Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Líf&Starf 18. maí 2017
Beint frá býli og Opinn landbúnaður í fræðsluferð til Noregs með Hey Iceland
Höfundur: Erla H. Gunnarsdóttir
Í lok apríl stóðu Hey Iceland í samvinnu við Beint frá býli og Opnum landbúnaði fyrir fræðsluferð til Noregs þar sem meðal annars félagar í Hanen-samtökunum voru sóttir heim. Samtökin eru vegvísir fyrir norskar byggðaperlur, hvort sem það snýr að mat og drykk eða gistingu þar sem bændur eru í flestöllum tilfellum í fararbroddi.
Dagskrá ferðarinnar var fjölbreytt þar sem níu staðir voru heimsóttir sem eru aðilar í Hanen-samtökunum, allt bændur sem eru að fást við mismunandi framleiðslu og rekstur. Einnig voru nokkrar náttúruperlur skoðaðar og norskar menningarminjar.
Fyrsti viðkomustaður í ferðinni var á Thorbjørnrud-hótelið í Jevnaker en eigandi þess, Olav Lie-Nilsen, keypti hótelið fyrir fimm árum þar sem hann býður gestum eingöngu upp á svæðisbundin matvæli. Gömlu sundlauginni á hótelinu var breytt í ostagerðarvinnslu og eru nú framleidd yfir 20 tonn af osti þar árlega. Hann notar alla framleiðslu af sveitabæ sínum á hótelinu.
Olav ólst upp í sveit og hefur alltaf verið upptekinn af ferðaþjónustubransanum, mat og matarmenningu og því segir hann sjálfur að hann sé í draumastöðu með því að skapa upplifanir og minningar fyrir gesti sína á hótelinu. Olav vill geta aukið meðvitund um svæðisbundin matvæli, lifandi menningu og dýravelferð og þess vegna hefur hann valið að hafa alla virðiskeðjuna á hótelinu hjá sér, það er, hann framleiðir eins mikið af matnum sjálfur sem notaður er á hótelinu. Þegar hann kvaddi hópinn minnti hann á að landbúnaður sé uppspretta endalausra sagna og var það gott veganesti inn í frekari heimsóknir ferðarinnar.
Villt dýr og menningarverðmæti
Því næst var haldið í náttúrugarðinn Langedrag sem er friðlýst svæði í um þúsund metra hæð yfir hafi milli Hallingdal og Numedal.
Stofnendur svæðisins, Eva og Edvin K. Thorson, byrjuðu á verkefninu árið 1978 en draumur þeirra var að gera sveitabæ þar sem gestir gætu fengið einstaka upplifun og nálægð við dýr og náttúruna. Hér er hugmyndafræðin um að náttúran sé okkar besti leiðbeinandi við lýði.
Í Langedrag eru um 350 dýr og 25 mismunandi dýrategundir. Hér er ostagerð og geitamjólkurframleiðsla ásamt skólabúðum fyrir nemendur. Á þessu friðlýsta svæði er hægt að komast í návígi við villt dýr eins og úlfa, gaupa, fjallaref, villisvín, elgi, moskúsa og hreindýr. Það var magnað að sjá og upplifa með eigin augum hversu mikla nánd Tuva hefur náð við villtu dýrin eins og gaupa og úlfa.
Hópurinn fékk einnig leiðsögn um Borgund stafkirkju sem er í Lærdal í Sognfylki. Kirkjan er byggð í kringum 1180, er vel varðveitt og er talin ein af þeim merkilegustu af þeim stafkirkjum sem eftir eru í landinu því stór hluti hennar er upprunalegur.
Flestar stafkirkjur í Noregi voru byggðar á árunum 1130–1350 þegar svarti dauði kom í veg fyrir meiri byggingarframkvæmdir. Um þúsund slíkar voru byggðar í Noregi en í dag eru einungis 28 sem hafa varðveist. Einnig var komið við hjá útsýnispallinum Stegastein í Aurland sem er 3,3 metra breið og 31 metra löng göngubrú sem gefur einstakt útsýni yfir Aurlandsfjörðinn. Útsýnispallurinn er 13 metra hár í 640 metra hæð yfir sjávarmáli og er hluti af þjóðlegu ferðamannavegunum sem Vegagerðin í Noregi stendur fyrir.
Lítil og heimilisleg sveitahótel
Næsti viðkomustaður var til 29/2 Aurland sem er sveitabær sem býður upp á gistingu og veitingar ásamt því að þjónusta veiðimenn. Þar tók Snædís Bjarnadóttir landslagsarkitekt á móti hópnum með svæðisbundnum epladjús, geitapylsu og geitaosti með flatbrauði. Eigendur staðarins, Tone Rönning Vike og Björn Vike, voru vant við látin og því hljóp Snædís í skarðið til að upplýsa íslenska hópinn um staðinn.
Tone og Björn eru með 9 herbergi, hún er blaðamaður og hann byggingameistari með sérmenntun í að gera upp gömul tréhús. Þau sögðu skilið við bæjarlífið í Bergen árið 2012 og fluttu út á land sem þau sjá ekki eftir.
Um kvöldið var veitinga- og gististaðurinn Store Ringheim í Voss sóttur heim þar sem eigandi staðarins, Svein Ringheim tók á móti hópnum. Hér rekur fjölskyldan níu herbergja sveitahótel ásamt veitingastað og sveitakrá þar sem sagan svífur í loftinu og var mjög heimilislegur bragur á staðnum.
Sviðahausar, eplavín og verðlaunasalerni
Rétt við Voss komst hópurinn í Evanger Landhandleri, litla sveitaverslun og kaffihús þar sem svæðisbundin matvæli eru í hávegum höfð.
Þar á eftir var Smalahovetunet við Voss sótt heim en þetta er eini staðurinn í Noregi sem framleiðir svið. Þau framleiða þó fleira en svið, eins og til dæmis hið ekta norska pinnekjött sem er jólamatur hjá allflestum. Pinnekjött eru söltuð og þurrkuð rif af sauðfé, Norðmennirnir setja mjóar birkispýtur í kross á djúpum potti og kjötið ofan á og sjóða í 2–3 tíma svo það losni af beininu.
Hér fékk hópurinn að smakka á norskri betasúpu sem svipar til íslenskrar kjötsúpu nema í hana er sett reykt kjöt og korv-pylsur. Eftir málsverðinn fékk hópurinn kynningu á staðnum og þeir sem vildu gátu sviðið kindahausa við opnum eldi en einnig fékk hann að sjá þegar hausarnir voru sviðnir í vél í verksmiðjunni.
Eftir sviðaheimsóknina í Smalahovetunet hélt hópurinn til Ulvik í Harðangursfirði þar sem Nils Lekve á sveitabænum Lekve var sóttur heim. Hann er einn þriggja aðila í ávaxta- og síderferðahringnum í Ulvik. Þetta eru einu aðilarnir í Noregi sem bjóða upp á slíka þjónustu, það er að taka á móti hópum í kynningu á ávaxtarækt, djús og víngerð en þeir tóku sig saman fyrir nokkrum árum til að bjóða upp á þessa upplifun sem er ólík hjá hverjum bónda fyrir sig.
Á Lekve-bóndabænum er hefðbundin ávaxtaræktun með epli, plómur og mórelluræktun. Einnig er veigamikil framleiðsla á eplasafa og síder en ásamt því er nútímaleg víngerð þar sem framleitt er eplabrennivín. Einnig er veitingastaður á bænum þar sem sæti eru fyrir 80 manns. Nils uppsker um 100 tonn á ári af eplum en pressar í kringum 300 tonn árlega í eplasafa og -vín.
Síðasta stoppið þennan daginn var hjá Skjervsfossen sem er mögnuð náttúruperla. Þetta er í raun tveir fossar sem renna mjög þétt eftir hver öðrum í 150 metra falli. Hér er búið að gera mjög fína aðstöðu fyrir fólk að skoða og ganga upp með fossinum sem var opnuð í fyrra og kostaði rúmar 200 milljónir íslenskra króna. Almenningssalernin við fossinn eru einnig markverð og þess virði að sjá en arkitektafyrirtækið Fortun AS hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir útfærsluna.
Á leið hópsins frá Voss til Bergen, undir lok ferðarinnar, var komið við á síðustu tveimur Hanen-stöðunum sem voru báðir nálægt Bergen. Annars vegar var það Lysefjorden Mikrobryggeri sem er lítið brugghús sem markaðssetur svæðisbundinn handverksbjór. Hér notast eigendurnir við hefðbundnar uppskriftir en gefa þeim persónulegan blæ með því að blanda hefðum og því sem nýjast er í bjórfræðunum saman. Þau keppast við að nota svæðisbundin og handtínd hráefni í bjórgerðina. Hafa þau unnið til nokkurra verðlauna, meðal annars fyrir besta bjórinn í Noregi árið 2015.
Hins vegar var síðasta heimsóknin til Bönes gårdsmat sem hefur verið starfrækt síðan 1975. Þetta er fjölskyldurekið fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á hágæða kjötvörum og má finna vörur þeirra í flestum stórum matvöruverslunum á vesturlandi Noregs en þau bjóða upp á 35 vörutegundir. Þau hafa unnið til margra verðlauna fyrir vörur sínar en markmið þeirra er að bjóða upp á meiri bragðupplifun með hreinna kjöti. Hér var afar vel tekið á móti hópnum þar sem Bønes-hjónin reiddu fram pylsur og kjötklatta úr eigin framleiðslu með salati og svæðisbundnum epladjús.
Um kvöldið komu formaður og framkvæmdastjóri Hanen-samtakanna, Bernt Bucher Johannessen og Jan Tjosås, til fundar við hópinn á hóteli í Bergen og kynntu starfsemi sinna samtaka sem hefur um 500 meðlimi og fer stækkandi.
Langflestir meðlimir Hanen eru bændur í ferðaþjónustu, veitingarekstri eða sem selja vörur sínar beint frá býli. Samtökin aðstoða þó einnig við að upplýsa um ýmiss konar afþreyingu í öllum landshlutum.