Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir og sérfræðingur í sýklalyfja­notkun barna og útbreiðslusýklaónæmra baktería
Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir og sérfræðingur í sýklalyfja­notkun barna og útbreiðslusýklaónæmra baktería
Fréttir 12. febrúar 2016

„Erum að taka rosalega áhættu“

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fyrir skömmu kvað EFTA-dómstóllinn upp álit um að krafa um frystingu á innfluttu kjöti væri andstæð EES-rétti. Sérfræðingur í útbreiðslu baktería segir að dómurinn gangi þvert á lýðheilsumarkmið læknavísindanna og byggi eingöngu á efnahags- og tollalegum forsendum.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir og sérfræðingur í sýklalyfja­notkun barna og útbreiðslusýklaónæmra baktería, segir frystingu kjöts litlu breyta um raunverulega smithættu á sýklalyfjaónæmum bakteríum til landsins. „Frysting takmarkar smit meðan kjötið er frosið en bakteríurnar lifna við þegar kjötið þiðnar í kjötborðinu eða á heimilum landsmanna.“

Verðum að skoða málið heildstætt

Hann segir mikilvægt í tengslum við umræðuna um að krafan um frystingu innflutts kjöts sé andstætt EES-rétti að fólk skoði málið til hlítar og heildstætt. Vilhjálmur á sæti í sóttvarnarráði sem hefur áður sent frá sér ályktun þess efnis að það eigi að fara varlega í innflutning á hráum matvörum. Sérstaklega eggjum og kjöti vegna hugsanlegrar matareitrunarbaktería og dýrasjúkdóma, en einnig algengrar náttúrulegrar flóru baktería sem erfitt er að forðast og meðhöndla sýkingar sem þær geta valdið og þegar þær eru orðnar sýklalyfjaónæmar.

Hræsni í rökum talsmanna um óheftan innflutning

„Að mínu mati felst mikil hræsni í því þegar menn tala á móti þeim aðferðum sem við höfum til að halda hættu á sýkingum vegna sýklalyfjaónæmra baktería niðri og vísa í máli sínu til hags neytenda.
Talsmenn óhefts innflutnings á kjöti tala vísindin óhikað niður og tala einnig niður til heilbrigðisstarfsfólks sem glöggt þekkja til málsins. Sumir nefna að við komumst auðveldlega í snertingu við þessar bakteríur erlendis, sem er satt. En þar borðum við yfirleitt bakteríurnar og drepum þær þannig eða þvoum þær af okkur jafnóðum. Þótt vissulega sé hætta í einhverjum tilvikum á að bakteríurnar berist með okkur eða erlendu ferðafólki til landsins.

Hrátt kjöt getur hins vegar borið mikið magn baktería á yfirborði sínu sem auðveldlega getur borist í líkamsflóruna okkar úr því.

Samkvæmt lýðheilsusjónarmiðum erum við að minnsta kosti að taka rosalega áhættu með því að flytja kjöt óhindrað til landsins. Kjöt sem gæti verið í allt að þriðjungi tilfella smitað af algengum sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum eins og svokölluðum klasakokkum sem varla finnast enn þá hér á landi.“

Innflutningurinn andstæður lýðheilsumarkmiðum

Vilhjálmur segir mjög óábyrgt af stjórnvöldum ef þau ætla að taka upp þegjandi tilskipanir frá EFTA-dómstólnum eða Evrópusambandinu sem ganga þvert á þær hagstæðu aðstæður sem eru hér á landi og ganga þannig gegn lýðheilsumarkmiðum.

„Allt í kringum okkur eru bakteríur sem eru hluti af okkar veruleika og stundum hluti af okkar eigin líkamsflóru. Dreifing þeirra er nokkuð jöfn í öllum löndum en um það snýst ekki málið. Það sem læknavísindin hafa áhyggjur af er að þessar bakteríur geta verði orðnar ónæmar fyrir sýklalyfjum og þannig hættulegri ef þær valda sýkingum. Nú þegar eru líka komnir fram fjölónæmir stofnar baktería sem eru í sumum tilfellum ónæmar fyrir öllum lyfjum. Aukin útbreiðsla þeirra er sérstaklegt og verulegt áhyggjuefni.“

Faraldur um 1990

„Skömmu eftir 1990 fengum við upp faraldur hér á landi af sýklalyfja­ónæmum pneumókokkum eða lungnabólgubakteríunni sem óð upp í tíðni í nefkoksflóru barna. Tíðni sýklalyfjaónæmra stofna var jafnframt hátt í ræktuðum sýnum úr veiku fólki á Landspítalanum, eða í allt að 30% tilvika. Bakterían sem um ræðir er sú sem oftast veldur eyrna- og lungnabólgu í mönnum.

Bakterían finnst gjarnan líka í nefkoki fólks og við venjulegar kringumstæður sér líkaminn um að halda henni niðri en hún getur einnig valdið alvarlegri sýkingu við vissar aðstæður.“

Í framhaldi af faraldrinum 1990 hóf Vilhjálmur rannsókn á útbreiðslu bakteríunnar hjá heilbrigðum börnum og skrifaði doktorsritgerð tengda verkefninu. Í rannsókninni kom fram mjög sterkt samband milli þess að börn hefðu fengið sýklalyf og fjölda sýklalyfjaónæmra pnumókokka í nefkoki. Að rannsókninni lokinni var birt grein um niðurstöðurnar í Brithish Medical Journal sem vakti gríðarlega athygli. Með ólíkindum þótti hversu hratt þessar bakteríur breiddust út meðal barna eða í allt að 20% þeirra og það á Íslandi af öllum stöðum.

Að sögn Vilhjálms skapaðist mikið vandamál hér á landi og á Landspítalanum í meðferð slæmrar miðeyrnabólgu og hátt í hundrað börn þurftu að fá sterkustu sýklalyf sem völ var á í æð til að ráða niðurlögum sýkingarinnar sem var undir öðrum kringumstæðum auðmeðhöndluð með hefðbundnum sýklalyfjum.

Greinin vakti mikla athygli erlendis og hingað komu meðal annars blaðamenn Dagens Nyheter í Svíþjóð sem birtu myndir af börnum á Landspítalanum með sýklalyf í æð undir fyrirsögninni „Beuaty and the Beast“.

Spænsk-íslenski stofninn

„Bakteríustofninn sem um ræðir kallast 6B eða spænsk-íslenski stofninn. Heitið markast af því að stofninn er uppruninn á Spáni, en blómstraði hér á landi ef þannig má segja.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að mikil útbreiðsla sýklalyfja­ónæmra 6B baktería stafaði meðal annars af mikilli notkun á sýklalyfjum hér á landi, sérstaklega hjá börnum. Þegar sýklalyf eru notuð drepast næmu bakteríurnar og landslagið verður hagstætt fyrir þær ónæmu að blómstra. Þetta minnir á þegar land er plægt og illgresið sprettur upp fyrsta árið.“

Vilhjálmur þekkir vel til hvernig venjuleg bakteríuflóra í líkamanum getur breytst í slæma og segir að kortlagningin á faraldrinum í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar hafi sýnt að þessir hlutir geta breyst hratt með nýjum umhverfisaðstæðum. „Nú er hins vegar verið að tala um aðrar bakteríur sem líka finnast í nefi okkar, klassakokka og sem geta verið sýklalyfjaónæmir, svokallaðir mósar.“

Samfélagsmósi

„Mínar rannsóknir hafa aðallega snúist um útbreiðslumunstur sýklalyfjaónæmra baktería. Við ráðum lítið við það hvernig bakteríustofnar verða til en við getum aftur á móti dregið verulega á hættunni á útbreiðslu þeirra með réttum ákvörðunum.

Flestir hafa heyrt talað um mósa eða spítalabakteríur sem eru ónæmar fyrir flestum lyfjum. Færri gera sér grein fyrir því að það eru í raun algengar bakteríur og kallast klasakokkar og finnst í nefi okkar flestra og geta valdið sárasýkingum. Vandinn skapast hins vegar þegar þessar bakteríur eru sýklalyfjaónæmar og kallast þá samfélagsmósar.

Víða erlendis eru samfélagsmósar algengir og útbreiðsla þeirra tengist oftar en ekki handsmiti og þannig líka matvælum. Auk þess getur sýklalyfjanotkun plægt akurinn fyrir sýklalyfjaónæma stofna í stað sýklalyfjanæmra stofna sem eru hluti af bakteríuflóru líkamans.“

Góðar aðstæður til að hefta útbreiðslu sýkla

„Íslendingar hafa verið allt of viljugir að nota sýklalyf til lækninga á fólki og við verðum að draga úr notkuninni.

Sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér er aftur á móti með því minnsta sem gerist í heiminum og meðal annars það sem gerir íslenskan landbúnað svo sérstakan og aðstæður varðandi höft á útbreiðslusýklalyfjaónæmum klassakokkum hagstæðar. Þar á ég sérstaklega við höft á innflutning á hráu kjöti sem kann oft að bera á yfirborðinu þekju af þessum sýklalyfjaónæmu samfélagsmósum, auk mögulegra annarra baktería og veira,“ segir Vilhjálmur.

Sýkingar í búfé

„Í svínaeldi í Danmörku er notað mikið að sýklalyfjum og bera svínin mikið af sýklalyfjaónæmum klasakokkum í sér og á. Rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjungur svínabænda í Danmörku bera í sér sýklalyfja­ónæma samfélagsmósa sem þeir hafa væntanlega fengið frá svínunum.

Bakteríurnar geta verið áfram í kjötinu eftir að dýrunum hefur verið slátrað og í raun óhjákvæmileg mengun sem erfitt er að komast hjá. Bakteríurnar berast því áfram með kjötinu. Aðeins lítill hluti bakteríanna drepst við frystingu því megnið af þeim leggst í dvala og klekst aftur út þegar kjötið er þítt.
Kosturinn við frystingu á kjöti er að hún heldur niðri vexti bakteríanna tímabundið. Þetta þýðir í raun að hingað geta hæglega borist ónæmar bakteríusýkingar með frystu kjöti og breiðst út eftir að það er þítt og handleikið.

Svíar hafa til þessa státað af því að rækta tiltölulega bakteríufría kjúklinga og nota tiltölulega lítið af sýklalyfjum við eldið. Nýleg könnun sýnir aftur móti að 30% af sænskum frosnum kjúklingum ber með sér sýklalyfjaónæma samfélagsmósa.“

Lýðheilsa eða gróðahyggja

Vilhjálmur segir að vissulega hafi læknar verið fullduglegir við að ávísa sýklalyfjum í gegnum tíðina. „Við getum aftur á móti hrósað happi yfir því að sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér er í algeru lágmarki. Aðstæður hér eru einnig góðar hvað varðar möguleika á hefta dreifingu klasakokka og vonandi verður svo áfram.

Spurningin er núna hvort við ætlum virkilega að spilla þessu forskoti sem við höfum hvað þennan þátt lýðheilsunnar varðar undir nafni neytendahagsmuna. Forskoti sem ekki fæst aftur ef við glötum því.
Hvort á að ráða meiru, lýðheilsa á Íslandi eða tilskipun frá EFTA sem gengur að mestu út frá aðstæðum landa í Mið-Evrópu og án tillits til sérstöðunnar hér á landi?“ segir Vilhjálmur Ari Arason. læknir og sérfræðingur í útbreiðslu baktería, að lokum.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...