt í aðgerðar- áætlunum ráðuneytisins.

BIODICE er samstarfsvettvangur sem hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi, í því skyni að mæta áskorunum vegna hruns líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum og hnignunar vistkerfa.

Vistkerfisnálgun í landbúnaði

Í þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem samþykkt var á Alþingi í sumar, er tiltekið sérstaklega að stuðlað verði að líffræðilegri fjölbreytni með vísindi vistkerfisnálgunar að leiðarljósi.

Landbúnaðurinn átti tvo fulltrúa í hópi fyrirlesara; Sigurð Torfa Sigurðsson, ráðunaut í umhverfis- og landnýtingarmálum hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, og Oddnýju Steinu Valsdóttur, bónda í Butru í Fljótshlíð. Þau fluttu tíu mínútna erindi hvort um reynslu sína af auðlindanýtingu í sátt við náttúruna og vistkerfisnálgun.

Sigurður Torfi sagði að störf bænda væru mjög fjölbreytt en byggðu alltaf á einhverri landnotkun og samspili við náttúru og vistkerfi. Þeir væru gæslumenn lands sem vildu standa vörð um landgæði og sjálfbæra nýtingu auðlinda – þótt þeir kannski notuðu önnur orð í stað vistkerfisnálgunar. Samt sem áður vanti almennt í landbúnaði heildstæða áætlun um landnýtingu.

Bændur ynnu að ýmsum verkefnum sem tengjast náttúrulegum vistkerfum í samstarfi við opinbera aðila, til lengri eða skemmri tíma. Dæmi um slík langtímaverkefni væru Bændur græða landið og Skógrækt á lögbýlum, verkefni til skemmri tíma væru til dæmis Betra bú, Fegurri sveitir og Landbúnaður og náttúruvernd. Loftslagsvænn landbúnaður og Kolefnisbrúin væru svo dæmi um loftslagsverkefni.

Löng hefð af samstarfi við bændur

Sigurður sagði að löng hefð og reynsla væri fyrir hendi varðandi samstarf bænda, sérfræðinga ríkisstofnana og stjórnvalda. Reynslan hefði yfirleitt verið jákvæð af slíkri samvinnu og hægt væri að ná góðum árangri þegar styrkleikar allra eru nýttir. Það sem vantaði væri skýr stefna um vistkerfanálgun, sérstaklega þegar kæmi að samvinnu aðila. Einnig þyrfti að huga vel að aðferðarfræðinni við vistkerfisnálgunina, til dæmis hvort hún ætti að vera aðgerðartengd, árangurstengd eða blanda af báðu.

Sigurður Torfi benti á að fjárfesting í þekkingu væri í sjálfu sér góð, en það þurfi úthald í að halda henni við og hún sé fljót að úreldast. Einnig þyrfti að hafa í huga að þekking skili sér ekki alltaf alla leið, stundum vanti viðtaka eða skilvirkni í ferlum.

Hann sagði í lok erindis síns að samtal allra hagaðila væri mikilvægt þegar kæmi að slíkri stefnumótun, samtölin þurfi að eiga sér stað á jafningjagrunni og á tungumáli sem allir skilji. Stefnumótun stjórnvalda þurfi að fylgja aðgerðaráætlun sem byggir á bestu þekkingu og reynslu hverju sinni.

Vistkerfisnálgun bóndans

Oddný Steina veitti innsýn inn í vistkerfisnálgun af sjónarhóli bónda. Hún sagðist þurfa að byrja á að játa að hafa verið efins um hvort hún ætti að þiggja það að tala á málþinginu þar sem henni þætti hugtakið vistkerfisnálgun ekki nægilega skýrt og ekki hjálplegt til að jarðtengja viðfangsefnið. Hún hafi hins vegar komist á þá skoðun að það væri til bóta fyrir umræðuna um þessi mál að bjóða upp á samtal og byggja upp gagnkvæman skilning.

Hún tíundaði fjölmörg verkefni sem þau á Butru væru þátttakendur í og styddu vistkerfanálgun.

Þar voru nefnd landbótarverkefnin Landgræðsla með lífrænum úrgangi, Bændur græða landið og Landbótasjóðsverkefni, loftslagsverkefnið Loftslagsvænn landbúnaður, Kolefnisbrúin er verkefni um kolefnisbindingu í skógi og önnur þrjú landbótarverkefni undir stjórn fjallskilanefndar Fljótshlíðar.

Oddný talaði svo aðeins meira um nokkur verkefnanna og hvernig staðið væri að landbótaverkefnum heima á bænum í samvinnu við Landgræðsluna. Mikill árangur hefði náðst. Sagði hún að í flestum tilvikum væru í þessum verkefnum fjárhagslegir hvatar fyrir bændur og það væri vissulega hvatning þá fyrir bændur til að gera betur og vera stórtækari.

Hún sagði að í Loftslagsvænum landbúnaði væri tekið heildstætt á bústjórn með loftslagsvænum hætti. Kolefnisbrúin væri verkefni Bændasamtaka Íslands í vinnslu þar sem kolefnisbinding í skógi þar sem framleiddar yrðu vottaðar kolefniseiningar til sölu. Markmiðið væri tvíþætt; annars vegar hreinlega að binda kolefni og hins vegar stæðu vonir til að verkefnið gæti rennt styrkari stoðum undir búreksturinn í framtíðinni. Hún væri samt hugsi yfir slíkum verkefnum því ásamt því að geta orðið að eins konar búgrein fyrir bændur í framtíðinni þá væri hætta á því að fjárfestar myndu í auknum mæli sýna löndum bænda áhuga fyrir slík verkefni sem gæti haft þau áhrif að búskapur legðist af. Mikilvægt væri fyrir stjórnvöld og sveitarfélög að vera vel vakandi fyrir þessari hættu.

Sauðfjárbeit getur verið góð fyrir vistkerfi

Undir lok síns erindis ræddi Oddný um sauðfjárbeit og sagði að margir afgreiddu hana bara sem neikvæðan áhrifaþátt. Algengt væri að heyra fullyrðingar um að beit haldi alltaf aftur af gróðurframvindu – að þar sem beitarland sé í góðu og slæmu ástandi þá sæki féð alltaf inn á landið sem er í slæmu ástandi. Hún heyri líka gjarnan að til að auka kolefnisbindingu, þá bara dugi að friða. Þetta sé alls ekki algilt og ekki í samræmi við það sem hún upplifi.

Hún tók því næst nokkur dæmi úr sínu nánasta umhverfi þar sem beit hefur einmitt haft þveröfug áhrif þegar borin eru saman friðuð og beitt svæði. Hún tekur samt fram að hún sé þeirrar skoðunar að beit sé alls ekki alltaf til góðs. Það sé hins vegar mikilvægt að gefa þessum málum betri gaum og þegar sett séu beitarviðmið þá séu þau rökrétt og sanngjörn. Þannig að þau sem þurfa að nota viðmiðin sjá rökin á bak við þau.

Nálgast má upptöku frá málþinginu í gegnum vef matvælaráðuneytisins.

Skylt efni: vistkerfi

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...