Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Reistarnes
Mynd / Mats Wibe Lund
Bóndinn 11. ágúst 2016

Reistarnes

Kristinn er fæddur og uppalinn í Reistarnesi. Faðir Kristins (Steinar Kristinsson) stofnaði nýbýlið Reistarnes út úr Nýhöfn á Sléttu árið 1955 og bjó sjálfur með fé til ársins 1977.  
 
Kristinn flutti að sunnan og aftur heim árið 1990 og keypti þá 100 kindur af Árna Pétri, bónda í Miðtúni, sem þá var að hætta búskap. Fénu fjölgaði svo jafnt og þétt upp í 360 ær.   
 
Í lok árs 2014 kynnast Kristinn og Ágústa. Sumarið 2015 kemur hún svo í Reistarnes með börnum sínum en hún bjó áður á jörð sinni, Meiðavöllum í Kelduhverfi, og stundaði þar fjárbúskap með annarri vinnu. Haustið 2015 tóku þau ákvörðun um að fjölga fénu í tæp 600 og keyptu um 250 ær af nágrönnunum í Leirhöfn sem voru að hætta búskap.
 
Býli:  Reistarnes.
 
Staðsett í sveit: Melrakkasléttu í N-Þingeyjarsýslu.
 
Ábúendur: Kristinn B. Steinarsson og Ágústa Ágústsdóttir. 
 
Fjölskyldustærð og gæludýr:
Á jörðinni okkar búum við, Kristinn og Ágústa, Jónína Freyja, 13 ára, Dagbjört Nótt, 11 ára, Bergsteinn Jökull, 8 ára og nýfædd dóttir okkar (fædd 22.07). Berglind Helga, 30 ára, dóttir Kristins, býr svo ásamt syni sínum, Benedikt Þór, 8 ára, í Reykjanesbæ. Svo eigum við fjárhundana Lappa, 4 ára og Vask, 10 mánaða.
 
Stærð jarðar? 400 hektarar út úr óskiptu landi Leirhafnar.
 
Gerð bús? Sauðfjárbú.
 
Fjöldi búfjár og tegundir? Um 600 fjár, u.þ.b. tíu hestar, fimm hænsni, tveir hundar og örlítið æðarvarp.
 
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?
Árstíðabundið eins og gengur og gerist í búrekstri. Fjárrag og sauðburður á vorin. Áburðargjöf, girðingarvinna og heyskapur á sumrin. Göngur og réttir á haustin. Í desember fengitíð. Yfir vetrartímann eru gegningar ásamt öðru tilfallandi. Og svo öll hin verkin. 
 
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Við reynum að ganga í öll verk með því hugarfari að hægt sé að gera allt leiðinlegt ef vilji er fyrir hendi. En eðlilega eru hlutir misskemmtilegir. Að hreinsa grindur myndi t.d. flokkast undir minnst skemmtilegustu vinnuna. Sauðburður, göngur og réttir hafa alltaf mikinn sjarma þegar vel gengur. Heyskapur og vélavinna tróna líka efst á listanum yfir skemmtilegustu verkin.
 
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Vonandi verða nokkrar breytingar orðnar á. Stefnum á að byggja við og auka fjölbreytnina í okkar atvinnurekstri. En tíminn mun leiða í ljós hvert stefnan leiðir okkur.
 
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Erum bara gríðarlega þakklát því fólki sem gefur áhuga sinn, orku og tíma í þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk. Þó finnst okkur stundum vanta upp á meiri samheldni og samstöðu í okkar litlu samfélögum því við eigum svo sannarlega undir högg að sækja í dreifðari byggðum landsins.
 
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Okkur mun vegna vel ef við höfum vit á að halda okkur utan ESB og markaðssetja lambakjötið af meiri krafti hér innanlands. Með öðrum orðum, að hætta að fela lambakjötið fyrir ferðamanninum á sama tíma og við tölum um að þetta sé þjóðarréttur Íslendinga. Koma okkur svolítið upp úr hjólförunum.
 
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Í lambakjöti, osti, smjöri, skyri og jógúrt. Einblína á fáa en góða markaði og að ekki séu of margir með hendurnar í því í einu. Öðruvísi gengur það ekki upp.   
 
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Harðfiskur, smjör, mjólk, ostur, sulta, egg og kartöflur.
 
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Steiktur fiskur, lambalæri eða hryggur, kjötsúpa, kjúklingur, pitsa, kjötbollur. Fer allt eftir því hvaða fjölskyldumeðlim um ræðir.
 
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Haustið 2015 þegar við vöknuðum við þá staðreynd að við erum orðnir einu íbúarnir sem eftir eru á Melrakkasléttunni.

7 myndir:

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...